Líkt og litla lestin sem gat lét bankaráð Landsbankans ekki eigendastefnu ríkisins um fjármálafyrirtæki stöðva sig í að ríkisvæða fleiri fyrirtæki.
Landsbankinn, sem er 98,2% í eigu ríkisins en skilgreinir að sögn bankastjórans sig þó sem einkafyrirtæki, ákvað ekki að láta einhver plögg frá kjörnum fulltrúum trufla sig frá skýrum markmiðum bankastjóra og formanni bankaráðs um að hér þurfi augljóslega fleiri fjármálafyrirtæki að vera í ríkiseigu.
Höfuðmarkmið eigendastefnu ríkisins fyrir fjármálafyrirtæki frá árinu 2020 er að „ríkið stefnir ekki að því að eiga meirihluta í fjármálafyrirtækjum á almennum markaði til lengri tíma.“
En líkt og Peter Gibbons kenndi öllu skrifstofufólki um aldamótin er best að breyta um stefnu þegar fyrirmæli yfirmanna eru manni ekki að skapi,
„Vertu breytingin“
Í stjórnarháttayfirlýsingu Landsbankans segir að formaður bankaráðs eigi að stýra samskiptum við hluthafa bankans og verður ekki annað séð en að það eigi að tilkynna hluthöfum um „óvenjulegar eða mikils háttar“ ráðstafanir.
Bankinnn telur símtal um óskuldbindandi tilboð í fyrra hafi uppfyllt þessa upplýsingaskyldu. Af þeim sökum hafi verið óþarfi að tilkynna um skuldbindandi tilboð fyrir tæplega 29 milljarða sem var lagt fram þremur mánuðum seinna.
Kaupverðið samsvarar næstum sömu upphæð og allur hagnaður bankans í fyrra þó Tý gruni að skuldabréfaútboð í febrúar hafi verið nýtt til að fjármagna kaupin.
Fyrirvarar um samþykki hluthafa, líkt og var í tilboði Íslandsbanka í TM, voru einnig óþarfi enda til hvers að binda hendur ríkisins þvert á yfirlýsta stefnu ef það er hægt að rétta úr kútnum síðar meir.
„Vertu breytingin sem þú vilt sjá í heiminum,“ sagði Halla Tómasdóttir eitt sinn en setningin er stundum ranglega eignuð Gandhi. Sú tilvitnun, helst á bleikum bakgrunni, ætti að vera skjámynd öllum borðtölvum Landsbankans héðan í frá.
Týr telur ágætar líkur á því að bankaráð sé að rugla saman stefnu ríkisins fyrir ríkisbankann og stefnu ríkisins fyrir eignarhald á fjármálamörkuðum í heild sem óneitanlega á við um bankann.
Í undirkafla eigendastefnu ríkisins um bankann sjálfan segir að ríkið stefni að því að eiga Landsbankann til „langframa.“
Landsbankinn hefur túlkað þetta þannig að hann eigi því að ganga langt inn á samkeppnismarkað og stækka enn frekar eins og systurstofnanir sínar ÁTVR og RÚV.