Breytingar eru alls staðar og það er hægt að finna hliðstæðu í ýmsu. Þannig vísa ég oft til breytinga í náttúrunni eins og sjávarföll og öldur. „Það er alda breytinga í vændum“, segi ég oft og fylgi því eftir með orðunum „Eruð þið tilbúin? Ætlið þið að standa ölduna eða lenda undir henni?“

Eflaust finnst mörgum svona orðaleikur jafnvel klisjukenndur, en lykilskilaboðin eru þó mikilvæg: Gerum þetta vel. Verum tilbúin.
Sjaldan er ein báran stök
Með tímanum hef ég aftur á móti horft á samlíkinguna við öldur öðrum augum. Báran er nefnileg sjaldan stök. Öldur eru fjölmargar og þær ná, hægt og bítandi, að breyta landslagi strandlengjunnar. Með tímanum valda þær gríðarlegum breytingum, á meðan ein alda hefur svo gott sem engin áhrif.
Þessi myndlíking á vel við breytingar á vinnustöðum. Hversu oft hafa breytingar verið framkvæmdar þannig að það var bara ein alda? Eitt Excel skjal, eitt gæðaskjal, eitt skipurit, ein stefna, eitt námskeið, eitt fréttabréf, einn starfsmannafundur, ein vinnustofa eða ein skýrsla. Ein bára.
Svo breytist ekkert og leiðtogar breytinga pirra sig á því að fólk skuli ekki taka við sér. Auk þess geta öll hlutaðeigandi orðið þreytt á breytingum sem engu skila. Kunnugleg frásögn?
Auðmýkt fyrir breytingum
Árangur í breytingum felst nefnilega í því að samhæfa og samstilla mörg skref í eina samhangandi vegferð. Öldugang. Vegferðin sameinar kokteil aðferða sem eru bæði skipulagslegar og mannlegar auk þess sem þeim er fylgt vel eftir.
Til viðbótar við ofangreint kennir þessi myndlíking ákveðna auðmýkt fyrir breytingum. Öldur breyta heilmiklu, en það tekur tíma. Þannig er mikilvægt að vera auðmjúkur fyrir því að stóra breytingin, sem er búið að undirbúa í langan tíma, er bara ein alda. Mikilvægt er að vera taktískur, hrinda af stað mörgum samhangandi öldum og ná fram breytingunni með þolinmæði og herkænsku að vopni.
Þegar þú ferð af stað í næstu breytingarvegferð, spurðu þig; Er þetta alda eða öldugangur?
Höfundur er stjórnunarráðgjafi í breytingum hjá Viti i ráðgjöf.