„Ein meginskýring á lítilli fjárfestingu innan geirans á síðustu árum má rekja til þeirrar óvissu sem nú ríkir um framtíð fiskveiðistjórnunar í landinu en eðli málsins samkvæmt er öll óvissa til þess fallin að draga úr frekari fjárfestingu. Ekki er ólíklegt að þessi þróun haldi áfram ef marka má fyrri viðbrögð greinarinnar við slíku óvissuástandi.“
Tilvitnun þessi er úr skýrslu sem Arion banki gerði vegna boðaðra breytinga á fiskveiðistjórnunarkerfinu árið 2011. Höfundur er Kristrún Frostadóttir, þá hagfræðingur bankans en nú forsætisráðherra.
Nú hyggst ríkisstjórn Kristrúnar Frostadóttur hækka verulega gjaldtöku í sjávarútvegi, sem jafnvel felur í sér tvöföldun veiðigjalds í einu vetfangi, án nokkurs mats á áhrifum þess á sjávarútveg eða samfélagið. Þessi fyrirætlan er í mikilli andstöðu við áherslu Kristrúnar Frostadóttur í aðdraganda kosninga, þegar hún lagði sérstaka áherslu á fyrirsjáanleika og stöðugleika kerfisins. Nú ríkir þvert á móti fullkomin óvissa um það sem er í vændum.
Sjávarútvegsfyrirtæki hafa nýtt viðunandi afkomu undanfarinna ára og fjárfest í nýjum skipum og skipsbúnaði, húsnæði og hátæknibúnaði fyrir vinnslu, markaðsstarfi, nýsköpun og vöruþróun. Þessar fjárfestingar hafa skilað ríkissjóði, sveitarfélögum og þjóðinni allri meiri tekjum af sjávarauðlindinni en nokkur önnur þjóð fær.
Sé litið til aldurs skipaflotans og markmiða í loftslagsmálum þarf fjárfestingin hins vegar að vera mun meiri. Nú eru aðeins tvö stærri skip í smíðum og miðað við fyrirætlanir ríkisstjórnarinnar er varla að vænta stórra tíðinda í fjárfestingum fram á veginn.
Þetta ætti að vera tilefni til þess að staldra við þegar rætt er um skattahækkanir í sjávarútvegi. Fjárfesting er ekki munaður, heldur nauðsynlegur þáttur í verðmætasköpun og samkeppnishæfni – og þar með auknum tekjum ríkisins til lengri tíma. Fyrirhugaðar skattahækkanir munu því miður hafa þveröfug áhrif.
En þetta vissi hagfræðingurinn Kristrún Frostadóttir allt árið 2011.