Í RÚV fréttum 18. október setti Aðalheiður Jóhannsdóttir professor í auðlindarétti við Háskóla Íslands fram athyglisverða tillögu. Aðalheiður sagði að Ísland þyrfti að einfalda og flýta leyfisveitingum í grænni orku ef lögboðin loftslagsmarkmið Íslands og orkuskipti ættu að nást.
Tillaga Aðalheiðar er að leggja niður rammaáætlun, samræma verkferla, stytta leyfisveitingaferlið í 1 ár sem er viðmið í nágrannalöndum okkar, og að einungis verði um 1 leyfi að ræða en ekki mörg.
Af hverju skiptir þetta máli? Ein ástæðan eru lögbundin loftslagsmarkmið því eins og Umhverfis, orku og loftslagsráðherra þreytist ekki á að nefna á ráðstefnum þá þarf Ísland að borga 1.000 milljónir til 10.000 milljónir á ári ef markmiðin nást ekki. Ef til þess kemur þá er það líklega Íslandsmet í sektum og sorglegt því hægt er að nýta þá peninga til góðs hér innanlands t.d. til uppbyggingar vegakerfisins eða annarra innviða. Hagsmunirnir eru miklir fyrir íslenska þjóð.
Önnur sjónarmið er hægt að taka inn í umræðuna. Nú þegar hefur um 26% af öllu landssvæði á Íslandi verið friðað. Á sama tíma er öll landnotkun orkugeirans um 0.6% af landinu. Þannig að þó græn orka yrði þrefölduð að stærð þá næði landnotkunin ekki 2%.
Á sama tíma vantar meiri græna raforku. Forstjóri Landsvirkjunar segir að græn orka sé uppseld í landinu. Hvaða máli skiptir það, gæti einhver spurt? Jú, ein ástæðan er að raforka er ein aðalforsenda þess að hægt sé að skapa störf í landinu. Án raforku verður lítið um atvinnusköpun sem er mikilvæg því landsmönnum fjölgar og skapa þarf störf fyrir komandi kynslóðir.
Sú skerðing neyddi fiskimjölsverksmiðjurnar yfir á díselolíu sem þann eina vetur þurrkaði út allan loftslagsávinning af öllum rafmagnsbílum frá upphafi sem fluttir hafa verið til landsins með niðurgreiðslum frá ríkissjóði.
Tölfræðileg skoðun á niðurstöðum rammaáætlunar, sem er hluti af núverandi leyfisveitingaferli vatnsafls- og jarðvarmavirkjana, sýnir að meðaltímalengd verkefna í rammaáætlun er 16 ár en dæmi eru um að þó nokkur verkefni hafi verið þar til umfjöllunar í 23 ár. Til samanburðar má nefna að 11,8 MW dísel varaaflsstöð Landsnets í Bolungarvík tók 2 ár, frá undirbúningi til framleiðslu. Kannski verður framtíðarorkunotkun Íslands knúin díselolíu því auðvelt virðist að koma þeim á koppinn en grænni orku ekki.
Loftslagsávinningur þurrkaður út
Sem dæmi má nefna að vindlundur StormOrku hefur verið tafinn um 5 ár nú þegar. Ef verkefnið hefði fengið að halda tímaáætlun og hafið framleiðslu á grænni raforku árið 2021 eins og stefnt var að þá hefði Landsvirkjun ekki þurft að skerða raforku á fiskimjölsverksmiðjur síðasta vetur. Sú skerðing neyddi fiskimjölsverksmiðjurnar yfir á díselolíu sem þann eina vetur þurrkaði út allan loftslagsávinning af öllum rafmagnsbílum frá upphafi sem fluttir hafa verið til landsins með niðurgreiðslum frá ríkissjóði. Þórisvatn fylltist ekki í haust og því mögulegt að Landsvirkjun þurfi að skerða þessa orku enn á ný í vetur sem setur loftslagsávinning í töluverðan mínus í loftslagsbókhaldinu.
Til viðbótar við langt leyfisveitingaferli bætist að grænorkuverkefni eru umfangsmikil framkvæmd. Byggingartími verkefnanna er 3 til 6 ár, sem ræðst af flækjustigi hvers verkefnis og stærð. Þróunartími grænorkuverkefna, með núverandi leyfisveitingatíma og svo viðbættan byggingartíma er því að lágmarki 12 ár en getur verið allt að 29 ár eins og staðan er í dag. Tíminn til ákvarðana er því nú, ekki eftir mörg ár.
Þegar þessar tölur um landnýtingu, raforkuþörfina til atvinnusköpunar, væntanlegar sektir vegna loftslagsmarkmiða, afgreiðsluhraða rammaáætlunar, núverandi leyfisveitingatíma og byggingartíma grænnar orku og díselorku, eru bornar saman þá er einsýnt að eitthvað verður undan að láta því annars mun Ísland ekki ná loftslagsmarkmiðum sínum og dæmt til að greiða himinháar sektir á ári hverju.
Er ekki kominn tími til að hrinda hugmyndum Aðalheiðar í framkvæmd um að fella niður rammaáætlun og hafa 1 leyfi fyrir grænorkuverkefni sem tekur 1 ár að sækja til að forðast stórtjón þjóðarinnar?
Hvað gerist ef það næst ekki? Hver ber ábyrgðina á því? Lendir ábyrðin og skaðinn á aðgerðaleysinu á skattgreiðendum og komandi kynslóðum? Er það ásættanlegt?