Húðlæknirinn Jenna Huld Eysteinsdóttir vill að ljósabekkjastarfsemi verði bönnuð. María Heimisdóttir landlæknir tók undir þessi sjónarmið og benti á að þrjú lönd í heiminum banni slíka starfsemi: Brasilía, Ástralía og Íran.
Þó að þessi upptalning fái marga til að efast um ágæti slíkrar forræðishyggju dró landlæknir hvergi undan og sagði koma til greina að skoða hvaða frekari aðgerðum yrði beitt. Það yrði gert í samstarfi við hagsmunaaðila, en hún minntist þó ekki á rekstraraðila sólbaðsstofa í því samhengi.
Hrafnarnir eru með lausn til að sætta ólík sjónarmið. Alma Möller heilbrigðisráðherra fellir sólbaðsstofur undir boðaða lagasetningu fyrir tóbaks- og nikótínvörur. Þar er m.a. að finna ákvæði um að umbúðir tóbaks- og nikótínvara skuli vera í litnum Pantone 448 C, ljótasta lit heims. Þannig yrði sólbaðsstofum gert að mála alla veggi að innan sem utan í þeim lit, auk þess sem markaðsskilaboð og vörumerki yrðu skreytt sama lit.
Um leið myndi allur áhugi neytanda á ljósabekkjum hverfa eins og dögg fyrir sólu.
Huginn og Muninn er einn af föstu skoðanadálkum Viðskiptablaðsins. Þessi pistill birtist fyrst í Viðskiptablaðinu.