Týr hefur ekki mikið álit á stjórnmálamönnum sem víla ekki fyrir sér að brjóta lög og reglur til þess að ná fram pólitískum áhugamálum sínum.
Svandís Svavarsdóttir, formaður Vinstri grænna, er ágætt dæmi um slíkan stjórnmálamann. Hún er á móti virkjunum og greiðu framboði á grænni orku. Þess vegna neitaði hún að staðfesta skipulag Flóahrepps sem laut að Urriðafossvirkjun. Fyrir það fékk hún dóm í hæstarétti árið 2011. Henni var sama um það. Markmiðið um að tefja virkjunarframkvæmdir náðist. Hún gerði lítið úr dómnum og talaði um pólitískan ágreining milli sín og hæstaréttar.
Afleiðing þessa er orkuskortur sem landsmenn súpa seyðið af í dag.
Það sama var uppi á teningnum þegar Svandís virti stjórnarskrárbundið atvinnufrelsi að vettugi og kom í veg fyrir hvalveiðar í trássi við gildandi lög og reglur. Lög og reglur skipta engu í augum slíks fólks þegar hið pólitíska markmið er skýrt.
Týr veltir fyrir sér hvort Samfylkingarfólk telji þetta til eftirbreytni. Að minnsta kosti hefur það valið Ölmu Möller landlækni í oddvitasætið í Kraganum. Í embætti hefur Alma Möller varað við að einkaframtakið fái að njóta sín í heilbrigðiskerfinu og stuðlað þar með að styttri biðlistum og betri þjónustu. Í viðtali við Heimildina sagðist hún óttast það að læknar og hjúkrunarfræðingar kjósi frekar að starfa í einkageiranum í stað þess að vinna fyrir ríkið.
Í embætti hefur Alma reynt að bregða fæti fyrir einkaframtakið. Hún sýndi einbeittan brotavilja til að koma í veg fyrir að fyrirtækið Intúens tæki til starfa í skjóli vafasamrar stjórnsýslu en það býður landsmönnum meðal annars upp á segulómskoðun með tækjabúnaði sem er langtum fremri en það sem ríkið hefur upp á að bjóða.
Þá var embættið sektað í tíð Ölmu fyrir að virða ekki lagafyrirmæli um útboðsskyldu í opinberum innkaupum í milljarðaviðskiptum.
Tý þykir undarlegt að það sé heitasta ósk Samfylkingarfólks að Alma Möller verði næsti heilbrigðisráðherra. Spor Svandísar Svavarsdóttur hræða.
Týr er einn af föstum ritstjórnardálkum Viðskiptablaðsins. Þessi pistill birtist fyrst í Viðskiptablaðinu sem kom út 30. október 2024.