Týr telur einsýnt að Samfylkingin og Viðreisn ætli sér að mynda stjórn eftir kosningar sem kallast á við Reykjavíkurmódelið svokallaða í borginni. Sporin hræða.
Vafalaust mun stuðningsfólk slíkrar stefnu benda á hinn undursamlega viðsnúning á rekstri borgarinnar sem réttlætingu á slíku stjórnarfari. Vandinn er að viðsnúninginn er ekki að finna nema í hugum borgarfulltrúa meirihlutans og fjárhagsvandi borgarinnar er eins aðkallandi og áður.
Margt stingur í augun þegar fjármálaáætlun Reykjavíkurborgar sem lögð var fram á dögunum er skoðuð. Gert er ráð fyrir að samstæðan skili átta milljarða afgangi í ár og fjórtán milljörðum á næsta ári. Þessi viðsnúningur er knúinn áfram af matsbreytingum og eignasölu.
Séu þessir liðir teknir frá til að fá út hvers vænst er af sjálfum rekstrinum á árinu 2024, þá skilar hann halla að fjárhæð 3.608 m.kr. Á árinu 2025 er þá vænst viðsnúnings og þá 3.010 m.kr. afgangur. Á sama tíma er gert ráð fyrir að skuldirnar hækki um 20 milljarða á næsta ári.
Ekki er staðan skárri þegar kemur að rekstri A-hlutans. Fjárhagsáætlunin gerir ráð fyrir að söluhagnaður á þessu ári verði tæpir sjö milljarðar og ríflega þrír milljarðar á næsta ári. Til að sjá hvernig rekstur borgarinnar stendur í raun og veru þarf að taka slíkan einskiptishagnað í burtu og það sama á við um arðgreiðslur frá fyrirtækjum borgarinnar.
Séu þessir liðir teknir frá til að fá út hvers vænst er af sjálfum rekstrinum á árinu 2024, þá skilar hann tólf milljarða halla í ár og 8,5 milljarða halla á næsta ári. Áætlunin gerir ráð fyrir að langtímalán A-hlutans hækki um 15 milljarða á næstu tveimur árum.
Rétt er að hafa í huga að borgarbúar eru einnig skattpíndir af meirihlutanum. Þrátt fyrir hækkun fasteignamats hefur borgin haldið fasteignasköttum óbreyttum. Ef borgin væri til að mynda með sömu skattprósentu á atvinnu- og íbúðarhúsnæði og Kópavogur væru skatttekjur borgarinnar tæplega þremur milljörðum lægri. Það munar um minna fyrir borgarbúa.
Týr skilur því lítið í því af hverju svo margir eru spenntir fyrir að sjá sams konar óstjórn á ríkisfjármálum. Samfylking og Viðreisn boða hærri skatta og sölu eigna til að standa undir rekstrarkostnaði og það mun ekki reynast betur í landsmálunum en í borginni.
Týr er einn af föstum ritstjórnardálkum VIðskiptablaðsins. Þessi birtist fyrst í blaðinu sem kom út 20. nóvember 2024.