Fyrir faraldur var þörf á að ræða eignarhald á rekstri Keflavíkurflugvallar, en nú er nauðsyn. Við núverandi eignarhald bera skattgreiðendur einir áhættu vegna sveiflna í ferðamannafjölda, á sama tíma og fyrirhugaðar eru gríðarmiklar og löngu tímabærar fjárfestingar í innviðum flugvallarins. Ríkið getur að sjálfsögðu áfram átt hlut í rekstrinum líkt og víða tíðkast, til dæmis á Kaupmannarhafnarflugvelli – sem Íslendingar eru einmitt svo hrifnir af. Flugvöllurinn var áður fyrr alfarið í eigu danska ríkisins en árið 1990 var rekstrarfélaginu breytt í hlutafélag og árið 1994 losaði danska ríkið um 25% hlut og skráði félagið á markað. Á árunum sem fylgdu dró ríkið enn frekar úr eignarhaldi og frá árinu 2000 hefur eignarhlutur ríkisins verið undir 40% en á meðal stærstu eigenda í dag er kanadískur lífeyrissjóður. Aðkoma fjárfesta hefur reynst flugvellinum mikil lyftistöng, sama hvaða mælikvarði er skoðaður.

***

Með aðkomu fjárfesta fylgir ekki aðeins fjármagn og áhættudreifing, heldur einnig verðmæt reynsla og þekking, ásamt auknu aðhaldi í rekstri. Það er óhætt að fullyrða að fjölbreyttara eignarhald í rekstri yrði Keflavíkurflugvelli og landsmönnum öllum til heilla, og kæmi sér afar vel í þeim risastóru stækkunarverkefnum sem fram undan eru. Hægt er að tryggja hagsmuni almennings vegna hlutverks flugvallarins í samgönguinnviðum landsins í regluverkinu. Ríkið hefði áfram tekjur af rekstrinum í gegnum eignarhald og skattheimtu en verulega myndi draga úr áhættu ríkissjóðs. Af einhverjum ástæðum er þessi umræða algjört tabú.

Týr er einn af skoðanadálkum Viðskiptablaðsins, þennan má lesa í heild sinni í blaðinu sem kom út 23. júní 2022.