Hrafnarnir sjá að niðurstöður Alþingiskosninganna liggja nú þegar fyrir og skammt er að bíða þess að ríkisstjórn þeirra Kristrúnar Frostadóttir og Þorgerðar Katrínar Gunnarsdóttir taki við völdum.

Eins og fram hefur komið þá tóku oddvitar Samfylkingarinnar og Viðreisnar fjarri góðu gamni þegar leiðtogaumræður frambjóðenda flokkanna fóru fram á Selfossi á miðvikudagskvöld og væntanlega er ástæðan sú að þeir voru að ganga frá stjórnarmynduninni með félögum sínum.

En hvorki Huginn né Muninn gera sér grein fyrir hvort um verði að ræða þriggja flokka stjórn Samfylkingar, Viðreisnar og Framsóknarflokks eða hvort að Pírötum verði kippt með í partíið.

Ekki nóg með að stjórnarsamstarfið sé klárt þá eru leiðtogarnir nú þegar farnir að skipa ráðherra. Þannig hefur Kristrún nú þegar gert Ölmu Möller að heilbrigðisráðherra við litla gleði aðildarfyrirtækja Félags fyrirtækja í velferðarþjónustu. Jafnframt hefur Kristrún greint frá því að Dagur B. Eggertsson muni gegna embætti sérstaks stuðningsfulltrúa ríkisstjórnarinnar.

Kaupauka- og kúlulánastjórnin eða valdboðsstjórnin?

Það er einsdæmi að ný ríkisstjórn sé mynduð áður en úrslit Alþingiskosninga liggja fyrir. Sökum þessa þurfa menn að hafa hraðar hendur við að finna nafn á nýju stjórnina.

Kaupauka- og kúlulánastjórnin hefur verið nefnd í þessu samhengi á vafasömum afkimum Internetsins. Hvort það viðurnefndi verður fleygt treysta hrafnarnir sér ekki að fullyrða um að svo komni máli. Ef að Píratarnir verða með í partíinu þá er borgarmeirihlutinn tekinn við landsmálunum og hægt væri að sækja innblástur í þá staðreynd: Braggastjórnin kemur til greina nú eða ríkisstjórn handabókar vetrarþjónustu.

Útlit er fyrir að tveir þriðju þríeykisins sem stýrði Íslandi á tímum heimsfaraldursins muni gegna ráðherrastöðu í hinni nýju stjórn: Ásamt Ölmu eru allar líkur á að Víðir Reynisson verði ráðherra. Af þessum sökum kemur nafnið Boðvaldsstjórnin vissulega til greina eða þá ríkisstjórnin brellna og brögðótta.

Stjórn opinberra starfsmanna

Hrafnarnir eru hins vegar sögulega þenkjandi í þessum efnum sem og öðrum. Alþýðuflokkurinn sálugi og Framsóknarflokkurinn mynduðu stjórn hinna vinnandi stétt á fjórða áratug síðustu aldar. Nafnið stjórn opinberra starfsmanna kallast skemmtilega á við söguna og það sama á við stjórn þeirra vinnandi stétta sem njóta mun betri lífeyris- og orlofsréttinda en aðrar vinnandi stéttir. Það er ekki jafn þjált en lýsir ágætlega þeim sem munu skipa ráðherrastóla nýju stjórnarinnar.

Huginn og Muninn er einn af föstum ritstjórnardálkum Viðskiptablaðsins.