Ríkisstjórnin ætlar að reka ríkissjóð með halla til og með árinu 2027. Það er óskiljanlegt. Ríkisstjórnin ætlar að taka lífskjör að láni. Hvað þýðir það? Jú að annað hvort þarf að skera niður ríkisútgjöld síðar, eða hækka skatta. Líklega hvort tveggja.

Efnahagskerfi heimsins titrar. Óðaverðbólga - en það er 10-15% verðbólga annars staðar en á Íslandi kölluð, hrun á fjármálamörkuðum – en hlutabréf hafa víða lækkað um 25% í ár (hér er lækkunin um 28%) og skuldakreppa – en lönd eins og Ítalía eru á barmi gjaldþrots.

***

En íslenska fjármálaráðuneytið hefur ekki frétt af þessu. Ríkisútgjöld verða hækkuð um 129 milljarða milli ára á næsta ári, ef tekið er tillit til tímabundinna útgjalda ríkissjóðs vegna Covid. Þetta er auðvitað sturlun.

Það sem helst er að frétta af Sjálfstæðisflokknum, sem ætti að verja okkur fyrir þessari vitleysu allri, eru vangaveltur um hver verður ritari. Hver tekur við embætti sem er algjörlega ónauðsynlegt og var stofnað til í miklum misskilningi.

***

Á dögunum var tilkynnt um kaup ríkissjóðs á 5.900 fermetra húsnæðis í nýjum höfuðstöðvum Landsbankans. Það hefur lengi verið orðrómur um að þetta stæði til en Týr trúði því einfaldlega að Bjarni Benediktsson myndi koma í veg fyrir þetta. Þessi ráðstöfun er reiðarslag kjósendur Sjálfstæðisflokksins.

***

Það sem gerir málið enn verra, er að inn í dýrasta skrifstofuhúsnæði á Íslandi ætlar varaformaður Sjálfstæðisflokksins að koma sér fyrir ásamt öðru starfsfólki í einu ónauðsynlegasta ráðuneyti landsins, og er samkeppnin nokkuð hörð. Einn fjölmiðill greindi frá því Þórdís Kolbrún Gylfadóttir Reykfjörð og Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir hafi barist fyrir því komast með ráðuneyti sín inn í höllina. Ef rétt er þá felast í því nokkur tíðindi.

Þær ætla sér hvorugar að sækjast eftir formennsku í Sjálfstæðisflokknum.

Týr er einn af reglulegum skoðanadálkum Viðskiptablaðsins. Þessi birtist í Viðskiptablaðinu sem kom út 5. október 2022.