Lattelepjandi borgarlúðunum í Ráðhúsinu brá heldur betur í brún þegar snjóa tók í nyrstu höfuðborg jarðar í desember. Það var næstum eins og slíkt hefði aldrei gerst áður. Einhverjir gætu haldið að áróður um hlýnun jarðar hefði villt um fyrir sérfræðingunum þannig að þeir héldu að snjór á Íslandi heyrði sögunni til. Það er ef þetta væri ekki sama sagan á hverju einasta ári.

Fleiri snjóruðningstæki sinntu íbúum höfuðborgarsvæðisins utan Reykjavíkur en í Reykjavík, þrátt fyrir að í borginni búi langtum fleiri. Á meðan gul veðurviðvörun var í gildi um allt land nema á höfuðborgarsvæðinu, voru það helst borgarbúar sem sátu grafnir inni í íbúðahverfum sínum. Fólk var farið að sinna sjálfsögðu þjónustuhlutverki borgarinnar með því að handmoka götur hennar með skóflum.

Alexandra Briem, forseti borgarstjórnar, átti stórleik í atriði sem skrifar sig sjálft inn í væntanlegt áramótaskaup þegar hún var til viðtals á RÚV um ástandið í borginni: „Eitt af því sem við erum núna að skoða er að við erum með stýrihóp um endurskoðun á þjónustuhandbók vetrarþjónustu í Reykjavíkurborg,“ sagði hún.

***

Það var ekki eingöngu í Ráðhúsinu sem menn hafa verið í tómu rugli undanfarna daga. Reykjanesbraut hefur meira og minna verið lokuð og hvorki gengið né rekið að koma fólki til og frá alþjóðaflugvellinum okkar. Ferðamenn höfðu húmor fyrir ástandinu fyrst en eftir að hafa verið frelsissviptir í vosbúð, sofandi á töskubeltum án þess að fá vott né þurrt, svo dögum skipti halda þeir til sinna heima með heldur dapurlega landkynningu í farteskinu.

***

Tý líður eins og álíka veður, og jafnvel ívið verra, hafi oft gengið yfir á Suðvesturhorni landsins án þess að gripið sé til svo víðtækra og langdreginna lokanna. Við fengum aðeins að kynnast þessu í fyrra þegar Hellisheiði var lokuð svo dögum skipti. Getur verið að með covid hafi hið opinbera lest við að taka á málum og sé viljugra til að grípa til viðvarana og lokana?

„Aldrei aftur“ sagði Sigurður Ingi Jóhannsson innviðaráðherra, en völva Týs spáir því að snjórinn muni koma eins og skrugga úr skíru lofti á næsta ári, líkt og á hverju ári.

Týr er einn af reglulegum skoðanadálkum Viðskiptablaðsins. Þessi birtist í Viðskiptablaðinu sem kom út 22. desember.