Lýðskrum og gengisfelling efnahagslegra staðreynda er umtalsverð hér á landi.

Lýðskrum og gengisfelling efnahagslegra staðreynda er umtalsverð hér á landi.

Þannig las Týr á dögunum aðsenda grein frá Stefáni Ólafssyni, félagsfræðingi Eflingar, um eitthvað sem hann kallar „hættulegar hugmyndir“ hægri manna um að ríkisútgjöld séu sérstaklega mikil hér á landi í samanburð við önnur þróuð ríki.

Stefán ber í greininni saman heildarútgjöld Evrópuríkja og kemst að þeirri niðurstöðu að útgjöld íslenska ríkisins séu hlutfallslega lág hér á landi í hinu evrópska samhengi,

***
Gallinn er bara sá að Stefán leiðréttir ekki fyrir útgjöldum til varnarmála annars vegar og mismunandi skipulagi á lífeyrisskerfum ríkjanna í samanburðinum.

Í flestum samanburðarríkjunum eru lífeyrisstryggingar fjármagnaðar að stærstum hluta af hinu opinbera. Því er ekki að skipta hér á landi. Ef ekki er leiðrétt fyrir þessu þá eru umsvif íslenska ríkisins vanmetin. Það er einmitt það sem félagsfræðingur Eflingar gerir.


Hinn eðlilegi og rétti samanburður tekur tillit til þessa og ef stuðst er við þá aðferðafræði kemur í ljós að útgjöld og umsvif ríkisins eru hvergi meiri en hér á landi miðað við önnur ríki.

Mikilvægt er að halda þeirri staðreynd til haga. Hún segir okkur að óraunhæft er með öllu að auka ríkisútgjöld mikið frekar – verðmætasköpun heimila og fyrirtækja stendur hreinlega ekki undir slíkri stefnu í ríkisfjármálum.

***

Þessi málflutningur minnir Tý á málflutning þeirra sem halda því fram að það sé enginn orkuskortur hér á landi.

Slíkur málflutningur byggir á þeirri firru að hætta hreinlega að selja raforku til stórnotenda og beina henni frekar til heimila og sérverkefna sem eru boðberum þessa málflutnings þóknanlegar.

Vissulega er þetta fræðilegur möguleiki en hann felur það í sér að draga verulega úr gjaldeyristekjum þjóðarbúsins og færa lífskjör áratugi aftur í tímann. Það fylgir sjaldnast sögu þeirra sem telja að hér á landi sé enginn orkuskortur.

Týr er einn af föstum ritstjórnardálkum Viðskiptablaðsins. Þessi pistill birtist í blaðinu sem kom út 19. júní 2024.