Sumum fjölmiðlum hefur gengið illa að meðtaka þá staðreynd að umfjöllun um Excel-skjal í tengslum við útboð Bankasýslunnar á hlut ríkisins í Íslandsbanka byggir á misskilningi sérfræðinga Ríkisendurskoðunar. Sá misskilningur er auðvitað sjálfstætt fréttaefni. Sem kunnugt er þá var skýrslu Ríkisendurskoðunar lekið í degi fyrir birtingu og fréttir fóru að birtast af því að Bankasýslan hafi vanmetið eftirspurnina í útboðinu vegna slóðaskapar í færslum á tilboðum í Excel-skjal sem var notað til að halda utan um verkefnið.

Sem fyrr segir er þetta misskilningur. Hörður Ægisson ritstjóri Innherja segir í leiðara sem birtist á þriðjudag á miðlinum:

Ríkisendurskoðunar gerir sömuleiðis í úttekt sinni mikið úr vinnuskjali á Excel-sniðmáti sem það fékk frá Bankasýslunni þar sem finna mátti tilboð sem voru ekki rétt stimpluð inn á tilteknum tímapunkti þegar söfnun tilboða frá fjárfestum stóð enn yfir. Byggt á þeim upplýsingum dregur Ríkisendurskoðun þá ályktun að Bankasýslan hafi hugsanlega vanmetið heildareftirspurn fjárfesta þegar ákvörðun um leiðbeinandi lokaverð var tekin að kvöldi þriðjudagsins 22. mars síðastliðinn. Þegar athugasemdir Bankasýslunnar eru hins vegar lesnar virðist ljóst að sú fullyrðing Ríkisendurskoðunar stenst enga skoðun og samræmist alls ekki gögnum málsins. Umrætt vinnuskjal var í stöðugri uppfærslu samhliða því að tilboðsbókin, sem Íslandsbanki en ekki Bankasýslan hélt utan um sem leiðandi söluráðgjafi, er að stækka að jafnaði um hálfan milljarð á hverri mínútu og búið er að leiðrétta þær innsláttarvillur í skjalinu áður en ákvörðun um leiðbeinandi lokaverð er tekin síðar sama kvöld.„

Áhugavert er að þeir miðlar sem sögðu ofangreindar fréttir hefur ekki verið sérstaklega umhugað að leiðrétta þann misskilning nú þegar hið sanna hefur komið í ljós. Bendir það til þess að eitthvað fjölmiðlafólki hefi haft meiri áhuga á að sverta útboðið en að segja satt og rétt frá.

Í þessu samhengi má benda á að fjallað er um málið á vefsíðu tímaritsins Euromoney. Þar er fyrirsögnin á grein Marks Baker: No, Iceland did not misprice a privatization because of an Excel snafu. Eða „Nei, Íslendingar verðlögðu einkavæðingarverkefni ekki vitlaust vegna Excel klúðurs.“

Fjölmiðlarýni er einn af skoðanadálkum Viðskiptablaðsins. Þennan pistil má lesa í heild í Viðskiptablaðinu sem kom út þann 24. nóvember 2022.