Þegar stjórnarmyndunarviðræður Flokks fólksins, Samfylkingar og Viðreisnar áttu sér stað stærðu leiðtogar flokkanna sig af því hversu vönduð vinnubrögð þeirra væru. Sjálfhól hefur síðan reynst vera eitt af leiðarstefum pólitískrar orðræðu formanna flokkanna.

Vísað var til þessara vönduðu vinnubragða meðal annars með því að benda á ógrynni af minnisblöðum sem embættismenn í Stjórnarráðinu hefðu unnið að beiðni formannanna. Nú er komið á daginn að ríkisstjórnarflokkarnir virtu að vettugi það sem stóð í þessum minnisblöðum – að minnsta kosti í tveimur stærstu málunum sem ríkisstjórnin hefur lagt fram til þessa: Hækkun veiðileyfagjaldsins og áform um að tengja örorku- og ellilífeyrisbætur við launavísitöluna.

Morgunblaðið hefur að undanförnu fjallað um þessi minnisblöð. Í þeirri umfjöllun kemur meðal annars fram að embættismenn í fjármálaráðuneytinu hafi varað við að tengja veiðigjöldin við annars vegar jaðarverð á lítt skilvirkum fiskmörkuðum hér á landi og við fjarstæðukenndum hugmyndum að tengja verðmyndunina sem mun liggja að baki ákvörðun veiðigjalda á uppsjávarfisk við verðmyndun á norska markaðnum.

Í minnisblaði frá sama ráðuneyti um áform um að tengja bætur við þróun launavísitölu koma fram varnaðarorð. Þar segir: „Ef bætur almannatrygginga eru tengdar vísitölu launa felur það í sér talsverða sjálfvirknivæðingu í útgjaldaþróun ríkissjóðs sem til lengri tíma getur veikt sjálfbærni ríkisfjármála.“

Starfsmenn ráðuneytisins benda á þau augljósu sannindi að bótagreiðslur eru ekki laun fyrir vinnuframlag og þar af leiðandi orki tvímælis að tengja þær við launavísitöluna sem tekur til innbyggðra aldurshækkana eða nú framleiðni- og hagvaxtaraukningar.

Fleiri sérfræðingar vara við áformum ríkisstjórnarinnar. Í álitsgerð fjármálaráðs um fjármálastefnu ríkisstjórnarinnar, sem birt var í síðustu viku, eru þau gagnrýnd harðlega. Þar segir að þau feli í sér grundvallarbreytingu á fjármögnun hins opinbera og þær muni hafa veruleg áhrif á sjálfbærni opinberra fjármála. Fjármálaráð gagnrýnir að engin greining liggi fyrir á áhrifum þess að vísitölutengja bótagreiðslurnar.

Þetta virðist ætla að vera leiðarstef hjá ríkisstjórn Kristrúnar Frostadóttur forsætisráðherra. Að ráðast í víðtækar breytingar án þess að gera sér nokkra grein fyrir hvaða áhrif þær munu hafa á fjárhag ríkissjóðs og efnahagslífið.

Sérfræðingar eru sammála um að vísitölutengingin muni leiða til mikillar hækkunar bótagreiðslna þegar fram í sækir. Að sama skapi munu lítt ígrunduð áform um og útfærsla á hækkun veiðileyfagjalda án efa draga úr verðmætasköpun í sjávarútvegi. Í því máli snúast átökin ekki um hvort útgerðin eigi að greiða veiðileyfagjöld heldur um útfærslu skattheimtunnar en flestir sem hafa nokkra innsýn í rekstur sjávarútvegsfyrirtækja eru sammála um að útfærsla ríkisstjórnarinnar grefur undan landvinnslunni og mun reynast bylmingshögg fyrir landsbyggðina.

Ríkisstjórn Kristrúnar Frostadóttur starfar eftir stefnuyfirlýsingu þar sem lögð er áhersla á að tryggja sjálfbærni ríkisfjármála og auka verðmætasköpun í hagkerfinu. Stefnumál hennar eru því miður til þess fallin að grafa undan ríkisfjármálum og verðmætasköpun í þessum tveimur veigamiklu málum. Sporin eru farin að hræða.

Þessi leiðari birtist fyrst í Viðskiptablaðinu sem kom út 23. apríl 2025.