Hugtakið „mennt er máttur“ er okkur flestum kunnugt.

Þessi þýðing á skrifum heimspekingsins Francis Bacon frá árinu 1597 er þó hálf ankannaleg og væri í raun réttara að hafa eftir honum að þekking sé máttur (e. knowledge is power). Þrátt fyrir að góð menntun geti vissulega opnað ýmsar dyr er það nefnilega þekking, vitneskja og hæfni sem gerir mannauð okkar eftirsóttan í augum vinnuveitenda – og þessa þekkingu má nálgast víðar en í hefðbundna skólakerfinu, enda krefjast ekki öll störf sömu hæfni, og við kjósum heldur ekki öll að feta sams konar menntaveg.

Hvort sem formlegri skólagöngu okkar lýkur á grunn-, framhalds- eða háskólastigi, er staðreyndin sú að við erum aldrei fullkomlega undirbúin fyrir verkefnin sem okkar bíða á vinnumarkaði. Flest okkar læra sífellt eitthvað nýtt, enda fylgir kvikur raunveruleikinn sjaldnast skýrum ramma skólastofunnar. Það virðist oft gleymast að okkur bjóðast fjölbreytt tækifæri til þess að rækta þekkingu okkar og færni samhliða daglegum störfum. Umgjörð er þegar til staðar sem gerir atvinnurekendum og starfsfólki kleift að fá umtalsverða endurgreiðslu kostnaðar við fræðslu og menntun starfsfólks. Eðli máls samkvæmt sækist vinnuveitandi eftir starfsfólki með meiri þekkingu en minni. Auk þess þykir flestum ánægjulegt að bæta við þekkingu sína og hæfni, ekki síst ef það greiðir leið fólks að auknum starfsframa.

Umgjörð er þegar til staðar sem gerir atvinnurekendum og starfsfólki kleift að fá umtalsverða endurgreiðslu kostnaðar við fræðslu og menntun starfsfólks.

Fjöldinn allur af námskeiðum og réttindum á mörgum sviðum standa starfsfólki á íslenskum vinnumarkaði til boða. Hér eru reknir fjölmargir starfsmenntasjóðir sem ætlað er að styrkja þekkingaröflun starfandi fólks. Þessir sjóðir hafa oftar en ekki orðið til í tengslum við kjarasamninga og eru gott dæmi um ábatasamt samstarf atvinnurekenda og verkalýðsfélaga. Því miður eru sjóðirnir ekki nýttir sem skyldi á sama tíma og fólk veigrar sér við kostnaði sem getur fylgt því að sækja sér þekkingar sem myndi reynast því sjálfu og atvinnurekendum dýrmæt.

Taka má dæmi af einstaklingi sem fær 130.000 króna styrk úr starfsmenntasjóði til að ljúka meiraprófi sem kostar alls 600.000 krónur. Þó sannarlega muni um styrkinn þarf viðkomandi að leggja út nærri hálfa milljón króna úr eigin vasa. Ef vinnuveitandinn hefði greitt 340.000 þúsund krónur af kostnaðinum gæti hann fengið 300.000 krónur endurgreiddar úr starfsmenntasjóði. Heildarstyrkur vegna námsins gæti því numið 430.000 krónum. Kostnaður starfsmannsins hefði orðið umtalsvert lægri. Dapurlegt er að velta fyrir sér hversu mörg hafa veigrað sér við að sækja sér réttindi eða aðra þekkingu vegna kostnaðar án þess að átta sig á því að styrkir hefðu getað staðið undir stórum hluta hans. Þegar upp er staðið bitnar þetta bæði á starfsfólki og atvinnurekendum.

Áttin er sameiginlegt verkefni atvinnurekenda og launafólks á almennum vinnumarkaði. Um er að ræða vefgátt sem auðveldar fyrirtækjum að sækja um í marga fræðslu- og starfsmenntasjóði með einni umsókn, sérstaklega fyrirtækjum með fjölbreyttan hóp starfsfólks sem skráður er í mismunandi stéttarfélög.

Það er undir fyrirtækjunum komið að setja skýra fræðslustefnu, taka þátt í kostnaði og nýta starfsmenntasjóðina. Aðildarfyrirtæki ýmissa starfsmenntasjóða eiga rétt á allt að þremur milljónum króna í styrki, óháð stærð.

Starfsafl, sem er einungis einn fjölmargra starfsmenntasjóða, greiddi í fyrra 350 milljónir króna í styrki til einstaklinga en 40 milljónir til fyrirtækja. Það er undir fyrirtækjunum komið að setja skýra fræðslustefnu, taka þátt í kostnaði og nýta starfsmenntasjóðina. Aðildarfyrirtæki ýmissa starfsmenntasjóða eiga rétt á allt að þremur milljónum króna í styrki, óháð stærð. Það eru þeirra eigin hagsmunir að nýta þessa styrki og halda áfram að bæta við mannauð sinn – öllum aðilum til hagsbóta.