Þegar stjórnvöld eru innt eftir því hvers vegna matvælaverð er hærra á Íslandi en á víðast hvar á meginlandi Evrópu, ætti svarið að vera einfalt. Ísland er fámenn eyja á norðurhjara veraldar. Punktur! Ekkert annað ætti að geta útskýrt stöðuna. Við nánari skoðun kemur því miður í ljós að aðkoma stjórnvalda er meðal ástæðna fyrir þessum verðmun.
Virk samkeppni virkar
Eitt öflugasta verkfærið sem stjórnvöld hafa til að bæta hag neytenda er að tryggja virka samkeppni. Í virku samkeppnisumhverfi hagnast neytendur, því þeir geta valið hagstæðustu tilboðin, út frá verði og gæðum.
Framleiðendur keppast þá við að framleiða vöru eða þjónustu sem hefur ákjósanlegustu samsetningu verðs og gæða í augum neytenda. Sé samkeppni ekki til staðar, er hætt er við því að verð og gæði endi hins vegar í því sem hentar framleiðandanum best. Þetta er í hugum flestra nokkuð auðskilið. Og þess vegna er samkeppnislöggjöfinni ætlað að standa vörð um samkeppni, ekki einstaka samkeppnisaðila.
Hver kýs hærra matvælaverð?
Með því að leggja tolla á innflutta matvöru hamla stjórnvöld virkri samkeppni á grundvelli verðs og gæða. Sú afleiðing, að verð til neytenda hækki, er ekki hliðarvirkni af tollafyrirkomulagi, heldur bókstaflega tilgangur tolla.
Með tollum á innflutta matvöru halda stjórnvöld því matvælaverði á Íslandi viljandi hærra en þörf krefur. Ólíklegt hlýtur að teljast að kjósendur í nýafstöðnum Alþingiskosningum hafi greitt hærra matvælaverði sitt atkvæði og því verður að spyrja hvers vegna stjórnvöld ættu að kjósa hærra matvælaverð til hins almenna borgara.
Alþjóðleg viðskipti eru forsenda lífsgæða á Íslandi
Þrátt fyrir að tollar hækki verð til neytenda á Íslandi eiga tollar sína fylgismenn. Sú afstaða er m.a. varin með þeim rökum að án verndartolla leggist íslensk framleiðsla af. Þetta útskýrir þó illa hvers vegna verndartollar eru á vörum sem ekki eru framleiddar á Íslandi. Eða hvers vegna íslensk framleiðsla hefur ekki hafist á vörum sem njóta nú þegar tollverndar. Líkast til er það vegna þess að tollar eru klunnalegt verkfæri sem getur aðeins hækkað verð, meðan hvatar til framleiðslu eru vandmeðfarnari nákvæmnistól.
Þá ber einnig að hafa í huga að frá því Ísland byggðist, hefur lykillinn að velsæld falist í viðskiptum við útlönd. Vissulega er Ísland og íslensk efnahagslögsaga gríðarlega rík af auðlindum. En þessar auðlindir eru hins vegar ekki mjög fjölbreyttar. Þess vegna hafa Íslendingar ávallt verið og munu líkast til ávallt verða, háðir því að flytja út eigin framleiðslu, sem gerir kleift að kaupa fjölbreyttari framleiðslu hvaðanæva að úr heiminum.
Virk samkeppni um að selja íslenska vöru út og erlenda vöru til Íslands ætti því að vera keppikefli íslenskra stjórnvalda, sem umhugað er um velsæld almennings.
Hræðsluáróður um að Ísland þurfi að vera sjálfbært um allar lífsins nauðsynjar, og að án tolla á innfluttan varning verði því markmiði stefnt í hættu, stenst ekki skoðun. Sér í lagi vegna þess að hversu óraunhæft slíkt markmið er. Til að taka slíkan áróður trúanlegan þarf því að horfa frekar valkvætt bæði á Íslandsöguna og meginkenningar hagfræðinnar.
Þegar horft er til þess að það er íslenskur almenningur sem á endanum fjármagnar tolla á matvöru, hlýtur að mega krefja stjórnvöld um útskýringar á því hvers vegna hefðbundnar hagfræðikenningar um hagkvæmni og virka samkeppni skuli ekki eiga við um matarinnkaup almennings.
Gegn betri vitund
Því miður er ástæðan fyrir því að matvælaverð er hærra á Íslandi en á meginlandi Evrópu, ekki aðeins sú að við búum á fámennri eyju á norðurhjara veraldar, heldur er skýringa einnig að leita hjá stjórnvöldum og þeirri meðvituðu ákvörðun að nýta ekki til fulls það augljósa verkfæri sem virk samkeppni er. Stjórnvöld ættu að vita betur.
Höfundur er lögfræðingur Samtaka verslunar og þjónustu.