Fiskeldi í sjó á Íslandi er ung atvinnugrein í uppbyggingar- og fjárfestingarfasa. Gjaldaumhverfi greinarinnar þarf að taka mið af þeim veruleika, vera sanngjarnt en ekki til þess fallið að hefta vöxt og verðmætasköpun til framtíðar fyrir íslenska þjóð.
Umfangsmikil verðmætasköpun í fiskeldi hefur átt sér stað á skömmum tíma og miðað við vægi fiskeldis í útflutningi er ljóst að atvinnugreinin er þegar farin að hafa verulega efnahagslega þýðingu fyrir land og þjóð. Af þessu má jafnframt vera ljóst að fiskeldi er orðinn nýr og öflugur grunnatvinnuvegur.
Framtíðaráform fyrirtækja sem ala fisk í sjó um frekari uppbyggingu ráðast þó að verulegu leyti á fjárhagslegu svigrúmi greinarinnar til fjárfestinga. Að þessu þurfa stjórnvöld að huga að þegar ákvarðanir eru teknar um gjaldtöku í fiskeldi.
Nýtt frumvarp um lagareldi sem nú liggur fyrir Alþingi gerir tillögur að veigamiklum breytingum á gjaldtöku vegna fiskeldis í sjó. Ýmis skref eru stigin í rétta átt þó gjaldahlutföll séu eftir sem áður óeðlilega há.
Brýnt er því að huga betur að raunverulegum áhrifum fyrirhugaðra breytinga:
Gjaldþrepum fjölgar
Frá árinu 2019 hefur verið innheimt sérstakt auðlindagjald af fiskeldi í sjó, einnig nefnt framleiðslugjald eða fiskeldisgjald, sem ræðst af alþjóðlegu markaðsverði á atlantshafslaxi á tilteknu viðmiðunartímabili. Gjaldtakan er í dag hlutfallslega hærri þegar markaðsverðið er hátt, eða allt að 4,3% af markaðsverði á hvert kíló, en gjaldhlutfallið á að sama skapi að lækka í takt við lægra markaðsverð.
Ekki er um það deilt að breytingar á fyrirkomulagi gjaldtökunni eru tímabærar, en alþjóðlegt verð á atlantshafslaxi hefur farið mjög hækkandi undanfarin ár. Óhætt er að segja að þau verðviðmið sem færð voru í lög árið 2019 og ráða gjaldhlutfalli hverju sinni séu löngu orðin úrelt. Hæsta gjaldið er tekið þegar alþjóðlegt markaðsverð er yfir 4,8 evrum, en alþjóðlegt markaðsverð hefur samfellt verið yfir þeirri fjárhæð frá desembermánuði 2020 og var til að mynda tæpar 11 evrur síðastliðinn maí.
Aðferðafræðin við gjaldtöku samkvæmt frumvarpinu er að meginstefnu til óbreytt frá því sem nú er, þ.e. áfram verður byggt á innheimtu stigvaxandi og magnbundins auðlindagjalds og áfram er ráðgert að gjaldið verði greitt fyrir hvert framleitt kíló af slægðum laxi í hlutfalli við alþjóðlegt markaðsverð á atlantshafslaxi.
Breytingin felst hins vegar í því að lagt er til að gjaldþrepum verði fjölgað úr þremur í sjö og hæsta hlutfall gjalds fari úr 4,3% í allt að 11%. Gjaldið verður þannig óhóflega hátt og dregur úr svigrúmi fyrirtækjanna til fjárfestinga. Fjárfestingar skipta sköpum fyrir nýja atvinnugrein sem stendur frammi fyrir miklum vaxtarmöguleikum og aukinni verðmætasköpun – í þágu íslenskrar þjóðar sem reiðir sig á öflugar útflutningsatvinnugreinar.
Á móti er lagt til að lægsta þrep skattlagningarinnar taki mið af áætluðum framleiðslukostnaði við fiskeldi í sjó á hverjum tíma og taki breytingum á grundvelli fóðurverðs, vísitölu neysluverðs og launavísitölu. Þannig er stefnt að því að álagning verði lægri þegar munur á áætluðum framleiðslukostnaði og heimsmarkaðsverði er lítill en hækki þegar sá munur eykst í takt við ætlaða afkomu rekstraraðila í greininni. Með öðrum orðum; aukin framlegð leiðir af sér hærra gjald.
Í eftirfarandi töflu má sjá fyrirhugaðar breytingar í einfaldri mynd þar sem lægsta þrepið, 1%, miðar við áætlaðan framleiðslukostnað sem metinn er hér á 1060 kr.
Samanburður við Noreg og Færeyjar
Til þess að leggja mat á áhrif boðaðra breytinga á samkeppnishæfni íslenskra fiskeldisfyrirtækja í alþjóðlegu tilliti fengu SFS norska ráðgjafafyrirtækið Menon Economics til þess að gera samanburðargreiningu á áhrifum skatta- og gjalda af fiskeldi á Íslandi, Noregi og Færeyjum. Markmið greiningarinnar var að dýpka skilning á boðuðum breytingum á Íslandi og kanna áhrif þeirra á samkeppnishæfni íslenskra fiskeldisfyrirtækja. Stuðst verður við niðurstöður þeirra rannsókna hér á eftir. (vefútgáfa – Hér má nálgast skýrslur Menon Economics)
Við útfærslu gjaldtökunnar, eins og hún er boðuð í athugasemdum með nýju frumvarpi, hafi annars vegar horft til rekstrarumhverfis atvinnugreinarinnar hér á landi og hins vegar til gjaldtöku af fiskeldi í sjó í Noregi og í Færeyjum.
Greiningin leiðir í ljós að íslensk fiskeldisfyrirtæki fái enn sem komið er almennt lægra verð fyrir sína afurð, framleiðslukostnaður er hærri og flutningskostnaður er hærri. Helgast þetta fyrst og fremst af því að fiskeldi á Íslandi er tiltölulega ung atvinnugrein í uppbyggingar- og fjárfestingarfasa, ólíkt því sem á við um fiskeldi í Noregi og Færeyjum.
Rekstrarumhverfi og samkeppnishæfni Íslands gagnvart samanburðarlöndunum tveimur má sjá í töflunni hér að neðan. Tölurnar eru unnar úr rekstrarreikningum fiskeldisfyrirtækjanna á Íslandi árið 2022 auk sérrannsókna Menon Economics.
Rekstrarafgangur hér landi var lítill sem enginn árið 2022 og þegar skattar og gjöld eru tekin með í reikninginn var hann neikvæður, bæði miðað við núgildandi gjaldtöku og á grundvelli þeirra breytinga sem boðaðar eru í frumvarpinu.
Gallar gjaldtökunnar
a) Tekur ekki tillit til raunkostnaðar fyrirtækja
Einn helsti galli núverandi gjaldtöku er sá að gjaldið tekur hvorki tillit til framleiðslukostnaðar né afkomu rekstraraðila. Mikilvægt skref í rétta átt er því stigið með frumvarpinu en gjaldþrepin eiga þannig að fylgja áætluðum framleiðslukostnaði sem er metinn út frá breytingum í fóðurkostnaði, vísitölu neysluverðs og launavísitölu. Þessi nálgun ætti að geta komið í veg fyrir að gjaldþrepin úreldist líkt og gerðist á örfáum árum í núverandi gjaldtökuumhverfi, en breytingar á framleiðslukostnaði og söluverði haldast iðulega í hendur.
Breytingin tekur hins vegar ekki tillit til þess að munur getur verið á framleiðslukostnaði milli einstakra fyrirtækja. Kostnaðarvísitalan er reiknuð út frá opinberum gögnum, og er öllum rekstraraðilum gert að greiða sömu krónutölu fyrir hvert framleitt kíló, óháð raunverulegum framleiðslukostnaði. Þessari nálgun getur fylgt ákveðið ójafnræði við gjaldtöku. Samkvæmt greiningu Menon Economics sýna rekstrarreikningar íslenskra fiskeldisfyrirtækja töluverðan mun á framleiðslukostnaði einstakra fyrirtækja.
Áhrif þessa galla má sjá í sýnidæminu hér að neðan. Tekið er dæmi um tvö ímynduð fyrirtæki, A og B, sem bæði framleiða sama magn af frjóum laxi í sjó, á við hefðbundið fyrirtæki á Íslandi. Bæði fyrirtækin selja lax á 9 evrur (1.350 kr.) á hvert kílógramm. Framleiðslukostnaður fyrirtækis A er 7 evrur (1.050 kr.) á hvert kílógramm og framleiðslukostnaður fyrirtækis B er 8 evrur (1.200 kr.) á hvert kílógramm. Því munar 150 kr. eða um 11% á framlegð fyrirtækjanna. Sjá má hvernig hagnaður eftir skatta og sérstök gjöld er töluvert meiri hjá fyrirtæki A, en skattar og sérstök gjöld vega þar 39% af hagnaði. Til samanburðar skilar fyrirtæki B litlum hagnaði og skattar og sérstök gjöld eru þá mun stærra hlutfall af hagnaði, eða 81% . Auðlindagjaldið leggst því með mismiklum þunga á fyrirtækin tvö sem setur þau í ólíka stöðu til að fjárfesta í frekari uppbyggingu, rannsóknum og þróun.
a) Þung gjaldtaka þegar afkoma er lítil eða engin
Dæmið hér að ofan endurspeglar jafnframt annan galla þess að taka gjald óháð afkomu. Sú staðreynd að gjaldið greiðist af hverju framleiddu kílói þýðir að því lægri sem framlegð og afkoma er, þeim mun þyngri verður hlutfallsleg byrði gjaldsins á heildarafkomu. Gjaldhlutföllin, sér í lagi þau sem gilda þegar verð eru lægri, eru óhófleg. Gæta þarf að því að gjaldtakan verði ekki svo íþyngjandi að rekstraraðilar hafi ekki fjárhagslegt svigrúm og hvata til að standa undir þeim fjárfestingum og þróunarkostnaði sem nauðsynlegur er, bæði til þess að stuðla að áframhaldandi sjálfbærri þróun iðnaðarins, og til þess að mæta þeim miklu kröfum um umhverfisvænni framleiðsluaðferðir sem settar eru fram í frumvarpinu.
b) Óreglulegur jaðarskattur
Í fyrirhugaðri gjaldtöku verður jaðarskattur einnig óreglulegur. Hlutfallsleg byrði gjaldsins fer þannig ýmist hækkandi eða lækkandi þegar alþjóðlegt verð afurðanna fer hækkandi. Þetta má sjá á myndinni hér að neðan.
Á vinstri ás er greiddir skattar og gjöld í milljörðum króna hjá fiskeldisfyrirtæki sem hefur sömu rekstrarforsendur og fyrirtæki A hér að ofan. Eftir því sem alþjóðlegt verð hækkar eykst gjaldtakan. Hins vegar, þegar litið er á gjaldtökuna sem hlutfall af hagnaði má sjá hve óregluleg gjaldtakan er, þ.e. hún eykst ekki í réttum takt við hagnaðarhlutfall. Þessi eiginleiki gjaldtökunnar getur jafnvel leitt af sér neikvæðan framleiðsluhvata.
Styrkjum stoðir verðmætasköpunar
Fyrirhuguð gjaldtaka af nýtingu auðlindar mun hafa verulega neikvæð áhrif á samkeppnishæfni og vöxt fiskeldis á Íslandi til framtíðar.
Þrátt fyrir að taka megi undir að þörf sé á endurbótum á skattaumhverfi fiskeldis í sjó, og að með frumvarpinu séu stigin skref í rétta átt að eðlilegri gjaldtöku, þar sem reynt er að nálgast afkomu, eru gjaldahlutföll eftir sem áður óhóflega há og þau munu takmarka fjárfestingar og umhverfisvænni framleiðsluaðferðir.
Nauðsynlegt er að stjórnvöld íhugi vandlega áhrif breytinganna og áfram sé leitast við að skapa skattaumhverfi á Íslandi þar sem fiskeldisfyrirtæki geta vaxið og þróast í alþjóðlegu samhengi. Greinin mun þá geta haldið áfram að styrkja stoðir íslensks efnahagslífs, skapa störf og stuðla að sjálfbærri verðmætasköpun til framtíðar.
Samtök fyrirtækja í sjávarútvegi (SFS) hafa veitt ítarlega umsögn um fyrirhugaðar breytingar varðandi gjaldtöku vegna fiskeldis í sjó og má nálgast þær m.a. á vef samtakanna.
Höfundur er hagfræðingur hjá Samtökum fyrirtækja í sjávarútvegi.