Viðbrögð Kristrúnar Frostadóttur forsætisráðherra, Gylfa Magnússonar, stjórnarformanns OR, og Breka Karlssonar formanns Neytendasamtakanna við hugmyndum um sameiningu Arion og Íslandsbanka benda til þess að þau séu stödd í sauðalitaðri tilveru áttunda áratugarins – nánar tiltekið í Álafossúlpum fyrir framan skrifstofu útibússtjóra Alþýðubankans að Laugarvegi 31 árið 1973.
Síðan þá hefur runnið mikið vatn til sjávar. Íslenskum bankamarkaði er oft lýst sem algjörum fákeppnismarkaði þar sem þrír stórir viðskiptabankar gnæfi yfir öllum lánaviðskiptum. Kristrún, Gylfi og Breki stimpluðu sig inn sem fulltrúir þessarar skoðunar í síðustu viku. Gallinn er bara að hún ekki við rök að styðjast.
Það eru tuttugu lánveitendur starfandi hér á landi sem veita veðlán til heimila. Þeir eru ekki þrír. Þó svo að viðskiptabankarnir þrír hafi stærstu markaðshlutdeildina eru stofnanir á borð við lífeyrissjóði með um þriðjung af markaðnum. Þeir hafa jafnframt sterkari samkeppnisstöðu en bankarnir enda búa þeir ekki við jafn íþyngjandi starfsumhverfi og bankarnir og geta því veitt lán með lægri tilkostnaði.
Þá verður að hafa í huga þær miklu umbætur sem hafa verið gerðar á stöðu neytenda gagnvart lánveitendum undanfarin áratug. Þeir geta nú greitt upp lán sín og fært sig milli lánveitanda með mun skilvirkari hætti og lægri tilkostnaði en áður. Það er ekki síst þetta sem hefur gert lífeyrissjóðum kleift að sækja fram á fasteignalánamarkaðnum. Hreyfanleiki neytenda á fjármálamarkaði er meiri hér á landi en gengur og gerist á meginlandinu.
Samkeppniseftirlitið styðst oftar en ekki við svokallaða Herfindahl-Hirschman vísitölu en hún er notuð til þess að mæla samþjöppun á samkeppnismörkuðum. Þegar horft er á markaðinn með neytendalán sést að gildið er í kringum 2600 en það lýsir markaði sem hefur einkenni einhverrar samþjöppunar. Það er engin furða í jafn litlu hagkerfi og ætla má að það ástand sé einkennandi á flestum fjármálamörkuðum enda kallar veiting slíkrar þjónustu á umtalsverða stærðarhagkvæmni. Í þessu samhengi má benda á umfjöllun á heimasíðu seðlabankans í St. Louis þar sem fram kemur að HH-vísitalan sé að meðaltali um 3500 þegar kemur að hlutdeild í innstæðum.
Viðbrögð sumra við bréfaskriftum bankastjóra Arion og Íslandsbanka hafa verið á þann veg að það komi viðskiptavinum banka illa að lánveitendum fækki. Sökum mikilvægis stærðarhagkvæmni í bankarekstri þarf það ekki að vera. Það kæmi neytendum sér ekkert sérstaklega vel ef ekki væri þverfótað fyrir litlum bönkum og sparisjóðum út um allt land. Þetta sést ágætlega þegar horft er til markaðarins fyrir fyrirtækjafjármögnun. Þar eru bankarnir í virkri samkeppni við norræna banka sérstaklega um veitingu lána til stærstu fyrirtækja landsins. Þar standa íslensku bankarnir höllum fæti í samkeppninni sökum smæðar og séríslensks regluverks.
Við þetta má bæta að hin stafræna tækni hefur leyst úr læðingi öra þróun á fjármálamarkaði – þróun sem einkennist af því að aðgangshindrunum á mörgum sviðum hefur verið rutt úr vegi og nýir aðilar hafa komist inn á markaðinn hér á landi sem annars staðar. Á markaðnum eru nú níu fyrirtæki sem keppast um að ávaxta innlán heimila og hefur færsluhirðum, svo annað dæmi sé tekið, fjölgað úr tveimur yfir í á annan tug á undanförnum árum. Þessi þróun hefur átt sér stað í krafti hinnar stafrænu tækni.
Hvorki ráðherrar í ríkisstjórninni né stjórnarformaður OR vita hvernig þessi þróun endar. En það er hins vegar hægt að ganga út frá því sem vísu að nýjum aðilum á fjármálamarkaði mun vafalaust fjölga enn frekar og markaðurinn taka enn meiri breytingum – fyrst og fremst í krafti þess að starfa ekki eftir jafn íþyngjandi og kostnaðarsömum reglum og stóru kerfislægu mikilvægu bankarnir. Það er einmitt þetta sem er hvatinn að því að stjórnendur Arion og Íslandsbanka sjá tækifæri í sameiningu.
Þessi leiðari birtist fyrst í Viðskiptablaðinu sem kom út 26. febrúar 2025.