Heimsmyndin hefur tekið miklum breytingum á síðustu árum. Heimsfaraldur, náttúruhamfarir, stríð, truflanir í aðfangakeðjum, tollastríð og orkuskortur hafa undirstrikað mikilvægi þess að samfélög séu vel undirbúin fyrir óvænt áföll. Hæfni þjóða til að bregðast við áskorunum og skapa tækifæri í mótlæti hefur sjaldan verið mikilvægari. Ísland er þar engin undantekning en sérstaða okkar og staðsetning á jarðfræðilega virkri eyju hafa undirstrikað enn frekar mikilvægi þess að byggja upp trausta innviði og skýrar viðbragðsáætlanir.

Á undanförnum árum hafa stjórnvöld víða um heim lagt aukna áherslu á að styrkja samfélagslega seiglu og viðnámsþrótt í ljósi óvissu og spennu á alþjóðavettvangi og fjölbreyttra ógna. Sem dæmi má nefna að Danmörk hefur sett fram stefnu um aukið matvælaöryggi og sjálfbæra framleiðslu, Noregur og Svíþjóð hafa markvisst unnið að því að bæta orkuinnviði og Finnland hefur byggt upp sterkar varnir í stafrænum innviðum og netöryggi. Ísland getur lært mikið af nágrannalöndunum og innleitt sambærilegar lausnir sem henta okkar aðstæðum. Það kallar á aukið samstarf stjórnvalda og atvinnulífs, skýrari stefnumótun um lykilþætti samfélagslegs viðnáms og öflugar fjárfestingar í innviðum.

Innviðir og viðnámsþróttur

Innviðir skipa lykilhlutverk í að tryggja samfélagslegan viðnámsþrótt Íslands. Þeir eru undirstaða fyrir öryggis, heilbrigðis, efnahagslegrar og félagslegrar velferðar samfélagsins. Án öflugra innviða er erfitt að mæta áföllum eða skapa langtímaviðnám gagnvart breytingum í umhverfi og samfélagi.

Í nýrri skýrslu Samtaka iðnaðarins og Félags ráðgjafaverkfræðinga um umfang og ástand innviða á Íslandi kemur fram að uppbyggingu og viðhaldi innviða hafi ekki verið nægjanlega vel sinnt á síðustu árum. Innviðaskuldin hefur vaxið og er hún samfélaginu mjög dýr.

Sem dæmi má nefna að Ísland nýtur sérstöðu með sjálfbærri orkuvinnslu úr vatnsafli og jarðvarma, en til að tryggja viðnámsþrótt orkukerfisins þarf að tryggja nægt framboð raforku fyrir atvinnulíf og heimili og áframhaldandi fjárfestingu í flutnings- og dreifikerfum. Að sama skapi getur öflug vatnsveita og fráveitukerfi skipt sköpum fyrir lýðheilsu. Hrein og örugg vatnsveita er nauðsynleg til að tryggja aðgang að hreinu drykkjarvatni og viðhalda hreinlæti í samfélaginu. Þá tengir samgöngukerfi landsins byggðir og styður við efnahagslega og félagslega starfsemi. Stöðugt viðhald og uppbygging vegakerfis eru nauðsynleg til að tryggja greiðar samgöngur um landið, sérstaklega í ljósi aukinna áskorana vegna náttúruváa og loftslagsbreytinga. Þarna hefur innviðaskuldin því miður vaxið verulega og er ástand vegakerfisins slæmt. Fjárfesting í jarðgöngum, brúm og bættum vegum eykur ekki aðeins öryggi heldur einnig hagkvæmni í vöruflutningum og eflir svæðisbundinn jöfnuð. Á tímum gervigreindarkapphlaups eru einnig öflugir net- og fjarskiptainnviðir forsenda öryggis og vaxtar. Öryggisbrestur í samvirkni net- og fjarskiptakerfa getur haft víðtæk keðjuverkandi áhrif á samfélagið. Öll þurfum við að beina sjónum að netöryggi og vernd gegn netárásum en stafræn kerfi eru skotmark í breyttum heimi. Tengingar okkar við umheiminn hafa aldrei verið mikilvægari.

Góðar fyrirmyndir í finnska viðbúnaðarlíkaninu

Finnska viðbúnaðarlíkanið hefur vakið athygli fyrir árangursríka samvinnu hins opinbera og atvinnulífsins við að tryggja samfélagslega öryggis- og viðnámsgetu. Líkanið byggist m.a. á víðtæku samstarfi þar sem fyrirtæki, stjórnvöld og aðrar stofnanir vinna saman að því að tryggja samfellu í mikilvægri starfsemi, jafnvel við ófyrirséðar aðstæður.

Einn af lykilþáttum finnska viðbúnaðarlíkansins er formlegt samstarf atvinnulífsins og hins opinbera. Fyrirtæki í ýmsum atvinnugreinum taka virkan þátt í að móta áætlanir um viðbúnað og áhættumat, þar sem lögð er sérstök áhersla á öryggi aðfangakeðja, stöðugt orkuframboð, fjarskiptakerfi og aðra grunnþjónustu og innviði. Í Finnlandi eru fyrirtæki auk þess hvött til að þróa eigin viðbúnaðaráætlanir í takt við þjóðaröryggisstefnu landsins. Með þessum hætti er tryggt að lykilatvinnugreinar séu betur í stakk búnar til að takast á við áföll, hvort sem þau eru efnahagslegar, netárásir eða náttúruhamfarir.

Sérstök áhersla er lögð á viðnámsgetu birgðakeðja, þar sem fyrirtæki vinna náið með stjórnvöldum að því að tryggja stöðugleika í framleiðslu, orkuöflun og matvælaframleiðslu. Netöryggi er einnig forgangsmál, enda hefur hættan á netógnum aukist til muna á síðustu árum. Samstarf atvinnulífs og stjórnvalda í Finnlandi hefur leitt til öflugra varna gegn netárásum, sem geta haft alvarleg áhrif á innviði samfélagsins. Þá eru fyrirtæki hvött til að þróa rekstraráætlanir sem miða að því að lágmarka truflanir í starfsemi sinni, ef óvænt áföll ríða yfir. Orkuöryggi skiptir einnig miklu máli, þar sem Finnar leggja áherslu á að tryggja öruggt og stöðugt aðgengi að orku. Auk þess taka fyrirtæki virkan þátt í viðbúnaðaræfingum og fræðslu sem eykur viðbragðsgetu starfsfólks.

Reynsla Finna sýnir að samvinna atvinnulífsins og hins opinbera getur styrkt viðnámsþrótt samfélagsins og tryggt stöðugleika í efnahagslífinu. Ísland gæti lært margt af þessu líkani og mikilvægt að íslensk stjórnvöld og atvinnulíf efli samstarf á þessu sviði og móti langtímaáætlanir sem tryggja stöðugleika og samkeppnishæfni íslensks iðnaðar í alþjóðlegu samhengi.

Hlutverk atvinnulífsins í viðnámsþrótti

Viðnámsþróttur samfélagsins byggir á traustum innviðum, öflugri framleiðslu og öryggi í aðfangakeðjum. Ísland er t.d. í sterkri stöðu til að tryggja innlenda orkuvinnslu, en við erum hins vegar háð innflutningi á varahlutum og tækjabúnaði sem getur skapað veikleika. Þessum veikleikum þurfa stjórnvöld að bregðast við í samstarfi við fyrirtæki á ólíkum sviðum eins og orkumálum og innviðauppbyggingu. Sama má segja um matvælaframleiðslu, þar sem við erum háð innflutningi á ýmsum nauðsynjavörum. Með aukinni innlendri matvælaframleiðslu, nýjum tæknilausnum og betri viðbúnaði fyrirtækja má styrkja stöðu landsins í mögulegum áföllum. Hér geta íslensk stjórnvöld og atvinnulífið tekið skref í átt að öflugu samstarfi þar sem fyrirtæki eru virkir þátttakendur í þjóðaröryggisáætlunum.

Íslendingar hafa um aldir sýnt einstakan viðnámsþrótt, hvort sem það hefur verið í kjölfar náttúruhamfara, efnahagslegra áfalla eða alþjóðlegra átaka. Aðlögunarhæfni, útsjónarsemi og samheldni samfélagsins hafa gert okkur kleift að snúa vörn í sókn. Við höfum alla burði til að styrkja samfélagslegan viðnámsþrótt landsins – spurningin er hvernig við nýtum þau tækifæri sem fyrir liggja. Með öflugri stefnumótun, auknu samstarfi og markvissum aðgerðum getum við tryggt að Ísland verði betur í stakk búið til að mæta óvæntum áföllum og standi sterkt á óvissutímum.

Höfundur er sviðsstjóri mannvirkjasviðs Samtaka iðnaðarins.

Greinin birtist í sérblaðinu Iðnþing 2025.