Tý þykir lögfræðiálit Lex sem unnið var ­fyrir Samtök fyrirtækja í sjávarútvegi á lögmæti ákvörðunar Svandísar Svavarsdóttir matvæla­ráðherra þess efnis að stöðva tímabundið veiðar á langreyðum vera býsna sann­færandi. Niðurstaða álitsins er afdráttarlaus: „Í minnis­blaði þessu hefur með rökstuddum hætti verið komist að þeirri niðurstöðu að sú ákvörðun ráðherra að banna tímabundið ­veiðar á langreyðum við Ísland árið 2023 hafi farið í bága við lög og ekki verið reist á nægjanlega traustum lagagrundvelli.“

***
Með öðrum orðum eru færð í álitinu rök fyrir því að Svandís hafi brotið lög þegar hún hljóp til öllum að óvörum og bannaði fyrirhugaðar veiðar Hvals degi áður en skip fyrirtækisins áttu að leggja frá bryggju. Hvaða skoðanir sem menn kunna að hafa á hvalveiðum má öllum vera ljóst að svona stjórnsýsla er ólíðandi með öllu.

Enda snýst þessi þáttur málsins alls ekki um hvalveiðar. Hann snýst um réttarríkið og og vernd borgaranna gagnvart misbeitingu valds, eins og Heiðrún Lind Marteinsdóttir framkvæmdastjóri SFS hefur bent á. Ef stjórnvöld virða ekki þessar mikilvægu reglur og grunngildi samfélagsins er voðinn vís.

Í ljósi þessa þykir Tý undarlegt að fylgjast með andstæðingum hvalveiða hylla Svandísi matvælaráðherra fyrir svo gagnrýniverða stjórnsýslu sem að öllum líkindum stangast á við lög. Þetta er sama fólkið og rífur hár sitt og skegg vegna brota starfsmanna Íslandsbanka á lögum í tengslum við útboðið á hlut ríkisins í fyrra og krefst þess að Bjarni Benediktsson axli ábyrgð á framgöngu bankans.

***

Fram kemur í áliti Lex að eigendur Hvals og starfsfólk kunni að eiga skaðabótarétt á hendur ríkinu vegna framgöngu matvælaráðherra. Vilhjálmur Birgisson, verkalýðsleiðtogi á Skipaskaga, hefur bent á að sáttagreiðsla Íslandsbanka vegna brota í útboðinu er nákvæmlega sú sama og tekjutap starfsmanna Hvals, um 1,2 milljarðar. Það er kaldhæðnis­legt, svo ekki sé sterkar að orði kveðið.

Týr er fastur dálkur í Viðskiptablaðinu og vb.is.