Það er vafalaust til marks um hraða þróun gervigreindarinnar að kjósendur sáu ekki ástæðu til þess að veita Birni Leví Gunnarssyni eða öðrum Pírötum brautargengi í alþingiskosningunum um helgina.

En þar með er ekki sagt að þingferill Björns Levís hafi verið erindisleysa. Þvert á móti má lýsa þingferli Björns sem þrotlausri þekkingarleit enda var hann óþreytandi að senda fyrirspurnir á ráðuneyti um hin ýmsu þjóðþrifamál. Maður sem biður um skriflegt svar við spurningum um hverjar séu óskrifaðar reglur Alþingis er augljóslega ómissandi.

***

Ef Björns hefði ekki notið við hefðu Íslendingar enga vissu fyrir því að nafn höfuðborgar landsins sé Reykjavík. Þeir hefðu ekki hugmynd um hversu margir Íslendingar voru bitnir af hundum á árunum 2014-2018 svo einhver dæmi séu tekin um hið gagnlega aðhald sem fólst í þingsetu Björns.

Á síðustu árum hefur Björn sérstaklega beitt sér í bankamálum. Það var hann sem kom auga á að Bjarni Benediktsson, þáverandi fjármálaráðherra, hefði selt föður sínum heitnum Íslandsbanka og afhjúpaði markaðsmisnotkun í aðdraganda fyrsta útboðsins á hlut ríkisins í bankanum.

Honum fannst tortryggilegt hversu lágt gengi bréfa Íslandsbanka var daginn sem útboðið fór fram og grunaði hann að þetta mætti rekja til markaðsmisnotkunar. Björn tók að vísu ekki tillit arðleysisdags sem útskýrðu lækkunina sem Birni þótti svo dularfull en eins og svo oft áður þótti honum betra að veifa röngu tré en öngvu.

***

Það sem einkenndi þingferil Björns Levís var viljinn til þess að setja sig inn í málin en hann hélst í hendur við hina þrotlausu þekkingarleit. Þannig spurði hann á Alþingi í fyrra: „Hvaða vextir hafa verið í boði fyrir ríkissjóð í hverjum mánuði á undanförnum tveimur árum, flokkað eftir verðtryggðum og óverðtryggðum vöxtum?“ Venjulegt fólk hefði sótt sér þessar upplýsingar á Keldunni eða hjá Lánamálum ríkisins.

Björn er auðvitað enginn venjulegur maður og sér Týr mikið eftir honum af Alþingi. En hann huggar sig við það að fjölmargir nýgræðingar eru að taka sæti á þingi og munu þeir eflaust gera sitt besta til þess að fylla upp í það skarð sem Björn skilur eftir sig.

Týr er einn af föstum ritstjórnardálkum Viðskiptablaðsins. Þessi birtist fyrst í blaðinu sem kom út 4. desember 2024.