Virðingarleysi fyrir reglunum ­kemur niður á öllum sem starfa á fjármálamarkaði og taka þátt í skipulegum verðbréfamarkaði.

Sátt fjármálaeftirlits Seðlabankans og Íslandsbanka af­hjúpar nánast fullkomið virðingarleysi fyrir reglunum.

Sáttin leiðir í ljós veikleika á innra eftir­liti bankans og háttsemi sem er til þess fallin að hafa skaðleg áhrif á traust og trúverðugleika fjármálamarkaða. Fjármálaeftirlitið dregur fram sleifarlag kringum þátttöku starfsmanna ­bankans í útboðinu og að öðrum viðskiptavinum hafi verið veittar villandi upplýsingar. Loks telur fjármálaeftirlit Seðlabankans að Bankasýslunni hafi einnig verið veittar villandi upplýsingar um flokkun fjárfesta sem tóku þátt í útboðinu.

Íslandsbanki tilkynnti um sáttina ­fyrir helgi. Ljóst má vera af þeirri kynningu að stjórnendur bankans áttuðu sig engan veginn á alvarleika málsins. ­Vekur það mikla furðu í ljósi þeirrar staðreyndar að á vef Seðlabankans sést að samkomulagið um að ljúka málinu með sátt er dagsett 9. júní. Stjórnendur bankans hafa því haft nokkrar vikur til þess að skilja málið til hlítar. Það var ekki að sjá að sá tími hefði verið nýttur vel þegar bankinn kynnti niðurstöðuna fyrir helgi.

Í stuttu máli fólust viðbrögð stjórnenda bankans í því að segja að málið hefði verið óheppilegt, en búið væri að draga af því lærdóm, gera bragarbót á og endurskoða verkferla og hvað það allt saman kallast. Birna Einarsdóttir sagði þannig við fjölmiðla að ýmislegt hefði betur mátt fara en að „áhættumenning“ bankans væri sterk. Eins og flestir vita féllu þau orð fyrir ansi daufum eyrum, og innan við viku seinna hafði bankinn tilkynnt afsögn Birnu eftir 30 ára starf hjá bankanum, þar af helming sem bankastjóri.

Úttektin stangast enda skýrt á við fullyrðingar Birnu. Þar má finna fjölda dæma á borð við eftirfarandi:

„Þegar útboðið hófst kl. 16:11 hafi ­staðið yfir fræðsla regluvarðar fyrir nýja stjórnarmenn. Á fræðslufundinum voru regluvörður, stjórnarformaður, umræddur stjórnarmaður og varamaður í stjórn. Yfirlögfræðingur málsaðila kom inn á fræðslufundinn til að upplýsa um að útboðið væri hafið. Varpaði umræddur stjórnarmaður m.a. fram þeirri spurningu hvort hann mætti sem stjórnar­maður taka þátt í útboðinu þó svo að ­lokað tímabil stæði yfir hjá málsaðila.“

Ekki ber þetta vitni um íhaldssama áhættumenningu heldur miklu frekar skeytingarleysi um reglur og al­gjöran skort á hugsun um heildarhagsmuni útboðsins. Og fleiri sambærileg dæmi mætti tína til. Niðurstaða úttektar fjármálaeftirlits SÍ er áfall fyrir íslenskan fjármálamarkað og ábyrgð stjórnenda Íslandsbanka er mikil.

Á undanförnum árum hefur þátttaka almennings á verðbréfamarkaði ­aukist mikið, meðal annars vegna fjölda vel heppnaðra hlutabréfaútboða. Frumútboð Íslandsbanka og útboð fyrirtækja eins og Síldarvinnslunnar og Ölgerðarinnar síðustu ár hafa leitt til þess að tugþúsundir heimila hafa varið hluta af sparnaði ­sínum í fjárfestingar í hlutabréfum.

Öllum má vera ljóst að verknaðarlýsing eftirlitsaðila á fagfjárfestaútboði Íslandsbanka er til þess fallin af vinda ofan af þessari þróun og grafa undan trausti almennings á markaðnum. Flestir almennir fjárfestar sem hafa tekið þátt í ­slíkum útboðum á undanförnum árum hafa þurft að sætta sig við skerðingar eftir að niðurstaða útboðanna hefur legið fyrir. Það hafa þeir gert í góðri trú um að það sé gert á grundvelli jafnræðis og almennra leikreglna. Framferði stjórnenda Íslandsbanka grefur undan þeirri trú, enda sýnir sáttin í raun handahófskennda flokkun á fagfjárfestum og almennum eftir hentugleika starfsmanna bankans.

Uppsögn Birnu Einarsdóttur var skref í rétta átt og vísbending um að yfirstjórn bankans sé loks farin að átta sig almenni­lega á alvarleika málsins. En betur má ef duga skal. Ábyrgð stjórnenda bankans er einfaldlega meiri en svo að afsögn Birnu ein og sér geti hreinsað þá af syndum sínum. Hluthafar bankans verða að átta sig á því að meira þarf til ef hefja á endurreisn trúverðugleika bankans af alvöru. Ljóst er að fórnarkostnaðurinn vegna þessa máls er mikill en skjót og örugg viðbrögð við þeirri stöðu sem nú er komin upp gætu dregið úr honum