Hljóðlátt stríð geisar nú á Íslandi. Stríð Þórunnar Önnu Árnadóttur, forstjóra Neytendastofu, og hennar fólks gegn íslenskum fyrirtækjum og með hvaða hætti þau markaðssetja vörur sínar. Á Neytendastofu starfa tíu manns og reksturinn kostar 135 milljónir á ári.

Erfitt er að finna verkefni fyrir svo marga sem starfa á jafn fánýtri stofnun. Það þarf ekki tíu manns til að fylgjast með áhrifavöldum.

Þess vegna fól Lilja Alfreðsdóttir, þáverandi ráðherra íslenska dansflokksins og rafrænna skilríkja, starfsmönnum stofnunarinnar að skera upp herör gegn enskunotkun í markaðsstarfi fyrirtækja. Hefur nú stofnunin eftirlit með því hvort fyrirtæki noti ekki örugglega íslensku við markaðssetningu.

Áfangasigur náðist í stríðinu á dögunum en þá gerði Neytendastofa „tungumálarassíu“, eins og það var kallað í frétt Vísi, að reiðhjólaverslunum borgarinnar. Niðurstaðan voru sektahótanir og fleira í þeim dúr.

Ástæðan var að á heimasíðum verslananna var eingöngu að finna lýsingar á ensku á tæknilegum smáatriðum um virkni hjólanna. Það er algengt að fyrirtæki sem þjónusta þá sem hafa sérhæfð áhugamál að þessi háttur sé hafður á en nú hefur Neytendastofa komið í veg fyrir það.

Val fyrir „hraðvirka vegfarendur“

Reiðhjólaverslunin Örninn hefur greinilega nú þegar brugðist við, enda hafði Neytendastofa hótað fyrirtækinu dagsektum, og væntanlega hefur gamla góða gervigreindin komið þar við sögu. Að minnsta kosti geta menn nú lesið hvernig „keppnishæfir hlutir“ gera Émonda SL 7 -hjólið „að frábæru vali fyrir hraðvirka vegfarendur sem leita af öllum frammistöðukostum“ á okkar ástkæru ylhýru tungu.

Umtalaðisti pallbíllinn

Hrafnarnir eru áhugasamir um gítara og þess vegna hlakka þeir til að lesa í boði Neytendastofu hvernig Epihone Les Paul Custom-gítarinn, sem Tónastöðin hefur til sölu, sé orðinn „hljóðlega orðið einn umtalaðasti pallbíllinn í greininni.“ Hvernig „gyllti vélbúnaðurinn“ og líkaminn sé umtalaður. Augljóslega styrkist staða neytenda við þetta.

Það er mál manna að fullnaðarsigur hinna hugrökku starfsmanna Neytendastöðu á hjólreiðaverslunum sé sá stærsti frá árinu 2024 þegar allsherjarárás var gerð á veitingastaði í höfuðborginni til að athuga hvort að matseðlar væru ekki örugglega sjáanlegir við inngang og prentaðir út á íslensku.

Huginn og Muninn er einn af föstum ritstjórnardálkum Viðskiptablaðsins.