Nýyrði og endurvinnsla orða í íslenskum stjórnmálum eru góð og gild pólitísk klókindi. Þau gagnast þeim helst sem vita að hugmyndir þeirra yrðu metnar óvinsælar ef sagðar beint út. Þetta er því oftar en ekki leið til að pakka inn óvinsælu innihaldi í fallegar umbúðir.
„Aðhald á tekjuhliðinni“ er eitt þessara hugtaka sem reynt var að troða ofan í landann á hápunkti verðbólgunnar. Aðhald er frábært íslenskt orð sem á mjög breiða skírskotun, allt frá hversdagslegum aðhaldssokkabuxum til aðhalds í ríkisrekstri. Merkingin á bakvið orðið er ætíð sú sama, óháð því hvert andlag aðhaldsins er.
Í orðabókinni segir:
„Aðhald no hk
- eftirlit og kröfur um árangur eða hlýðni
- sparnaður
- megrun
- rétt eða gerði fyrir búfénað (gamalt)“
Í stjórnmálum er oftar en ekki átt við merkingu í tölulið tvö – sparnað. Þannig er stjórnmálamönnum tíðrætt um aðhaldskröfu sem merkir að ríkisstjórnin eða löggjafavaldið krefji ráðuneyti og undirstofnanir þeirra um að spara fjármuni samanborið við fyrra ár. Orðið aðhald hefur þannig fyrst og fremst snúist um að draga úr útgjöldum.
Í því ljósi er athyglisvert að velta fyrir sér hugmyndinni um aðhald á tekjuhliðinni. Þá er ekki verið að ræða aukið eftirlit og kröfur um árangur eða hlýðni í skattheimtu. Ekki að eyða eigi minni tekjum, né fara í einhverskonar megrun í þeim efnum. Þvert á móti merkir aðhald á tekjuhliðinni að afla frekari tekna. Á mannamáli kallast það skattahækkanir.
Aðhald vegna hallareksturs ríkisins?
Samkvæmt Seðlabanka Íslands þá er markmið aukins aðhalds fyrst og fremst það að skila ríkisrekstrinum í minni halla. Ríkisstjórnin getur m.ö.o. stutt við peningastefnu Seðlabankans hvort sem farið er í sparnað eða aukna skattheimtu til þess að draga úr hallarekstri ríkisins. Það leiði enda af sér minni spennu í þjóðarbúinu sem svo leiðir af sér lægri verðbólgu sem í kjölfarið leiðir af sér stýrivaxtalækkun. Ef allt gengur að óskum.
Lítum nú aðeins undir húddið. Það að minnka hallarekstur ríkisins með auknum sparnaði eða auknum sköttum er ekki jafngilt. Áhrifin á hagkerfið eru ekki þau sömu.
Nýleg greining Seðlabanka Íslands leiðir í ljós að aukið aðhald á útgjaldahlið (þ.e.a.s. aukinn sparnaður ríkisins) til þess að skila 60 milljarðar króna minni halla á rekstri ríkissjóðs hafi meiri og hraðari áhrif en aukin skattheimta á fólk og fyrirtæki (eða aðahaldsaðgerðir á tekjuhlið, eins og sumir vilja kalla þær).
Aukið aðhaldi hefur bein áhrif á efnahagsumsvifin með því að draga úr eftirspurn hins opinbera eftir vörum og þjónustu. Á meðan hafa meintar aðhaldsaðgerðir á tekjuhlið einungis óbein áhrif í gegnum minnkandi ráðstöfunartekjur heimila eða fyrirtækja. M.ö.o., þá er áhrifaríkara að beita aðhaldi á útgjaldahlið ríkisins heldur en að láta fólkið í landinu borga fyrir aðhaldið með auknum sköttum og minni ráðstöfunartekjum.
Aðhald í orði en ekki á borði
Í ofanálag eru þau sem hafa tileinkað sér þetta orðfæri ekki að tala um aðhald á tekjuhliðinni til þess að draga úr hallarekstri ríkisins eða draga úr þenslu í hagkerfinu. Öllum til heilla. Nei, þetta er einfaldlega „aðhald“ sem er jafn óðum varið í ný útgjöld. Slíkt „aðhald á tekjuhlið“ og aukin útgjöld leiða einfaldlega af sér hærri skattar, meiri verðbólga og minni ráðstöfunartekjur borgaranna í lok hvers mánaðar.
Kæri lesandi, láttu ekki glepjast af pólitískum nýyrðum með óljósa merkingu þó þau kunni að hljóma vel í fyrstu. Hvort sem skattahækkunum er ætlað að minnka hallarekstur ríkissjóðs eða til að verja í ný útgjöld þá skila þær minni árangri en aðhald á útgjaldahlið. Ef þú vilt raunverulega að stjórnvöld leggi sitt af mörkum til að ná niður verðbólgu, og vöxtum í kjölfarið, þá er besta leiðin til þess í gegnum hagræðingu í rekstri ríkisins. Aðrar lausnir eru fugl í skógi en ekki hendi.
Höfundur er atferlishagfræðingur og er í 5. sæti á framboðslista Sjálfstæðisflokksins í Reykjavík Norður.