Richard Sharp, stjórnarformaður breska ríkisútvarpsins, BBC, var í áhugaverðu viðtali við The Sunday Times um helgina. Þar lýsti hann yfir að vinstri slagsíða væri á fréttaflutningi og dagskrárgerð stofnunarinnar. Til þess að bregðast við þess hefur hann ásamt Tim Davie útvarpsstjóra samið áætlun um óhlutdrægni sem meðal annars felur í sér þjálfun gegn slagsíðu auk þess sem fréttaefni verður rýnd í viðleitni yfirstjórnarinnar til að takast á við vandann.

Auk þess kvartaði Sharp yfir þekkingarleysi fréttamanna BBC á efnahags- og viðskiptamálum. Orðrétt er eftir honum haft í The Sunday Times:

„Fréttamenn og fréttastjórar BBC eru fyrsta flokks en innan stofnunarinnar skilja menn ekki viðskipti og fjármál eins vel og þeir ættu að gera. Við verðum að útskýra þau mál betur, einkum á tímum þegar verðbólga neyðir stjórn og stjórnarandstöðu til að taka mjög erfiðar ákvarðanir.“

Það er áhugavert að velta Ríkisútvarpinu fyrir sér í þessu samhengi. Blinda á viðskipti og efnahagsmál hefur verið ríkjandi í fréttaflutningi RÚV um langt skeið. Lítil þekking starfsmanna á þessum málaflokkum hefur meðal annars gert að verkum að þeir eru afar háðir sérfræðingum og álitsgjöfum þegar kemur að umfjöllun um þessi mál. Þeir eru sjaldnast óháðir eins og gengur og gerist og flóra þeirra sem RÚV leitar til er ekkert sérstaklega fjölbreytt.

En miðað við þá sjálfhverfu sem einkennir Ríkisútvarpið er óhugsandi að einhver innanbúðarmaður þar fyndi að slagsíðu og hvað þá að eitthvað yrði gert í því. En á móti kemur að menn hafa kallað til „útvarpsþings“ af minna tilefni.

***

Rekstur Reykjavíkurborgar er í járnum eins og margir hafa bent á undanfarin ár við litlar undirtektir flestra miðla. Eins og fram hefur komið undanfarnar vikur kennir borgarmeirihlutinn Covid og stríðinu í Úkraínu um. Margir fjölmiðlar gleypa við þessum skýringum og fjalla ekki um þá staðreynd að það er skuldasöfnun og mikil útgáfa á verðtryggðum skuldabréfum sem er að leika fjárhag borgarinnar grátt ásamt litlu sem engu aðhaldi í rekstrinum.

Til þess að bregðast við ástandinu hefur meirihlutinn lagt fram sparnaðaraðgerðir. Þær hafa verið til umfjöllunar í fjölmiðlum undanfarið. Margt í þessum tillögum kallar á frekari umfjöllun þó ekki sé um stórmál að ræða. Þau afhjúpa hins vegar áhugaverða sýn á hvert hlutverk borgarinnar sé að mati meirihlutans er.

Þannig er kveðið á í tillögunum að borgin hætti að borga bílastæði starfsmanna við Höfðatorg og niður í miðborginni. Fjölmiðlum ætti að þykja forvitnilegt að borgin greiði bílastæði fyrir starfsmenn sína meðan hún rukkar alla aðra sem erindi eiga í miðborgina. Þá er þetta forvitnilegt, svo ekki sé sterkar að orði kveðið, í ljósi áherslna borgarinnar í samgöngumálum.

Fram kemur í sparnaðartillögunum að bílastæðin sem greitt er fyrir við Höfðatorg séu hluti af leigusamningi. Borgin vill láta af afnotum þeirra gegn lægri leigu. Ef það gengur ekki upp kemur fram að bjóða eigi bílastæðin upp. Áhugavert væri að fá frekari umfjöllun um fyrsta bílastæðaútboð borgarinnar og hvað reiknimeistarar meirihlutans telji raunhæft að það skili.

Þá kemur einnig fram í tillögunum að draga eigi úr niðurgreiðslu tónlistarnáms fullorðinna. Það að borgin hafi komið til móts við miðaldra fólk sem á krossgötum í lífi sínu ákvað að fara að læra á túbu svo dæmi sé tekið er afar áhugavert og ætti að vekja meiri forvitni hjá fjölmiðlum.

Fjölmiðlarýni er einn af skoðanadálkum Viðskiptablaðsins. Þennan pistil má lesa í heild í Viðskiptablaðinu sem kom út þann 8. desember 2022.