Meginhlutverk Viðskiptaráðs, eins og það hefur verið skilgreint í samþykktum ráðsins, er að bæta rekstrarumhverfi fyrirtækja á Íslandi og skapa þannig forsendur til aukinnar verðmætasköpunar og bættra lífskjara. Þetta er göfugt markmið og mikilsvert og ekki síður það hlutverk ráðsins að efla skilning almennings á mikilvægi þess að takmarka ríkisafskipti. Ráðið hefur þannig verið drjúgur samherji í baráttunni við útþenslu báknsins sem hér skal þakkað sérstaklega fyrir, enda veitir ekki af.
Viðskiptaráð byggir á gömlum merg, en mikilvægast finnst mér að það hefur alla tíð verið uppspretta nýrra hugmynda. Trúið mér; jarðvegur fyrir slíkt er oft misfrjór, en ég hef alltaf litið á það sem skyldu okkar stjórnmálamanna að tala fyrir hugmyndum, spyrja alvöru spurninga og leita lausna. Ég hef stundum kallað slíkt skynsemishyggju og gleðst yfir því að sífellt fleiri átti sig á gagnsemi hennar.
Að fara vel með opinbert fé
Dæmi um kjarnann í þeirri skynsemishyggju, sem ég aðhyllist og hef talað fyrir á umliðnum árum, er viljinn til þess að fara vel með opinbert fé og dæla ekki stjórnlaust úr sameiginlegum sjóðum okkar. Það er bein fylgni milli hárrar verðbólgu og vaxta og útgjalda ríkisins, en það þarf kjark til þess að segja hlutina eins og þeir eru og taka ákvarðanir í samræmi við það. Í vinsældakeppni augnabliksins er svo freistandi að snúa kíkinum að blinda auganu og prenta meiri peninga. En við vitum öll að slíkt endar að lokum með ósköpum.
Það er ekkert nýtt að ég telji hallalaus fjárlög mikilvæg. Þegar ríkisstjórnin, sem ég veitti forsæti, tók við árið 2013, var það strax fyrsta markmið okkar og tókst í fjárlögunum ári seinna. Fyrirfram höfðu ekki margir trú á því að það tækist, en úrtöluraddir mega aldrei stýra för. Það þarf kjark og þor til að fylgja hugsjónum sínum eftir.
Eftir á að hyggja var þetta auðvitað heilmikið afrek. En ef maður trúir því að galdurinn sé ekki alltaf að hækka skatta og gjöld, opnast manni sýn á allskonar hagræðingartækifæri. Verkefnin okkar hljóta að vera mismikilvæg, ekki satt? Það má stundum spyrja: Er þetta ekki óþarfi? Ég hef nefnilega alltaf verið þeirrar skoðunar að bætt nýting fjármuna og niðurskurður á óþarfa útgjöldum séu nauðsynlegur aðgerðir til að ná fjárlögum í rétt horf.
Þetta er auðvitað hvorki einfalt né sársaukalaust. Stjórnmálamaðurinn sem vill sýna aðhald og að forstöðumenn ríkisstofnana haldi sig innan fjárheimilda fær á sig óþægilegan þrýsting hagsmunahópa og fjölmiðla. En það hjálpar óneitanlega að vera knúinn áfram af sannfæringu.
Barist gegn bákninu
Átt þú reynslusögu? var fyrirsögn fréttatilkynningar sem Miðflokkurinn sendi frá sér fyrir nokkrum árum, þar sem við biðluðum til almennings um hjálp við að berjast gegn bákninu. Við vorum, eins og margir fleiri, orðnir undrandi á því hve auðvelt margt borgaralega þenkjandi fólk átti með að auka nánast stjórnlaust ríkisútgjöldin og vildum virkja almenning með okkur í vörnina. Við auglýstum líka eftir sögum þeirra sem lent hefðu í „kerfinu“, mætt óbilgirni af hálfu hins opinbera, eða upplifað óeðlilegar hindranir stjórnkerfisins við stofnun eða rekstur fyrirtækja í daglegu lífi.
Markmiðið var auðvitað að stuðla að betra lífi fyrir almenning, aukinni verðmætasköpun og því að ríkið gæti betur nýtt peninga skattgreiðenda til að standa undir mikilvægri þjónustu. Viðbrögðin voru framar öllum vonum og þess vegna undraðist ég ekki þátttöku í samráðsgátt við málaleitan nýrrar ríkisstjórnar um tillögur til hagræðingar. Ég fagna þessari viðleitni, þótt ég leyfi mér að benda á að ekkert sé nýtt undir sólinni. Aðalatriðið er að gera eitthvað með framkomnar tillögur; þora að stinga á kýlin og spyrja alvöru spurninga. Hvernig til tekst á eftir að koma í ljós.
En verkefnið gæti ekki verið mikilvægara. Allir sem þekkja vaxtakjörin hér á landi geta vottað um það. Ég heyri oft spurt: Hvers vegna eru vextir alltaf svona háir á Íslandi? Svarið felst í stjórn efnahagsmála. Það er ekkert lögmál að þeir séu háir, eða beintengt við gjaldmiðilinn okkar. Vextirnir voru ekkert svona háir fyrir fáeinum árum en það var vegna þess að þá var styrk efnahagsstjórn. Vextirnir eru afleiðing óstöðugrar efnahagsstjórnar, óráðsíu þeirra sem töldu sig vera í keppni um að slá öll met í ríkisútgjöldum. Með því að safna skuldum fyrir komandi kynslóðir.
Ríkisstjórninni sem fór frá eftir kosningar tókst á ævintýralegan hátt að tvöfalda ríkisútgjöld í krónum talið. Þetta var hreint ótrúlegt afrek en það sérkennilegasta af öllu er að það hafi tekist að eyða svona miklum peningum og auka útgjöldin svona mikið án þess að fá meira fyrir það. Að við skulum sitja uppi með heilbrigðiskerfi þar sem biðlistarnir hafa ekki styst að neinu ráði og sums staðar lengst, þar sem bráðamóttaka Landspítalans er yfirfull allan daginn og fólk þarf að bíða heillengi. Þetta er ekki í lagi og allra síst þegar svona miklum peningum hefur verið útdeilt að það fáist ekkert fyrir það fyrir samfélagið. Skattgreiðendur þurfa að borga og borga. En hvað fá þeir fyrir? Það er ráðgáta sem enn er ósvarað.
Margt fleira mætti nefna í þessum dúr. Verkefni sem ég hef gagnrýnt frá fyrstu tíð og reynt að verjast með skynsemina að vopni. Nýr Landspítali á miðri umferðareyju í Þingholtunum, jafnvel þótt allir hafi séð að það væri ekki hagkvæmt. Svarið er alltaf hið sama, að þetta sé löngu ákveðið og því þurfi bara að halda vitleysunni áfram, enda þótt hagkvæmara, betra og skjótvirkara væri að byggja annars staðar. Sömu rök verða bráðum nefnd um ýmsa hluta hinnar arfavitlausu borgarlínuframkvæmdar. Munið það, þegar fregnir berast af því að kostnaðaráætlanir hafi margfaldast. Ég gæti rætt svona áfram um td menntakerfið eða uppbyggingu innviða.
Þurfum breytta stefnu
Hvernig stendur á því að svona gerist aftur og aftur? Jú, þetta gerist þegar menn fara af stað í vegferð án þess að vita hvert förinni er heitið. Það er sárt til þess að hugsa, að kjarkmiklar aðgerðir gegn kröfuhöfunum höfðu gjörbreytt stöðu ríkissjóðs. En það tók ekki langan tíma að eyða því öllu og safna svo skuldum fyrir komandi kynslóðir og kynda verðbólgubálið. Hverjir borga það á endanum? Það er almenningur í landinu.
Þetta gengur auðvitað ekki til lengdar. Við þurfum breytta stefnu, öðruvísi fjárlög. Við þurfum að innleiða skynsemishyggju aftur á Íslandi. Ég vona að í íslensku atvinnulífi hafi margir áttað sig á því og viti hvar mig og okkur í Miðflokknum er að finna. Það er verk að vinna.
Höfundur er formaður Miðflokksins og fv. forsætisráðherra.
Greinin birtist í sérblaðinu Viðskiptaþing 2025.