Týr klóar sér í kollinum yfir framgöngu ríkisstjórnarinnar að undanförnu. Hún leggur fram illa unnið frumvarp um tvöföldun veiðigjalda öllum að óvörum og gefur sveitarfélögum og öðrum haghöfum aðeins nokkra daga til að bregðast við.
Atvinnuvegaráðuneytið neitar að gefa upp gögn sem lágu að baki útreikningunum sem frumvarpið byggist á. Það er óskiljanlegt. Í sjálfu sér er ekki deilt um hvort að sjávarútvegurinn greiði einhvers konar veiðigjald í formi skattlagningar en hins vegar þarf að taka tillit til þeirrar staðreyndar að skattheimta má ekki grafa undan verðmætasköpun til frambúðar.
Fiskvinnslan sækir um aðild
Það er einmitt það sem sveitarfélög og sérfræðingar í sjávarútvegi hafa bent á að muni gerast ef frumvarpið verður að lögum.
Það að tengja veiðigjaldið við jaðarverð lítillar veltu á fiskmörkuðum sem ræðst annaðhvort af þörfum fiskvinnslu sem þarfnast hráefnis einstaka dag eða kaupum útsendara pólskra fiskverkenda sem flytja fiskinn út óunninn í gámum til meginlandsins gerir ekkert annað en að grafa undan verðmætasköpun íslensks sjávarútvegs, að ekki sé minnst á að tengja veiðigjald uppsjávarfisks við markaðsverð í Noregi. Makríllinn sem Norðmenn veiða er af allt öðrum gæðum en sá sem fiskast í íslenskri lögsögu.
Augljóst er að ekkert hefur verið hugsað um þennan þátt málsins. Frumvarpið mun leiða til þess að draga úr verðmætasköpun íslensks sjávarútvegs.
Markmiðið er greinilega ekki að auka skattheimtu ríkisins. Markmiðið virðist fyrst og fremst vera að koma íslenskri fiskvinnslu inn í Evrópusambandið á undan almenningi.
Frumkvöðull incel-skrifa segir sitt
Enda virðast fáir stjórnarliðar hafa sannfæringu fyrir málinu. Það er helst að Þórður Snær Júlíusson, framkvæmdastjóri Samfylkingarinnar og helsti frumkvöðull incel-skrifa á Íslandi, mæli fyrir málinu. Þvert á allar staðreyndir klifar hann á því að arðsemi sjávarútvegs sé meiri en í öðrum geirum þó svo að gögn Hagstofunnar úr ársreikningum fyrirtækja segi allt annað.

Þórður lætur staðreyndir ekki þvælast fyrir sér. Í grein sem birtist á Vísi í dag segir hann:
„Þessu til stuðnings má til að mynda vísa í bókun meirihluta byggðarráðs Múlaþings á fundi þess síðastliðinn þriðjudag. Þar segir meðal annars að stórútgerðin hafi „ ítrekað rústað sjávarútvegsstarfsemi í sjávarplássum Múlaþings er erfitt að sjá hvata sveitarfélagsins til þess að leggjast gegn því að sama útgerðin greiði sanngjarnt gjald til innviðauppbyggingar landsins. Það hljómar eins og pólitískur forarpyttur.“
Þetta er ekki bókun meirihlutans heldur minnihlutans – nánar tiltekið manns sem heitir Eyþór Stefánsson og í fyrri hluta bókunarinnar tekur hann fram að „hagsmunir Múlaþings í þessu máli eru litlir þar sem áhrif á þá sjávarútvegsstarfsemi sem eftir er innan sveitarfélagsins eru lítil.“
Sælgætishöllin, Baldur og Konni
Þó hefur Sigmar Guðmundsson þingmaður Viðreisnar tjáð sig um málið og byggir málflutning sinn af reynslu sinni á því að eiga í viðskiptum við Salgætis- og vídeóhöll Garðabæjar. Eins og oft áður er rétt að segja sem minnst um málflutning Sigmars.
Þá hafa Dagur B. Eggertsson og Gauti bróðir hans brugðið sér í gervi Baldurs og Konna í málinu og er það ágætis sönnun þess að þetta mál er fyrst og fremst áhugamál fólks á framfærslu hins opinbera sem búa í 101 og eru með öllu aftengd verðmætasköpun í landinu.

Blikur á lofti
Það eru blikur á lofti í alþjóðahagkerfinu. Það er samdóma álit hagfræðinga að einhliða tollahækkanir Donald Trump muni leiða til samdráttar í heimsbúskapnum.
Raungengi krónunnar er í hæstu hæðum og það þrengir verulega að útflutningsgreinunum.
Við þetta bætast svo tollarnir hans Trumps og öll sú óvissa sem þeim fylgir. Íslenska hagkerfið stendur frammi fyrir miklum áskorunum og stjórnvöld verða því að standa vörð um verðmætasköpunina. Það er með öllu óábyrgt að ráðast í skattahækkanir í þessu árferði. Það mun einungis grafa undan lífskjörum.
Týr er einn af föstum ritstjórnardálkum Viðskiptablaðsins.