Ekki verður að svo komnu máli lagt heildarmat á drög Svandísar Svavarsdóttir matvælaráðherra að frumvarpi um sjávarútvegsmál. Vafalaust eiga menn eftir að koma augum á eitt og annað sem orkar tvímælis við yfirlestur á frumvarpsdrögunum.

Eigi að síður ber að fagna sérstaklega að ráðherra tekur tillit til ráðlegginga starfshóps ráðherrans sem gekk undir hinu barnalega nafni Auðlindin okkar. Í starfi hópsins er fjallað um mörk hámarksaflahlutdeildar og lagt til að þau verði rýmkuð hjá félögum sem eru skráð á hlutabréfamarkað.

Í 44. grein frumvarpsdraganna er kveðið á að aflahlutdeild sjávarútvegsfyrirtækja sem eru skráð í Kauphöllina megi vera allt að 15% í öllum tegundum. Að vísu er kveðið á um að ráðherra sé heimilt að setja frekari skilyrði um dreifingu og samsetningu eignarhalds. Sporin hræða vissulega í þessum efnum en eigi að síður er hækkunin á aflahlutdeildinni skynsamleg.

Þetta ákvæði ætti að vera útgerðarmönnum mikill hvati til að skrá stærstu sjávarútvegsfyrirtæki landsins á markað. Eins og fram hefur komið í umfjöllun Viðskiptablaðsins að undanförnu eru fjölmörg af stærstu félögum landsins nú þegar skráningarhæf og myndu sóma sér vel í Kauphöllinni.

Þetta ákvæði gæti gegnt lykilhlutverki í að skapa frekari sátt um sjávarútveginn. Eða réttara sagt að gera þeim sundurlyndisöflum sem þrífast á því að grafa undan hinu farsæla skipulagi sjávarútvegsmála erfiðara fyrir. Þátttaka stofnanafjárfesta á borð við lífeyrissjóða og almennings í rekstri sjávarútvegsfélaga sem eru skráð í Kauphöllinni skiptir þar sköpum.

Ef þetta nær fram að ganga er ekkert sem stendur í vegi fyrir að sjávarútvegsfyrirtækjum fjölgi hratt í Kauphöllinni. Undanfarinn áratug var aðeins eitt slíkt félag skráð á markað. Þeim fjölgaði um eitt þegar Síldarvinnslan var tekin til skráningar og þau verða þrjú þegar Ísfélagið í Vestmannaeyjum bætist við á næstunni.

Í sögulegu samhengi er þetta lítið sé litið til fyrirtækjafjölda. Á tíunda áratug síðustu aldar og í byrjun þessarar voru tugir sjávarútvegsfyrirtækja skráð á markað. Með skráningu Ísfélagsins verður hlutfall þeirra aflahlutdeilda sem er í eigu skráðra félaga svipað og hann var árið 2007.

Þá stóð hinn mikli flótti sjávarútvegsins úr Kauphöllinni yfir. Eins og fjallað var um í Viðskiptablaðinu fyrir nokkrum vikum brast sá flótti á vegna áhugaleysis fjárfesta. Veltan var lítil og verðlagning óskilvirk.

En það sem skipti vafalaust mestu máli á þessum tíma var áhugaleysi fjárfesta sem stafaði einfaldlega af þeirri staðreynd að hlutabréf annarra fyrirtækja á borð við banka og fyrirtækjum í fjármálarekstri hækkuðu mikið á þessum árum. Frá 1999 til 2004 hækkaði vísitala sjávarútvegs um 2,1 prósent samanborið við 107 prósenta ávöxtun úrvalsvísitölu Kauphallarinnar.

Engar líkur eru á að sú saga muni endurtaka sig fjölgi sjávarútvegsfyrirtækjum í Kauphöllinni á ný. Skráning Síldarvinnslunnar og nú Ísfélagsins sýnir mikinn áhuga fjárfesta – hvort sem um ræðir stofnanafjárfesta eða almennra – á sjávarútvegsfyrirtækjum. Þannig hefur ávöxtun hlutabréfa Brim og Síldarvinnslunnar verið meiri en úrvalsvísitölunnar á undanförnum árum. Almennur skilningur á því að þetta séu háþróuð matvælaframleiðslufyrirtæki sem standa í fremstu röð á alþjóðavettvangi hefur vaxið á undanförnum árum.

Í því ástandi sem ríkt hefur á íslenskum verðbréfamarkaði undanfarin ár er jafn framt ljóst að fjárfestar myndu taka vel á móti traustum og vel reknum arðgreiðslufyrirtækjum. Fjármagnið er til staðar og ljóst er áhuginn færi svo vaxandi með skaplegri vaxtastigi samhliða árangri við efnahagsstjórn landsins.