Bestu þakkir til Landssamtaka lífeyrissjóða fyrir stórgóðan fund um samskipti fjárfesta og stjórna í þarsíðustu viku. Eins og mér fannst umræðan að mörgu leyti uppbyggileg og gagnleg var hún einnig full neikvæð á köflum. Dauði og djöfull að sitja í stjórn fyrirtækis vegna aukinna krafa, sérstaklega ef það er skráð á markað.
Til að koma með smá mótvægi í umræðuna dró ég saman nokkur atriði sem ég hvet stjórnendur til að hafa í huga:
Gagnlegar kröfur
Það er mikill samhljómur milli öflugs rekstrar og krafa sem fyrirtæki þurfa að fylgja eða eru hvött til að fylgja, þó það sé auðvitað ekki algilt. Þegar fyrirtæki ætla að stækka þurfa þau góða yfirsýn yfir reksturinn, þau þurfa því öfluga ferla til að tryggja upplýsingaflæði innan fyrirtækisins og tryggja áreiðanleika upplýsinganna. Þá þurfa þau að geta greint og skilið helstu áhættur. Þetta eru allt lykilatriði í áðurnefndum kröfum, sem stundum eru taldar íþyngjandi. Hyggjuvit og áhersla á „business“ dugar skammt ef ákvarðanir byggja á lélegum upplýsingum.
Reglur og ferlar sem eiga að tryggja réttindi allra hluthafa og draga úr hagsmunaárekstrum eru sömuleiðis til þess fallnir að ýta undir verðmætasköpun. Þetta liggur nánast í hlutarins eðli. Til langs tíma eru hluthafar sem heild klárlega að fá mikið fyrir peninginn með því að taka slík mál alvarlega, þó kröfurnar geti virst íþyngjandi í hita leiksins.
Afregluvæðing ESB
Þó ESB eigi það til að fara fram úr sér í reglusetningu er nú mikill vilji fyrir því að draga úr því regluverki sem gildir um skráð félög, sbr. ýmsar jákvæðar breytingar sem fylgja „Listing Act“ pakkanum og eru allar til þess fallnar að einfalda skráðum félögum lífið. Hluti hinna nýju reglna hafa þegar tekið gildi innan ríkja ESB og aðrar verða innleiddar í skrefum á komandi árum. Mér skilst að innleiðing reglnanna í EES samninginn hafi verið sett í forgang og vonandi mun það sama eiga við íslensku innleiðinguna. Þá eru einnig fleiri verkefni í gangi innan ESB sem hafa þetta sama markmið.
Gervigreind til bjargar?
Einhver nefndi gervigreind á fundinum, nánast í framhjáhlaupi. Ég hefði viljað fá meiri umræður um þann punkt því hann er algjört lykilatriði. Heimurinn er að verða flóknari en við höfum að sama skapi aldrei haft betri tól til að takast á við aukið flækjustig. Það eru ótal leiðir til að nýta gervigreind til að einfalda fyrirtækjum lífið, bæði með því að nýta almenn tól sem og sérhæfð.
Gervigreind getur hjálpað stjórnendum að skilja kröfur, draga saman texta, aðstoða við túlkun, skrifa fundargerðir, fara yfir verklagsreglur og margt fleira. Ég heyrði t.d. nýlega í skráðu félagi sem notar gervigreind til að aðstoða við að þýða tilkynningar yfir á ensku, með góðum árangri. Eitthvað sem hefði verið allt of tímafrekt og íþyngjandi fyrir örfáum mánuðum.
Fyrirtæki geta nálgast ýmis tól sem eru hönnuð til að einfalda og styrkja stjórnarstarfið. Til að mynda stjórnargáttina Nasdaq Boardvantage, sem getur hjálpað til við að efla ákvarðanatöku og auka skilvirkni stjórnarfunda, m.a. með aðstoð gervigreindar.
Horft fram á veginn
Til að draga saman geta reglur og kröfur frá hluthöfum verið flóknar. En ef vel er staðið að hlutunum eiga þær flestar að hjálpa til við að byggja upp öflug fyrirtæki, frekar en að draga athyglina frá rekstrinum. Þetta kallar á áframhaldandi samtal og að stjórnendur og hluthafar skoði allar leiðir til að bæta samskipti og ferla, öllum til hagsbóta.
Höfundur er framkvæmdastjóri skráninga hjá Nasdaq Iceland.