Í Viðskiptablaðinu í dag er fjallað með greinargóðum hætti um nýjar hagspár bankanna. Þar kemur fram að þrátt fyrir ágæta stöðu efnahagsmála standi útflutningsatvinnuvegirnir frammi fyrir miklum áskorunum um þessar mundir.
Er það fyrst og fremst óvissa um hvaða afleiðingar hin misráðna tollastefna Donald Trump Bandaríkjaforseta mun hafa fyrir alþjóðaviðskipti og hvernig fyrirsjáanleg niðursveifla í bandaríska hagkerfinu mun móta eftirspurn eftir íslenskum útflutningi.
Arion banki hafði gert ráð fyrir útflutningsdrifnum hagvexti í ár en sviptingar undanfarinna vikna hafa leitt til þess að bankinn hefur endurmetið spánna. Nú gerir hann ráð fyrir ríflega eins prósents hagvexti sem verður drifinn áfram af einkaneyslunni. Þetta sýnir ágætlega hversu hratt staða útflutningsgreinanna hefur versnað að undanförnu. Í hagspá Landsbankans er bent á að tollastefna Trump og niðursveifla í bandaríska hagkerfinu geti dregið úr komum þarlendra ferðamanna hingað til lands. Væri það mikið högg fyrir ferðaþjónustuna en Bandaríkin eru okkar mikilvægasta viðskiptaþjóð hvað ferðaþjónustuna varðar.
Við þetta bætist að raungengi íslensku krónunnar er í hæstu hæðum meðal annars vegna mikilla launahækkana á undanförnum árum. Hátt raungengi grefur undan samkeppnishæfni íslensks útflutnings.
Ljóst er að sótt er að íslenskum útflutningsatvinnugreinum úr mörgum áttum. Í því ljósi er átakanlegt að fylgjast með aðför ríkisstjórnar Kristrúnar Frostadóttur að tveimur af undirstöðu útflutningsatvinnuvegunum – ferðaþjónustunni og sjávarútveginum.
Ríkisstjórnin hefur boðað að veiðigjöld verði tvöfölduð. Hækkunin er einstaklega illa útfærð og til þess fallin að grafa undan verðmætasköpun íslensks sjávarútvegs og samkeppnishæfni hans. Það eitt að tengja verðið við fiskverð í Noregi er sérstaklega vanhugsað. Gengi norsku krónunnar er um 20% hærra en þeirrar íslensku talið í Bandaríkjadal. Það ætti að vera öllum óljóst hvaða áhrif þessi útfærsla hefur á samkeppnisstöðu íslensks sjávarútvegs gagnvart hinum norska.
Þá hefur ríkisstjórnin boðað sérstaklega skattlagningu á ferðaþjónustuna. Hugmyndauðgin í þeim efnum er eftirtektarverð en eins og fjallað var um í Morgunblaðinu á dögunum var boðið upp á hlaðborð skatta og gjalda á ferðaþjónustu í minnisblaði sem tekið var saman vegna stjórnarmyndunarviðræðna fyrir núverandi ríkisstjórnarflokka í desember. Á þessu ókræsilega hlaðborði var boðið upp á gistináttagjald á alla gistingu, víðtækari bílastæðagjöld, aðgangseyri að þjóðgörðum, umhverfisskatta og gistináttagjald á skemmtiferðaskip, umhverfisskatt á flugfarþega, varaflugvallargjald og umhverfisskatt á óvistvæna bílaleigubíla.
Ljóst er að slíkt hlaðborð er beinlínis til þess fallið að grafa undan samkeppnishæfni ferðaþjónustunnar.
Það eru engin átök um það í íslensku samfélagi um hvort að fyrirtæki eigi ekki að borga sanngjarnan skatt og gjöld af starfsemi sinni. Um þetta eru allir sammála. En skattlagningin verður að vera með þeim hætti að hún dragi ekki úr verðmætasköpun og hvata til fjárfestinga. Útfærslan á hækkun veiðigjalda uppfyllir ekki þessi markmið i og stjórnmálamenn ættu að láta þá hugsun ráða för þegar kemur að mótun skattastefnu fyrir ferðaþjónustuna. En staðreynd málsins er að hvorki sjávarútvegurinn né ferðaþjónustan þarfnast aukinnar skattheimtu á þessum óvissutímum sem nú eru uppi. Þvert á móti er mikilvægt að stjórnvöld hlúi að grundvallaratvinnugreinum og verðmætasköpun. Óvissan fram undan er mikil og ráðamenn verða að gera sér grein fyrir því að á slíkum tímum er ekki rétt að skattpína gjaldeyrisöflun þjóðarinnar.
Þessi leiðari birtist fyrst í Viðskiptablaðinu sem kom út 16. apríl 2025.