Eins og fram kom í stefnuræðu Kristrúnar Frostadóttir forsætisráðherra á mánudag er helsta áhugamál ríkisstjórnarinnar að draga úr styrkjum til fjölmiðla.
Stjórnarþingmenn á borð við Sigurjón Þórðarsson hafa þannig hugsað sér gott til glóðarinnar og vonast til þess að geta nýtt sér málið til að koma höggi á Morgunblaðið. En minna hefur verið fjallað um hvað takmarkanir á hámarki ríkisstyrks kunni að hafa á rekstur annarra fjölmiðla. Sem kunnugt er þá er rekstur Sýnar erfiður um þessar mundir og ljóst er að lækkun ríkisstyrksins mun hraða fyrirsjáanlegum hagræðingaraðgerðum til muna að öllu öðru óbreyttu.
Hrafnarnir telja annars að fyrirkomulag ríkisstyrkja til fjölmiðla sé með öllu fráleitt en að sama skapi sé galið að ríkisvaldið haldi niðri fjölmiðlarekstri hér á landi með því að eyða ríflega sex milljörðum af skattfé landsmanna í rekstur Ríkisútvarpsins meðan aðrir fjölmiðlar berjast í bökkum.
Huginn og Muninn er einn af ritstjórnardálkum Viðskiptablaðsins. Þessi pistill birtist fyrst í Viðskiptablaðinu.