Það eru nú rúm 5 ár frá því að Lánasjóður sveitarfélaga gaf fyrst út græn skuldabréf. Skuldabréfin byggðu á grænni umgjörð sem vottað var að væri í samræmi við staðla sem þá voru notaðir erlendis og hérlendis og útgefnir af ICMA (the International Capital Market Association).

Á þessum tíma voru í vinnslu staðlar á vegum Evrópusambandsins um skilgreiningar og flokkun grænna fjárfestinga. Þær skilgreiningar litu svo dagsins ljós í reglugerð ESB frá árinu 2021 nr. 2139, þar sem skilgreint er hvaða skilyrði fjárfestingin þarf að uppfylla til að geta talist græn.

Það sem kallað er í daglegu tali Flokkunarreglugerð ESB er reglugerð nr. 852 frá 2020 og leggur hún lagaskyldu á fjármálafyrirtæki að birta upplýsingar um hvort fjárfestingar sem lánað er til falli að kröfum reglugerðarinnar nr. 2139/2021. Þessar reglugerðir saman hafa það hlutverk að auka lánveitingar og fjárfestingar í umhverfisvænum verkefnum innan Evrópusambandsins með það megin markmið að ná þeim loftslagsmarkmiðum sem sett voru í Parísarsamkomulaginu 2016.

Þessar reglugerðir voru lögfestar hér á landi með svokallaðri tilvísunaraðferð. Í henni felst að reglugerðirnar verða að lögum hérlendis án nokkurrar aðlögunar og er ekki að sjá í þessu tilviki að skoðað hafi verið að neinu leyti hversu vel eða illa reglugerðirnar passa við íslenskan raunveruleika.

Lögin sem innleiddu reglugerðirnar tóku gildi 1. júní 2023. Í uppgjörum eftir það tímamark bar þeim aðilum sem undir lögin falla að birta upplýsingar um sinn rekstur í samræmi við lögin. Ekki sáu öll fjármálafyrirtæki sér fært að birta upplýsingar í samræmi við lögin í ársreikningum fyrir árið 2023 en Lánasjóður sveitarfélaga og Landsbankinn birtu upplýsingar um útlán sem uppfylla skilyrði reglugerðarinnar.

Það er skemmst frá því að segja að ekkert lán sem lánasjóðurinn veitti árið 2023 uppfyllti skilyrðin til að flokkast sem umhverfisbætandi eða umhverfishlutlaus lánveiting þó að 75% útlána ársins hafi verið til verkefna sem falla að þeim flokkum sem skilgreindir eru í reglugerðinni. Svipaða sögu var að segja af Landsbankanum þar sem engar lánveitingar uppfylltu skilyrði reglugerðarinnar um að bæta umhverfi sitt. Höfundi er ekki kunnugt um að aðrar íslenskar fjármálastofnanir hafi birt upplýsingar í samræmi við reglugerðina fyrir árið 2023.

Engin lán standast reglugerð

Ársuppgjör 2024 voru mun meira lýsandi og gáfu vísbendingu um það sem koma skal. Lánasjóðurinn birti aftur upplýsingar um að ekkert lán á árinu 2024 hafi uppfyllt kröfurnar þrátt fyrir að 65% lánveitinga falli að skilgreiningum flokkunarinnar.

Allir fjórir viðskiptabankar landsins birtu upplýsingar um þetta fyrir 2024 og enginn þeirra hefur lánað umfram 0,2% til verkefna sem uppfylla skilyrði flokkunarreglugerðarinnar.

Núllorkubygging óskast

Það hljóta að vera mikil vonbrigði hversu illa þessar skilgreiningar henta íslenskum raunveruleika og umhverfi. Það er nefnilega alls ekki svo að 99,8% lánveitinga í landinu sé til verkefna sem skaði umhverfið, alls ekki.

Skilgreiningarnar í reglugerðinni henta bara ekki. Sem dæmi um þetta má nefna að rúm 50% allra lánveitinga Lánasjóðs sveitarfélaga síðustu 2 árin hafa farið til nýbygginga. Auðvitað er það svo að steypa, stál og gler eru ekki umhverfisbætandi, en skilgreiningin snýst ekki um það. Til að uppfylla skilyrði reglugerðarinnar þurfa nýbyggingar að nota 10% minni orku en „núllorkubygging“. Nú er það svo að ekki hefur verið gefin út skilgreining á „núllorkubyggingu“ á Íslandi og því geta engar nýbyggingar uppfyllt skilyrði reglugerðarinnar til að teljast umhverfisbætandi, þó svo þær kynnu að vera það í raun. Svipað á við í öðrum lánaflokkum og er t.d. sérlega bagalegt að ekki virðist vera hægt að flokka lán vegna rafbíla sem umhverfisvæn í bókum banka sem lána til bifreiðakaupa.

Verða engin græn lán næstu árin

Nú er til viðbótar við flokkunarreglugerðina komin reglugerð um grænar lánveitingar frá Evrópusambandinu sem ber heitið European Green Bond Regulation og er nr. 2631 frá 2023. Það kom undirrituðum alls ekki á óvart að reglugerð um græn skuldabréf vísi beint í flokkunarreglugerðina, annað hefði hreinlega verið mjög sérstakt.

Til að geta skilgreint skuldabréfaútgáfu sem græna þarf að lágmarki 85% af útgáfunni að vera varið til fjárfestinga sem uppfylla skilyrði flokkunarreglugerðarinnar. Það þarf eitthvað mikið að breytast hratt til að lánveitingar hér á landi standist kröfur reglugerðarinnar og hefðu menn betur skoðað þetta nánar áður en hún var lögfest. Allavega efast undirritaður um að það verði breyting á þessu á allra næstu árum.

Hvað er til ráða?

Undirritaður telur að það þurfi að gera breytingar með lögum þannig að skilgreiningar reglugerðarinnar taki tillit til íslenskra aðstæðna. Það væri eina leiðin ef við viljum skilja á milli grænna og ekki svo grænna fjárfestinga og fjárfestingakosta og leggja okkar af mörkum til að auka fjárfestingar í umhverfisvænum verkefnum og þar með stuðla að því að bættu umhverfi og sjálfbærni.

Höfundur er framkvæmdastjóri Lánasjóðs sveitarfélaga ohf.