Skortsala leiðir til skilvirkari verðmyndunar, eykur seljanleika sem minnkar viðskiptakostnað og eykur stöðugleika á mörkuðum þar sem hún dregur úr sveiflum. Þrátt fyrir öll þessi jákvæðu áhrif, sem veita öfluga fjárfestavernd, hefur umræða um skortsölu oftar en ekki verið á þá leið að reynt er að gera hana tortryggilega og hún litin hornauga. Rökin þar á bak við hafa m.a. verið á þá leið að skortsala keyri niður eignaverð að ósekju, auki á sveiflur, auki mögulega líkur á markaðsmisnotkun og sumir jafnvel gengið svo langt að halda því fram að hún skapi siðferðisvanda, þar sem hvati skapist til þess að tala niður hlutabréf.

Allar rannsóknir sem gerðar hafa verið á takmörkunum á skortsölu hafa hins vegar leitt í ljós að skortsala sé hvorki orsakavaldur lægra eignarverðs né auki á sveiflur. Aftur á móti hafi takmarkanirnar, þvert gegn áformum þeirra sem lögðu þær á, aukið á sveiflur og dregið úr seljanleika. Er hér alveg sama hvort litið er til fjármálakrísunnar 2008, evrópsku skuldakrísunnar árin 2011-2012 eða til mikilla lækkana árið 2020 í kjölfarið á Covid-19.

Mótvægi vantar í verðmyndun

Skortsala fer í einföldu máli þannig fram að fjárfestir selur bréf sem hann á ekki heldur fær þau lánuð til að afhenda kaupanda í uppgjöri. Íslenskur verðbréfamarkaður hefur í gegnum tíðina liðið fyrir það hversu takmarkaðir möguleikar hafa verið til verðbréfalána. Þetta á sérstaklega við á hlutabréfamarkaði en á skuldabréfamarkaði njóta aðalmiðlarar ríkisbréfa og annarra skuldabréfa með viðskiptavakt verðbréfalánafyrirgreiðslu frá útgefendum bréfanna sem styður við verðmyndun flokkana.

Lítið umfang verðbréfalána á hlutabréfamarkaði skekkir hins vegar verðmyndun og eykur líkurnar á því að hún verði of einhliða. Þegar fjárfestir kaupir í félagi þar sem hann telur að verð þess muni hækka er sá möguleiki til staðar að fjármagna kaup að hluta með  skuldsetningu. Skuldsettu kaupin lýsa þá mikilli trú á viðkomandi félagi. En mótvægið vantar, þ.e. möguleikann á að veðja á verðlækkun hafi fjárfestir þá skoðun, og þar með jafnvægið í verðmyndunina. Þessar aðstæður geta illu heilli leitt til þess að blása of miklu lofti í hækkanir á markaði sem leiðir svo af sér miklar lækkanir á móti. Skýr fjárfestavernd ætti að felast í að sporna gegn því að aðstæður sem þessar skapist á markaðnum.

Ákjósanlegasta lánveitandann vantar

Ástæðuna á bak við lítið umfang verðbréfalána má vafalítið rekja til þess að öfugt við öll hin Norðurlöndin og önnur vestræn ríki er stærstu langtímafjárfestunum á íslenska markaðnum, lífeyrissjóðum með ríflega þriðjungs eignarhald, óheimilt að lána verðbréf. Í áhugaverðri umfjöllun Hluthafans á dögunum, um skortsölu og verðbréfalán, kom fram að það litla framboð sem í boði er af lánsbréfum sé kvikt, enda byggi það helst á veðsettum hlutabréfum sem bankarnir sitja á. Aftur á móti fjárfesta lífeyrissjóðir almennt til langs tíma og eru sá fjárfestir á markaðnum  sem heldur hvað lengst á bréfum. Af því leiðir að lífeyrissjóðir eru án nokkurs vafa ákjósanlegasti lánveitandinn á markaðnum.

Þá gætu einnig falist töluverðir tekjumöguleikar fyrir lífeyrissjóði verði þeim veitt heimild til verðbréfalána. Í mjög svo áhugaverðri umfjöllun norska olíusjóðsins um verðbréfalánastarfsemi, sem sjóðurinn telur vera einn af grunnþáttum í sinni fjárfestingarstarfsemi, kemur fram að ávöxtun af hlutabréfalánum hefur að meðaltali verið um 0,084% af öllu hlutabréfasafni sjóðsins, þ.e. ekki bara af þeim bréfum sem standa lántakendum til boða, á ári frá 1999. Sé sú tala margfölduð á hlutabréfaeign íslenskra lífeyrisjóða er ljóst að samsvarandi ávöxtun hleypur á hundruðum milljóna á ári hverju. Með því að ýta undir skilvirkari markað og verðmyndun, aukna fjárfestavernd og lægri viðskiptakostnað auk nýrra tekjumöguleika ættu verðbréfalán því að samræmast vel hlutverki lífeyrissjóða sem langtímafjárfesta.

Höfundur er sérfræðingur hjá Nasdaq Iceland.