Týr hefur takmarkaðan áhuga á forsetakosningunum. Í hans huga er bara einn forseti. Það er hann Forseti Baldursson sem býr í Glitni. En nóg um það.

Þrátt fyrir áhugaleysið kemst Týr ekki hjá því að fylgjast með framgangi þeirra sem gefa kost á sér til embættisins. Frammistaða Baldurs Þórhallssonar stjórnmálafræðiprófessors við Háskóla Íslands og Höllu Hrundar Logadóttur orkumálastjóra hefur vakið sérstaka athygli hans.

***

Baldur var til viðtals í þættinum Spursmál sem fluttur var á vefsíðu Morgunblaðsins síðastliðinn föstudag. Stefán Einar Stefánsson spyrill gekk hart að Baldri eins og öðrum viðmælendum sínum.

Stefán spurði Baldur út í afstöðu hans til Icesave á sínum tíma. Baldur svaraði því til að hann hreinlega myndi ekki hvort hann hefði greitt atkvæði með eða gegn samningunum eftir að Ólafur Ragnar Grímsson, þáverandi forseti, vísaði þeim til þjóðaratkvæðisgreiðslu.
Tý þykir óneitanlega sérstakt að maður sem hefur starfað við að greina stjórnmál muni hreinlega ekki eftir hvernig hann greiddi atkvæði í stærsta deilumáli þjóðarinnar frá því að Ísland gekk í NATO.

Vitaskuld er Baldur að skrökva. Hann man auðvitað hvernig hann greiddi atkvæði. Hann var á þessum tíma varaþingmaður Samfylkingarinnar og varaði opinberlega við afleiðingum þess að þjóðin tæki fram fyrir hendur þingmeirihlutans í málinu.

Forseti Íslands þarf ekki að búa fyrir mörgum kostum. Minnisleysi og áhugi fyrir að halla réttu máli eru hins vegar ekki í flokki þeirra.

***

Það sem vekur athygli Týs við framgöngu Höllu Hrundar eru aftur á móti aðdáunarverðir hæfileikar hennar til þess að tala án þess að segja nokkuð sem hönd er á festandi í raun og veru.

Helsta tilkall Höllu til forsetaembættisins er að hún hafi einu sinni búið í blokk og svo farið í sveit. Á heimasíðu hennar segir að framboð hennar sé fyrir framtíðina hvað svo sem það þýðir. Þar segir:

„Á tímum gervigreindar, iðnbyltingar, hlýnunar jarðar og stríðsátaka hefur aldrei verið mikilvægara að taka þátt og vera með. Við þurfum að vera saman í að standa ekki á sama um framtíðina.“

Taka þátt og vera með í hverju? Stríðsátökum? Hlýnun jarðar? Hvert er frambjóðandinn að fara?

Þegar Týr les orðræðu Höllu Hrundar verður honum ósjálfrátt hugsað til Chauncey Gardiner. Það eru vissulega tíðindi að eftirspurn eftir fulltrúum hans sé jafn mikil og raun ber vitni á Íslandi.

Týr er enn af föstum ritstjórnardálkum Viðskiptablaðsins. Þessi birtist fyrst í blaðinu sem kom út 1. maí 2024.