Í seinni tíð virðast tilfinningar oftsinnis fá vægi umfram staðreyndir. Við vorum minnt á þetta í síðustu viku þegar almenningur var sannfærður um að flugfélög stæðu betur í sjálfbærni en sjávarútvegsfyrirtæki.
Þau síðarnefndu tilheyra reyndar þeirri grein sem hefur dregið mest úr brennslu kolefnis af öllum greinum, greiða hæstu laun allra atvinnugreina í hagkerfinu, standa fremst í nýsköpun, nýta nánast hvert einasta bein úr sjónum, greiða hlutfallslega hæstan skatt af hagnaði og leggja ríkulega til hinna ýmsu góðgerðarmála. Það er kannski ráð almannatengla að eyða meiri fjármunum í opinbert mont og umbúðir og minni fjármunum til björgunarsveita og neyðaraðstoðar í Úkraínu.
Það er blessunarlega erfiðara að rífast um staðreyndir og tölur.
Lengi hefur sjávarútvegur setið undir því að hann greiði of lítið til samfélagsins, þrátt fyrir að opinber gögn sýni annað. Í vikunni héldu SFS fund þar sem tveir af virtustu hagfræðingum landsins kynntu skýrslu um hagræn áhrif veiðigjalds. Þar er á því vakin athygli, að þegar veiðigjaldinu er bætt við tekjuskattinn og fjármagnstekjuskatt af arðgreiðslum þá er virkur tekjuskattur vegna fiskveiða 58% af hagnaði.
Að áliti sumra stjórnmálamanna dugar þessi ofurskattlagning ekki til. Í frumvarpi sem matvælaráðherra kynnti í vor var lagt til að virkur tekjuskattur af botnfiskveiðum yrði hækkaður í 71% af hagnaði og virkur tekjuskattur af uppsjávarveiðum yrði 83% af hagnaði. Af hverjum 100 kr. í hagnað af uppsjávarveiðum eiga þannig 83 kr. að renna í ríkissjóð og 17 kr. eiga að duga til endurnýjunar skipa og búnaðar og ávöxtunar til hluthafa, þ.m.t. lífeyrissjóða, svo það helsta sé nefnt.
Þróun í þessa veru er beinlínis hættuleg hagsæld Íslendinga. Augljóst er að sjávarútvegur mun ekki leggja ríkulega til góðra lífskjara komandi kynslóða ef engar eru fjárfestingarnar og engin er ávöxtun hluthafa. Þá mun sjávarútvegur smám saman visna upp og litlu skila til samfélagsins. Skatttekjurnar verða þá að sama skapi minni, en alls ekki meiri.
Er það framtíðarsýn stjórnvalda?
Höfundur er framkvæmdastjóri Samtaka fyrirtækja í sjávarútvegi.