Á mánudagskvöld birtust fréttir á netmiðlunum um að hjúkrunar- fræðingur á bráðamóttöku Landspítalans væri búinn að fá nóg. Tilefnið voru skrif hjúkrunarfræðingsins, sem heitir Soffía Steingrímsdóttir, sem birtust á samfélagsmiðlum fyrr um kvöldið. Þar segir hún farir sínar ekki sléttar og ástandið á bráðamóttökunni vera neðan allar hellur og það sem eftir lifir að kvöldi hennar muni fara í ritun uppsagnarbréfs. Að morgni þriðjudags var hún svo mætt í morgunútvarpsþátt til að fara með sömu ræðuna.
Nú má velta fyrir sér hversu fréttnæmt það er að ríkisstarfsmaður sé að bugast á vinnunni. Netmiðlunum finnst það greinilega því þegar nafni Soffíu er slegið inn í leitarvélar má finna nokkurn fjölda frétta þar sem sama stef er kveðið. Þannig má sjá fréttir af því að Soffía lýsti því yfir á Facebook að hún væri búin að fá nóg af ástandinu á Landspítalanum í nóvember í fyrra. Ekki hafði það batnað milli mánaða því í október fluttu netmiðlar fleiri fréttir af því að Soffía væri einnig búinn að fá nóg þá.
Hér er ekki verið að gera lítið úr því álagi sem kann að vera á heilbrigðiskerfinu. En spyrja má hversu gagnlegur sífelldur fréttaflutningur fjölmiðla af heilbrigðisstarfsfólki sem er að bugast er í raun og veru og hvaða fréttagildi hann hefur? Í stað þess að klifa á slíkum uppslætti ættu fjölmiðlar frekar að reyna varpa ljósi á hver vandinn er í raun og veru. Þeir sem hafa fylgst með fréttum undanfarna áratugi vita að samkvæmt fjölmiðlum er íslenska heilbrigðiskerfið alltaf að hruni komið að sögn sumra starfsmanna.
Virðist það óháð fjárframlögum ríkisins og þar af leiðandi er ljóst að það er eitthvað við stjórn og skipulag sem nauðsynlegt er fyrir fjölmiðla að fjalla um frekar en að segja frá fólki sem segist vera búið að fá nóg. Sem kunnugt er er búið að ráða nýjan stjórnenda yfir Landspítalanum og kynntar hafa verið breytingar í rekstri hans sem lúta meðal annars að þjónustutengdri fjármögnun og útvistun og mættu fjölmiðlar fjalla um hvernig sú innleiðing gengur og hvaða árangri hún er líkleg til að skila við lausn á vanda spítalans í stað þess að flytja regluleg tíðindi af harmakveinum heilbrigðisstarfsfólks.
Fréttin er hluti af lengri umfjöllun í nýjasta tölublaði Viðskiptablaðsins.