Hrafnarnir sjá að Dagur B. Eggertsson, sérstakur stuðningsfulltrúi Samfylkingarinnar á Alþingi, er að reyna að gera sig gildandi í umræðum um alþjóðamál eftir að hann var kjörinn formaður Íslandsdeildar NATO-þingsins, sem er ein af fastanefndum Alþingis.

Það er skiljanlegt. Leitun er að víðförulli manni en stærstur hluti þeirra ferðalaga var kostaður af íbúum Reykjavíkur. En þetta virðist ekkert ganga sérlega vel hjá Degi. Á mánudag skrifaði hann grein á Vísi þar sem hann segir að flýta eigi þjóðaratkvæðisgreiðslu um aðild að Evrópusambandinu enda megi engan tíma missa sökum viðsjár í alþjóðamálum.

Greinin var varla búin að birtast þegar Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir, utanríkisráðherra, steig fram í fjölmiðlum og sagði engar breytingar verða gerðar á áætlunum um fyrirhugaða þjóðaratkvæðisgreiðslu á seinni hluta kjörtímabilsins. Um kvöldið var svo Kristrún Frostadóttir forsætisráðherra í Silfrinu, þar sem hún sagði að ekki ætti að flýta ferlinu á grundvelli ótta vegna varnarmála. Grein Dags var því einungis búin að vera í nokkra klukkutíma í birtingu þegar strikað hafði verið yfir hana.

Huginn og Muninn er einn af föstum ritstjórnardálkum Viðskiptablaðsins. Þessi birtist fyrst í blaðinu sem kom út 5. mars 2025.