Stefán Einar Stefánsson, þáttastjórnandi Spursmála sem er sýnt á vef Morgunblaðsins, sagði frá því á föstudaginn að það hvorki gengi né ræki hjá honum að fá þingmenn og ráðherra Samfylkingarinnar til þess að mæta í þáttinn hans.

Spursmál er vikulegur fréttaþáttur þar sem hinn aðgangsharði þáttastjórnandi fær til sín stjórnmálamenn og álitsgjafa til að fara yfir helstu tíðindi. Stefán sagði í þættinum að hann hefði staðfestingu fyrir því að stór hluti þingflokks Samfylkingarinnar vildi ekki koma í þáttinn til hans að því að Þórður Snær Júlíusson, framkvæmdastjóri þingflokksins, hefði bannað þeim það og í raun þingmönnum annarra flokka.

Það er ákaflega dapurlegt þegar stjórnmálamenn ákveða að sniðganga fjölmiðla í einhverskonar refsingarskyni og er í raun tilræði að sjálfstæði þeirra. Það er jafnframt furðulegt ef þingmenn Samfylkingarinnar taka við skipunum frá framkvæmdastjóra þingflokksins í þessum efnum og enn óskiljanlegra af hverju þeir leita innblásturs til manna eins og Donalds Trump í þessum efnum.

Reyndar virðist það vera einkennandi fyrir ríkisstjórn Kristrúnar Frostadóttur hversu atkvæðamiklir og afskiptasamir aðstoðarmenn ráðherranna eru þegar kemur að samskiptum við fjölmiðla. Á þessum vettvangi hefur áður verið fjallað um framgöngu Heimis Más Péturssonar fjölmiðlafulltrúa Flokks fólksins.

Í síðustu viku flutti Sunna Karen Sigþórsdóttir, fréttamaður RÚV, fréttir af því að reikningum Flokks fólksins hefði verið lokað í Arion banka vegna þess að flokkurinn hefði ekki uppfyllt skilyrði áreiðanleikakönnunnar. Í frásögn Sunnu á vef RÚV kemur eftirfarandi fram:

„Inga Sæland, formaður Flokks fólksins og félagsmálaráðherra, vildi ekki tjá sig um lokun bankareikninganna í samtali við fréttamann að loknum ríkisstjórnarfundi. Aðstoðarmaður Ingu Sæland gagnrýndi að fréttamaður hefði ekki upplýst ráðherrann fyrir fram um að spurt yrði út í þetta atriði. Upplýsingafulltrúi flokksins, sem er líka stjórnarmaður í Ríkisútvarpinu, gerði það einnig og furðaði sig á spurningunni. Reikningarnir hefðu verið lokaðir í stutta stund. Þá ræddu þau um að kæra meintan upplýsingaleka til fréttamanns.“

Það er ljóst að ráðamenn sækja sér innblástur til valdhafa í Washington D.C. þegar kemur að samskiptum við fjölmiðla.

***

Blaða- og fréttamenn eru aldrei hlutlausir eða óháðir. Þeir verða það ekki heldur við það eitt að vera ríkisreknir. Framsetning þeirra á fréttaefni endurspeglar ávallt einhverja afstöðu til viðfangsefnisins – hvað þeim þykir fréttnæmt og hvað ekki.

***

Rætt var við Kristin Jónasson, bæjarstjóra í Snæfellsbæ, í kvöldfréttum Ríkisútvarpsins á þriðjudag í síðustu viku. Umræðuefnið var frumvarp ríkisstjórnarinnar um hækkun veiðigjalda og breytingar sem voru gerðar á því eftir að það var lagt fram í samráðsgátt stjórnvalda.

Á vef Ríkisútvarpsins mátti svo finna frásögn af viðtalinu sem Freyr Gígja Gunnarsson fréttamaður tók saman. Þar segir orðrétt:

„Þegar frumvarp um breytingu á veiðigjaldi var birt í samráðsgátt stjórnvalda viðruðu sveitarfélög sem reiða sig á litlar og meðalstórar útgerðir áhyggjur sínar. Í þeim hópi var Kristinn Jónasson, bæjarstjóri í Snæfellsbæ. Þegar frumvarpið var lagt fram í síðustu viku sagðist ráðherra hafa brugðist við þessum áhyggjuröddum, meðal annars með því að hækka frítekjumarkið verulega. Kristinn telur, eftir að hafa skoðað frumvarpið og lesið það, að þar sé verulega komið til móts við fyrirtæki í hans sveitarfélagi. Hann er ánægður að ráðherra skuli hafa hlustað og honum finnst hann merkja það á bæjarbúum, allavega þeim fáu sem hann hefur hitt og talað við. Rætt var við Kristin í Speglinum, hlusta má á þáttinn hér að ofan.“

En þegar hlustað er á viðtalið blasir við önnur mynd. Vissulega sagði Kristinn við fréttamann að breytingar á frítekjumarkinu í frumvarpinu kæmu til móts við sjávarútvegsfyrirtæki í Snæfellsbæ. En hann sagði miklu meira en það.

Hann furðaði sig meðal annars á því að í greinargerð frumvarpsins kemur fram að ráðuneytið álykti sem svo að breytingin á veiðigjöldunum muni líklega ekki hafa mikil áhrif á útsvarstekjur en leggi svo fram engin gögn til að
rökstyðja þá skoðun.

© Aðsend mynd (AÐSEND)

Kristinn gerir sér grein fyrir því – rétt eins og allir þeir sem hafa einhvern skilning á lögmálum auðs og eklu og starfa ekki í atvinnuvegaráðuneytinu – að engin innistæða er fyrir þeirri fullyrðingu í frumvarpinu. Í viðtalinu benti hann á að veiðigjaldið væri ekkert annað en skattur og bætti við:

„Ef ég þarf að borga meiri skatta til samfélagsins þá hlýtur það augljóslega að verða þannig að ég get eytt minni peningum sjálfur í það sem mig langar að gera, skipta um glugga, kaupa nýja bílskúrshurð, kaupa mér nýjan bíl eða hvað sem það er, ég hef minni ráðstöfunartekjur. Nákvæmlega sama gerist með fyrirtækin í sjávarútvegsbyggðunum ... Það er eins og þingmenn hafi ekki lesið þetta frumvarp, þetta er fyrst og fremst skattur. Þetta er ekki leiðrétting eða neitt annað, það er tekið fram í textanum við frumvarpið og það er ítrekað að þetta er skattur. Þegar þú leggur skatt á einhvern þá hlýtur það að þýða að hann hefur minni ráðstöfunartekjur og það þýðir, ef við horfum bara á samfélagið hér í Snæfellsbæ, að ef þú tekur út meiri pening þá eru minni umsvif, sem hlýtur að hafa áhrif á samfélagið sjálft. Það er það sem ég óttast, að það verði minni umsvif hjá píparanum, rafvirkjanum, smiðnum, hvern sem er svo ég taki bara einhver dæmi. Ég hefði viljað sjá þau áhrif á útsvarstekjurnar hjá sveitarfélaginu og ég skil ekki af hverju þau vilja ekki sýna okkur fram á með einhverjum útreikningum.“

Kristinn er sem sagt alls ekkert sáttur við frumvarpið þó svo að annað megi ráða af frásögn Ríkisútvarpsins af efni þess. Þeirri útgáfu var hins vegar hampað af þingmönnum Viðreisnar. Þannig tók Sigmar Guðmundsson sérstaklega fram að bæjarstjóri Snæfellsbæjar fagnaði breytingum á frumvarpinu í aðsendri grein í Morgunblaðinu á föstudag og það sama gerði Eiríkur Björn Björgvinsson í Vikulokunum á Rás 1 á laugardag. Væntanlega var leikurinn til þess gerður.

Við þetta má svo bæta að stjórn Vestfjarðarstofu lýsti í síðustu viku yfir þungum áhyggjum af áhrifum frumvarpsins á útgerðir í landshlutunum. Í yfirlýsingu frá stjórninni kemur fram að þrátt fyrir að frítekjumark hafi verið hækkað, þá verði sú hækkun étin upp að miklu leyti vegna aukins þunga í gjaldtöku á þorsk og ýsu í nýjustu breytingum frumvarpsins.

Stjórn Vestfjarðastofu segir áform ríkisstjórnarinnar
óásættanleg með tilliti til mikillar skerðingar á samkeppnishæfni og framlegð þessara sjávarútvegsfyrirtækja. Er þar vísað til greininga Deloitte og fyrirtækjanna sjálfra á nýjustu ársreikningum vestfirskra sjávarútvegsfyrirtækja.

***

Fjölmiðlar á borð við Vísi og Ríkisútvarpið hafa lítið fjallað um efnahags-
leg áhrif breytinganna sem frumvarpið felur í sér. Þeir hafa frekar fjallað um hið meinta reginhneyksli sem auglýsingar Samtaka fyrirtækja í sjávarútvegi þykja vera og annað sem snýr að umbúðunum frekar en innihaldinu. Varla hefur verið hægt að skrúfa frá dægurmálaþáttum í Ríkisútvarpinu án þess að rætt sé um auglýsingar SFS.

En þessir miðlar sáu nýjan flöt á málinu í síðustu viku þegar stjórnarliðar og pólitísk fylgitungl þeirra í fjölmiðlum fóru að kvarta yfir málþófi stjórnarandstöðunnar þegar fyrsta umræða um frumvarpið stóð yfir.

Verður þetta að teljast ansi sérstök sýn. Það er hreinlega ekki hægt að vera með málþóf í fyrstu umræðu þar sem þingsköp takmarka ræðutíma Alþingismanna við tuttugu mínútur. Í raun og veru er það umhugsunarefni hvers vegna það er svo fátítt að þingmenn telji sig þurfa að nýta þann ræðutíma til fulls. Breytingin á veiðigjaldinu er ekki eina umdeilda frumvarpið sem lagt hefur verið fyrir Alþingi undanfarna áratugi.

Fjölmiðlarýni er einn af föstum dálkum Viðskiptablaðsins. Þessi birtist fyrst í blaðinu sem kom út 14. maí 2025.