Nú styttist óðum í jólahátíðina. Raunar ekkert meira en aðra daga ársins, en hlutfallslega meira með hverjum klukkutímanum sem líður. Spenningurinn hjá unga fólkinu fer að ná hámarki og stressið hjá okkur fullorðna fólkinu sömuleiðis, því margt þarf að klára áður en klukkan slær sex á laugardaginn.

Jólin eru yndislegt fyrirbæri. Þau lýsa upp skammdegið og lífga upp á tilveruna. Þau eru tími samheldni og kærleika, eins konar allsherjaryfirlýsing um að við séum í þessu öll saman og ætlum að hjálpa hvert öðru að þrauka til vors, í gegnum kuldann, slabbið og myrkrið. Við klæðum okkur í sparifötin til að heiðra ástvini okkar, gerum vel við okkur í mat og drykk og eigum notalega stund saman.

Einu sinni heyrði ég eldkláran hagfræðing tala um „velferðartapið“ sem fylgdi jólagjöfum, þar sem gefandinn gæti aldrei vitað hvað móttakandann langaði nákvæmlega í. Betra væri að fólk stjórnaði því sjálft hvað það fengi að gjöf.

Ferlar og skurðpunktar framboðs og eftirspurnar færast eilítið til þegar væntumþykjan er tekin með í reikninginn.

Eins og við vitum höfum við sem erum hagfræðimenntuð tilhneigingu til þess að vilja koma tölu á hlutina og setja mannlegt samfélag í líkan, en gleymum því oft að breyturnar eru gjarnan margbreytilegar og persónubundnar í margslunginni og flókinni veröld.

Ég held til dæmis að við þessa útreikninga hafi þessi góði fræðimaður gleymt að taka tillit til þeirrar yfirlýsingar um kærleika sem fylgir því að finna gjöf handa þeim sem manni þykir vænt um. Ferlar og skurðpunktar framboðs og eftirspurnar færast eilítið til þegar væntumþykjan er tekin með í reikninginn.

Virði jólagjafa er heldur ekki alfarið talið í krónum og aurum, heldur einmitt í þessu ávarpi gefandans til þiggjandans: Ég met þig mikils og við erum í þessu streði saman, í gegnum sætt og súrt.

Það er andi jólanna.

Pistillinn birtist í Viðskiptablaðinu, sem kom út fimmtudaginn 22. desember 2022.