Gunnar Baldvinsson, framkvæmdastjóri Almenna lífeyrissjóðsins, birti áhugaverða grein á vef Viðskiptablaðsins síðastliðinn föstudag. Þar bendir hann á að háttalag íslenskra stjórnvalda á undanförnum árum sé með þeim hætti að lífeyrissjóðir kunni að vera nauðbeygðir til að endurmeta áhættu­mat sitt.

Gunnar nefnir þrjú dæmi um hvernig fram­ganga stjórnvalda hefur magnað upp pólitíska áhættu í rekstri lífeyrissjóðanna. Tvö þeirra eru mál sem ráðherrar í ríkis­stjórn Kristrúnar Frostadóttur hafa lagt fram, en það þriðja fékk stjórnin í arf frá ­fyrri ríkisstjórn.

„Í áhættustefnu lífeyrissjóða er pólitísk áhætta skilgreind sem hættan af því að aðgerðir eða aðgerðaleysi stjórnvalda hafi ­áhrif á getu sjóðanna til að greiða lífeyri – til dæmis með því að auka lífeyrisbyrði eða rýra eignir sjóðanna.

Hingað til hefur þessi áhætta verið metin sem veigalítil, þó svo að líkur á atburðum hafi verið hækkaðar á undanförnum árum, meðal annars vegna aukinnar lýðhyggju (popúlisma) í stjórnmálum í heiminum.

Nú bregður hins vegar svo við að ný­legar aðgerðir innlendra stjórnvalda kunna að hafa svo mikil áhrif að sjóðirnir þurfi að hækka áhættustigið og meta hættuna sem verulega – með tilheyrandi aðgerðum sem miða að því að minnka mögulegt tjón ef áhættan raungerist.“

Gunnar segir að hótanir stjórnvalda um að keyra ÍL-sjóð í þrot á meðan samningaviðræður kröfuhafa og ríkisins stóðu yfir – þrátt fyrir skýr ákvæði um ríkisábyrgð í skilmálum skuldabréfa sem voru gefin út af hinum sáluga Íbúðalánasjóði – séu dæmi um aukna pólitíska áhættu í efnahagslífinu.

Sú áhætta hefur nú raungerst með framlagningu tveggja frumvarpa. Annars ­vegar frumvarp sem bannar lífeyrissjóðum að líta framhjá örorkulífeyrisgreiðslum frá almanna­tryggingum. Verði frumvarpið að lögum er horfið frá því grundvallar­sjónarmiði að enginn skuli vera betur ­settur fjárhagslega eftir tjón en fyrir það. Hins vegar frumvarp atvinnuvegaráðherra um ­hækkun veiðigjalda.

Um fyrra frumvarpið segir Gunnar:

„Afleiðingar þess verða að örorkulífeyris­byrði sjóðanna hækkar, en á móti lækka elli­lífeyrisgreiðslur. Í raun felur frumvarpið í sér þá megin­breytingu að lífeyrissjóðirnir taka við hlutverki almannatrygginga og verða fyrsta stoð örorkulífeyrisgreiðslna hjá þeim sem eru með lágmarkstryggingu hjá lífeyris­sjóðunum. Megintilgangur lífeyrissjóða er hins vegar að taka við iðgjöldum sjóðfélaga og ávaxta þau til að greiða ellilífeyri.

Í umsögn Talnakönnunar um frum­varpið er bent á að ellilífeyrisgreiðslur ein­stakra lífeyrissjóða gætu lækkað um allt að 5% til 7,5% ef frumvarpið verður samþykkt.“

Um það síðara bendir Gunnar á grein­ingar sem sýna að hækkun veiðigjaldanna leiði til þess að markaðsverð þeirra ­þriggja sjávarútvegsfyrirtækja sem eru skráð í Kauphöllina muni lækka um 53 milljarða – eða rúmlega 13%. Afleiðingar frumvarps­ins hafa ekki látið á sér standa; þegar ­þetta er skrifað hefur markaðsverð félaganna ­lækkað um og yfir 20% á árinu 2025.

Hann heldur áfram:
„Þegar lífeyrissjóðirnir fjárfestu í sjávar­útvegsfélögunum þremur mátti þeim vera ljóst að veiðigjöld gætu hækkað, miðað við umræður og stefnuskrár einstakra stjórnmálaflokka.
Ég held að flestir hafi reiknað með hóf­legum hækkunum veiðigjaldanna – eða að meiriháttar breytingum yrði dreift yfir langt tímabil. Enginn eða fáir reiknuðu hins vegar með svo mikilli hækkun og á svo skömmum tíma. Forsendur fjárfestinganna eru ger­breyttar og verðmæti þeirra og áætluð framtíðarávöxtun hefur lækkað, sem hefur bein áhrif á sjóðfélaga.“

Þessi skrif ber að taka alvarlega – enda er mikið í húfi. Gunnar segir að þegar stjórnvöld geri svo afgerandi breytingar hljóti það að leiða til endurmats á pólitískri áhættu, sem meðal annars geti falist í endurskoðun á lífeyrisréttindum og fjárfestingar­stefnu. Þá segir hann að lífeyrissjóðirnir hljóti að hugsa sig tvisvar um þegar rætt er um samstarf við stjórnvöld – til dæmis um fjár­mögnun á ýmsum opinberum verkefnum og innviðum.

Þessi leiðari birtist fyrst í Viðskiptablaðinu sem kom út 8. júlí 2025.