Málefni Ölmu leigufélags hafa verið áberandi í fjölmiðlum að undanförnu. Er það sérstaklega Heimildin – nýstofnaður fjölmiðill á grunni Kjarnans og Stundarinnar – sem hefur sýnt félaginu áhuga og þá ekki síst fjármálavafstri eigenda félagsins.

Í fyrsta prentaða eintaki Heimildarinnar er svo fjallað ítarlega um leigufélagið. Er það hinn margverðlaunaði rannsóknarblaðamaður Aðalsteinn Kjartansson sem skrifar úttektina. Þar segir hann Heimildina að hafa lagst í mikla greiningarvinnu – sem virðist að hafa falist í því að skoða ársreikninga og árshlutauppgjör Ölmu – sem leiddi ljós þau miklu tíðindi að leigusamningar félagsins eru verðtryggðir á meðan hluti fjármögnunar lána er óverðtryggður. Þetta er sett fram eins og þarna sé um vafasaman gjörning að ræða og ýjað að því að verðtryggingin tryggi hagnað af leigusamningum meðan óverðtryggð fjármögnun éti upp lánin á verðbólgutímum. Í fréttinni segir:


Það sama verður ekki sagt um skuldir Ölmu, sem upphaflega var stofnað til vegna kaupa á þessum íbúðum. Samkvæmt upplýsingum úr ársreikningum félagsins hafa stjórnendur Ölmu markvisst snúið sér að óverðtryggðum lánum til að fjármagna fjárfestingar sínar.“

Og enn fremur:

Með öðrum orðum eru tekjur Ölmu tryggðar fyrir verðbólgu og hækka í takt við hana á meðan skuldirnar eru að miklu leyti ónæmar fyrir verðbólgunni. Í tæplega tíu prósent verðbólgu hafa leigutekjurnar hækkað talsvert á meðan skuldirnar hafa lækkað að raunvirði.

Við þessa framsetningu er eitt og annað að athuga. Í fyrsta lagi er ekki rétt að verðbólga og vaxtastig hafi ekki áhrif á kjör á óverðtryggðum lánum. Fjármálafyrirtæki og skuldabréfaeigendur eru í flestum tilfellum ekkert sérstaklega hrifnir af því að lána fé sitt á neikvæðum raunvöxtum. Í öðru lagi er ekki fáheyrt að fasteignafélög hafi þennan háttinn á þegar kemur að fjármagnsskipan. Flest leigufélög landsins eru með vísitölutengda leigusamninga og einhvern hluta fjármögnunar óverðtryggðan. Þannig er leigufélagið Bjarg – sem er óhagnaðardrifið félag í eigu ASÍ og BSRB – fjármagnað að stærstum hluta óverðtryggt meðan leigutekjurnar eru verðtryggðar.

Það er því vart hægt að segja að Heimildin hafi verið að svipta hulunni af einstöku gróðabralli leigufélagsins Ölmu sem felst í að vísitölutengja tekjur á móti óverðtryggðri fjármögnun. Fyrr í vetur var fjallað um málefni Ölmu á þessum vettvangi. Þar var vísað í umfjöllun Innherja, viðskiptavefs Vísis, um stöðu félagsins. Þar kom meðal annars fram að tólf milljarða hagnaður Ölmu í fyrra er að langstærstum hluta til kominn vegna matsbreytinga á virði eigna félagsins. Þeir sem fylgjast vel með fjölmiðlum ættu að kannast við slíkt en matsbreytingar á eignum Félagsbústaða Reykjavíkur hafa til að mynda haft mikil áhrif á afkomutölur borgarinnar. En rétt eins og hjá Félagsbústöðum er hagnaður Ölmu fyrst og fremst reiknuð stærð sem hefur ekki áhrif á sjóðsstreymi félagsins. Nema eignir verði seldar og hagnaður af þeim innleystur. Alma hefur vissulega raunhæfari möguleika á að selja eignir í stórum stíl til að innleysa hagnað af fjárfestingaeignum sínum, heldur en til dæmis Félagsbústaðir Reykjavíkurborgar.

Einnig er bent á í umfjöllun Innherja að við árslok 2021 námu vaxtaberandi skuldir Ölmu 38,7 milljörðum króna. Veltufé frá rekstri, sem eru þeir fjármunir sem eiga að standa undir fjármagnskostnaði, afborgunum og fjárfestingum félagsins, var um 1,9 milljarðar króna. Það rétt dugar til að standa undir tæplega 5 prósenta fjármagnskostnaði – og það án afborgana af höfuðstól skuldbindinga. Í sex mánaða uppgjöri Ölmu batnaði staðan ekki, heldur þvert á móti. Þar standa vaxtaberandi skuldir í 44,2 milljörðum króna og veltufé frá rekstri var ríflega 1,2 milljarðar. Það þýðir að rekstur félagsins stendur undir fjármagnskostnaði á bilinu 2-3 prósent af vaxtaberandi skuldum, en bæði vextir og verðbólga hafa verið miklu hærri en svo á árinu.

***

Þátturinn Sunnudagssögur er á dagskrá Rásar tvö á sunnudögum eins og nafnið gefur til kynna. Í kynningu á þættinum kemur fram að þáttastjórnandi fær „til sín góða gesti sem segja sögur úr lífi sínu, sögur sem hafa haft áhrif á líf þeirra viðbrögð“. Með öðrum orðum þægilegur spjallþáttur.

Síðasta sunnudag fékk Snærós Sindradóttir þáttastjórnandi til sín Evu Hauksdóttir lögmann sem einnig hefur verið áberandi í umræðunni um hin ýmsu átakamál. Undir lok þáttarins fór Eva að lýsa skoðunum sínum á máli sem hefur verið kennt við svokallaða skæruliðadeild Samherja. Skoðanir Evu á málinu hafa ekki verið fyrirferðarmiklar í spjallþáttum í Ríkisútvarpinu til þessa. Enda fór það svo þáttastjórnandi var farinn að hnakkrífast við gest sinn undir lok þáttar og fann skoðunum Evu allt til foráttu.
Áhugaverð framganga þó ekki sé sterkar að orði kveðið.

Fjölmiðlarýni er einn af skoðanadálkum Viðskiptablaðsins. Þennan pistil má lesa í heild í Viðskiptablaðinu sem kom út þann 26. janúar 2023.