Það er sameiginlegt verkefni hagstjórnaraðila hér á landi og víðar að skapa stöðugleika að nýju. Verðbólga hefur farið hratt vaxandi undanfarið. Mælist hún hér á landi 9,9% og langt yfir 2,5% verðbólgumarkmiði Seðlabankans en síðast var verðbólgan við markmið bankans í byrjun sumars 2020. Verðbólguvæntingar hafa hækkað og slakinn í efnahagslífinu er nánast horfinn. Peningastefnunefnd Seðlabankans hefur brugðist við þróuninni með hækkun stýrivaxta Seðlabankans frá því um mitt síðastliðið ár úr 0,75% upp í 4,75% eða um 4 prósentustig. Samhliða vaxtahækkunum bankans hafa vextir á útlánum til fyrirtækja hækkað ásamt vöxtum á óverðtryggðum húsnæðislánum. Hvort tveggja, aukin verðbólga og hækkun vaxta, bítur heimili og fyrirtæki fast um þessar mundir.
Fyrirtæki og heimili í landinu vilja stöðugleika. Með stöðugleika skapast skilyrði aukinna fjárfestinga, framleiðnivaxtar og hagvaxtar til lengri tíma heimilunum til heilla. Sú mikla verðbólga sem nú mælist er merki um ójafnvægi og óstöðugleika bæði á innlendum og erlendum markaði. Þetta er ekki það sem fyrirtækin og heimilin í landinu vilja.
Hækkun húsnæðisverðs hefur verið einn megindrifkraftur verðbólgu undanfarið hér á landi. Húsnæðisverð hefur hækkað um nær 25% á síðustu tólf mánuðum og hefur hækkunin verið að færast í aukanna síðustu mánuði. Augljóst ójafnvægi hefur verið í framboði og eftirspurn á íbúðamarkaði undanfarið sem hefur þrýst verðinu upp.
Mikill skortur hefur verið á fullbúnum nýjum íbúðum og hefur það haft talsvert að segja. Nú sjást merki um aukningu á íbúðum í byggingu á fyrstu byggingarstigum. Nokkuð er hins vegar í að þær íbúðir komi fullbúnar inn á markaðinn. Vöxtur mælist ekki í fjölda fullbúinna íbúða fyrr en á næsta ári skv. spá HMS og SI. Einnig er íbúðauppbygging enn undir því sem talið er nægjanlegt til að mæta þeirri þörf sem HMS hefur áætlað til næstu ára. Úr þessu þarf að bæta.
Ljóst er að hagstjórnaraðgerðir sem miða að því að auka framboð nýrra íbúða eru betur til þess fallnar að taka á ástandi íbúðamarkaðarins en vaxtatæki Seðlabankans. Í því sambandi er ánægjulegt að ríki og sveitarfélög undirrituðu nýverið rammasamning um uppbyggingu 35 þúsund íbúða á næstu tíu árum. Sammælast þessir aðilar þar með í fyrsta sinn um stefnu og aðgerðir til að tryggja húsnæðisuppbyggingu í samræmi við þörf.
Til að skapa stöðugleika á íbúðamarkaði skiptir nú mestu máli að öll sveitarfélögin fylgi samkomulaginu eftir. Breyta þarf skipulagi í þágu aukinnar uppbyggingar, taka þarf stjórnsýslu til gagngerrar endurskoðunar í þágu skilvirkni, gera lóðir tilbúnar og aðgengilegar og byggja þarf innviði. Með aðgerðum verður það þeirra stóra framlag til stöðugleika í landinu.
Þrátt fyrir að húsnæðisverð sé stór þáttur í verðbólgunni nú er verðbólga án húsnæðis mikil eða 7,5%. Verðbólgan hefur á þennan mælikvarða verið að aukast undanfarið en fyrir ári síðan mældist hún 3,4%. Aukin og mikil verðbólga er alþjóðleg þróun um þessar mundir og hefur það smitast hingað í gegnum innflutning. Mælist verðbólgan mikil í öllum helstu viðskiptalöndum okkar um þessar mundir. Þar sem þessi þáttur verðbólgunnar er utan áhrifasviðs innlendrar hagstjórnar væri best að horfa framhjá henni, þ.e. sleppa henni í gegn án aðgerða. Lækkun á heimsmarkaðsverði hrávöru og olíuverði undanfarið benda til þess að úr þessum þætti verðbólgunnar kunni að draga á næstunni.
Litið til næstu mánaða er gerð kjarasamninga lykilbreyta í því að ná tökum á verðbólgu og vaxtastigi. Segja má að stóra málið sé að halda stöðugleika á vinnumarkaði. Mikilvægt er að kaupmáttaraukning síðustu ára týnist ekki í þeirri vegferð. Rekstrarumhverfi fyrirtækja er krefjandi eftir samdrátt síðustu missera, hækkandi hráefniskostnað, miklar launahækkanir undanfarin ár og aukna verðbólgu. Samkeppnisstaða innlendra fyrirtækja gagnvart erlendum er erfið. Vegna þessa þarf samtal aðila vinnumarkaðarins að taka mið af því að svigrúm til launahækkana er lítið sem ekkert og því þarf fremur að líta til tækifæra til að auka hagvöxt og stuðla að lækkun vaxta með samhentu átaki. Kjarasamningar eru nú gerðir við afar krefjandi aðstæður. Ljóst er að þeir þurfa að taka mið af síbreytilegri samsetningu atvinnulífs og vexti nýrra iðngreina á undanförnum árum. Tækifæri er til að gera þetta vel. Verði sú raunin er skapaður grundvöllur aukins stöðugleika og hagvaxtar litið til næstu ára.
Höfundur er aðalhagfræðingur Samtaka iðnaðarins.
Það er sameiginlegt verkefni hagstjórnaraðila hér á landi og víðar að skapa stöðugleika að nýju. Verðbólga hefur farið hratt vaxandi undanfarið. Mælist hún hér á landi 9,9% og langt yfir 2,5% verðbólgumarkmiði Seðlabankans en síðast var verðbólgan við markmið bankans í byrjun sumars 2020. Verðbólguvæntingar hafa hækkað og slakinn í efnahagslífinu er nánast horfinn. Peningastefnunefnd Seðlabankans hefur brugðist við þróuninni með hækkun stýrivaxta Seðlabankans frá því um mitt síðastliðið ár úr 0,75% upp í 4,75% eða um 4 prósentustig. Samhliða vaxtahækkunum bankans hafa vextir á útlánum til fyrirtækja hækkað ásamt vöxtum á óverðtryggðum húsnæðislánum. Hvort tveggja, aukin verðbólga og hækkun vaxta, bítur heimili og fyrirtæki fast um þessar mundir.
Fyrirtæki og heimili í landinu vilja stöðugleika. Með stöðugleika skapast skilyrði aukinna fjárfestinga, framleiðnivaxtar og hagvaxtar til lengri tíma heimilunum til heilla. Sú mikla verðbólga sem nú mælist er merki um ójafnvægi og óstöðugleika bæði á innlendum og erlendum markaði. Þetta er ekki það sem fyrirtækin og heimilin í landinu vilja.
Hækkun húsnæðisverðs hefur verið einn megindrifkraftur verðbólgu undanfarið hér á landi. Húsnæðisverð hefur hækkað um nær 25% á síðustu tólf mánuðum og hefur hækkunin verið að færast í aukanna síðustu mánuði. Augljóst ójafnvægi hefur verið í framboði og eftirspurn á íbúðamarkaði undanfarið sem hefur þrýst verðinu upp.
Mikill skortur hefur verið á fullbúnum nýjum íbúðum og hefur það haft talsvert að segja. Nú sjást merki um aukningu á íbúðum í byggingu á fyrstu byggingarstigum. Nokkuð er hins vegar í að þær íbúðir komi fullbúnar inn á markaðinn. Vöxtur mælist ekki í fjölda fullbúinna íbúða fyrr en á næsta ári skv. spá HMS og SI. Einnig er íbúðauppbygging enn undir því sem talið er nægjanlegt til að mæta þeirri þörf sem HMS hefur áætlað til næstu ára. Úr þessu þarf að bæta.
Ljóst er að hagstjórnaraðgerðir sem miða að því að auka framboð nýrra íbúða eru betur til þess fallnar að taka á ástandi íbúðamarkaðarins en vaxtatæki Seðlabankans. Í því sambandi er ánægjulegt að ríki og sveitarfélög undirrituðu nýverið rammasamning um uppbyggingu 35 þúsund íbúða á næstu tíu árum. Sammælast þessir aðilar þar með í fyrsta sinn um stefnu og aðgerðir til að tryggja húsnæðisuppbyggingu í samræmi við þörf.
Til að skapa stöðugleika á íbúðamarkaði skiptir nú mestu máli að öll sveitarfélögin fylgi samkomulaginu eftir. Breyta þarf skipulagi í þágu aukinnar uppbyggingar, taka þarf stjórnsýslu til gagngerrar endurskoðunar í þágu skilvirkni, gera lóðir tilbúnar og aðgengilegar og byggja þarf innviði. Með aðgerðum verður það þeirra stóra framlag til stöðugleika í landinu.
Þrátt fyrir að húsnæðisverð sé stór þáttur í verðbólgunni nú er verðbólga án húsnæðis mikil eða 7,5%. Verðbólgan hefur á þennan mælikvarða verið að aukast undanfarið en fyrir ári síðan mældist hún 3,4%. Aukin og mikil verðbólga er alþjóðleg þróun um þessar mundir og hefur það smitast hingað í gegnum innflutning. Mælist verðbólgan mikil í öllum helstu viðskiptalöndum okkar um þessar mundir. Þar sem þessi þáttur verðbólgunnar er utan áhrifasviðs innlendrar hagstjórnar væri best að horfa framhjá henni, þ.e. sleppa henni í gegn án aðgerða. Lækkun á heimsmarkaðsverði hrávöru og olíuverði undanfarið benda til þess að úr þessum þætti verðbólgunnar kunni að draga á næstunni.
Litið til næstu mánaða er gerð kjarasamninga lykilbreyta í því að ná tökum á verðbólgu og vaxtastigi. Segja má að stóra málið sé að halda stöðugleika á vinnumarkaði. Mikilvægt er að kaupmáttaraukning síðustu ára týnist ekki í þeirri vegferð. Rekstrarumhverfi fyrirtækja er krefjandi eftir samdrátt síðustu missera, hækkandi hráefniskostnað, miklar launahækkanir undanfarin ár og aukna verðbólgu. Samkeppnisstaða innlendra fyrirtækja gagnvart erlendum er erfið. Vegna þessa þarf samtal aðila vinnumarkaðarins að taka mið af því að svigrúm til launahækkana er lítið sem ekkert og því þarf fremur að líta til tækifæra til að auka hagvöxt og stuðla að lækkun vaxta með samhentu átaki. Kjarasamningar eru nú gerðir við afar krefjandi aðstæður. Ljóst er að þeir þurfa að taka mið af síbreytilegri samsetningu atvinnulífs og vexti nýrra iðngreina á undanförnum árum. Tækifæri er til að gera þetta vel. Verði sú raunin er skapaður grundvöllur aukins stöðugleika og hagvaxtar litið til næstu ára.
Höfundur er aðalhagfræðingur Samtaka iðnaðarins.