Í öllum fyrirtækjum, ekki síst rótgrónum, er mikilvægt að skapa bæði framtíðarsýn sem virkjar kraftinn sem felst í nýsköpun og framþróun, og umhverfið sem styður við slíka sýn. Að fara út fyrir þægindarammann á að vera sjálfsagður hlutur því utan hans liggja oft á tíðum bestu tækifærin til að vaxa.

Á flestum sviðum nútímasamfélags geta aðstæður breyst nánast yfir nótt og það er nauðsynlegt að geta hreyft sig hratt til að missa ekki af tækifærum sem skapast, stundum nánast fyrirvaralaust.

Hver er staðan, allt í góðu? Allt samkvæmt áætlun og engin ástæða til breytinga? Gott, en ef sú er ekki raunin er sterkur leikur að bregðast við áður en það er orðið of seint, því við vitum að markaðir breytast á hverjum degi og sömuleiðis væntingar, óskir og þarfir viðskiptavina.

Sífelld endursköpun

Framtíðarþenkjandi leiðtogar reyna stöðugt að skapa sóknar - og vaxtarmiðaða fyrirtækjamenningu. Hún snýst ekki bara um að kalla eftir nýstárlegum hugmyndum heldur líka að nýta gögn sem verða til í núverandi starfsemi til að gera enn betur. Sífelld endursköpun er nauðsynleg til að fyrirtæki geti vaxið. Það þarf að þora að ögra núverandi ástandi. Árangur næst ef það er hluti af fyrirtækjamenningunni, og þykir eðlilegt, að haldið sé áfram að afla þekkingar og það sé svigrúm til að gera tilraunir til að vaxa - og gera mistök. Mikill árangur og lítill. Hvort sem hlutirnir ganga upp eður ei má alltaf draga lærdóm af slíkum tilraunum. Þetta er sem sagt tilraunarinnar virði. Að skapa andrúmsloft þar sem trú á eigin getu er hampað og trú á hæfni teymisins. Það er mikilvægt að sækja það sem upp á vantar upp á og gera hlutina ekki alltaf eins. Í viðskiptum er hvatinn að vexti sameiginleg og skýr markmið, eignarhald og nýsköpun innan teymis.

Þegar vaxtarmiðuð framtíðarsýn er kynnt þarf að sýna fram á að helstu hindranir séu yfirstíganlegar.

Mikilvægur þáttur í vaxtarmiðuðum hugsunarhætti er að hafa hugann bæði við núverandi viðskiptavini og þá sem bætast síðar í hópinn. Stafræn vegferð sem nú stendur yfir í mörgum fyrirtækjum býður upp á nýjar leiðir til að leysa verkefni á skilvirkan og notendavænan hátt. Við getum líka reynt að bera kennsl á viðskiptavini framtíðarinnar með gagnarýni og búið til lausnir og þjónustu sem henta þeim. Í rótgrónum fyrirtækjum getur gagnamengið verið stórt en mestu skiptir að það séu dregnar réttar ályktanir af gögnunum. Markmiðið er að fá frekari innsýn í hvernig mögulegt er að taka framförum og gera betur.  Þarfir viðskiptavinarins eru og verða alltaf að vera í forgrunni, sama hvert verkefnið er.

Klókt að taka minni skref

Þegar vaxtarmiðuð framtíðarsýn er kynnt þarf að sýna fram á að helstu hindranir séu yfirstíganlegar. Framtíðarsýn á að vera skýr, einföld og hnitmiðuð til að auðvelt sé að vinna eftir henni og tengja við markmið. Það verður að vera til staðar áætlun sem er bara hæfilega meitluð í stein því oft þarf að aðlaga áætlunina að breyttum aðstæðum. Við innleiðingu framtíðarsýnar reynir á leiðtogahæfileika til að skapa keppnisanda og samheldni. Stundum getur verið klókt að taka minni skref til að sýna fram á árangur breytinganna og forðast að eyða púðri í það sem skiptir ekki máli til lengri tíma litið. Til að breytingarnar nái flugi verður að sameinast þvert á deildir í fyrirtækinu. Vaxtarverkir eru óumflýjanlegir en þeim er best að fagna sem hluta af endursköpun og þroska fyrirtækis.

Það á enginn að þurfa að vera feiminn við að skora á hólm núverandi ástand, hugsanlega mistakast en læra af því og halda áfram. Á þennan hátt getum við komist úr kyrrstöðu og skapað okkur ný tækifæri.

Greinin birtist í Viðskiptablaðinu, sem kom út 17. nóvember.