Blaðamönnum Financial Times er ekkert mannlegt óviðkomandi. Hrafnarnir lásu á dögunum grein í blaðinu um leik Frakklands og Englands í fjórðungsúrslitum á HM liðna Þar kemur fram að greiningavinna Frakkana hafi leitt í ljós að Harry Maguire, miðvörður enska landsliðsins, væri lélegastur allra í að senda bolta á samherja. Þar af leiðandi hafi Frakkarnir leyft Englendingum óhindrað að senda á Maguire og látið svo Antoine gamla Griezmann pressa varnarmanninn í þeirri von að hann gerði mistök.

Það gekk eftir. Hrafnarnir velta fyrir sér hvort þarna sé fundin hliðstæða við kjaraviðræðurnar hér heima og hvort Sólveig Anna Jónsdóttir og hennar fólk í samninganefnd Eflingar, sem er ein fjölmennasta samkoma þessarar aðventu, sé ekki í sama hlutverki og hinn lánlausi varnarmaður Manchester United.

Huginn & Muninn er einn af skoðanadálkum Viðskiptablaðsins. Þessi birtist 15. desember 2022.