Það gerist ekki margt eftirminnilegt á Íslandi annað en að veðrið er misvont. Sumir telja að fátt markvert hafi átt sér stað hér á landi eða ekki síðan Búbbi skoraði úr hjólhestaspyrnunni á móti Austur Þjóðverjum.

Óháð fábreytninni er einnig ljóst að stjórnmálamenn þjóðarinnar eru ekki jafn afkastamiklir og áður. Það hefur verið einkennandi fyrir þingstörfin hvað ráðherrum tekst í raun og veru að koma fáum málum í gegn. Þarna á Týr fyrst og fremst við viðamikil og stefnumótandi mál.

Þingstarfið snýst að mestu um innleiðingu Evrópureglna, samþykkt fjárlaga og dyggðarskreytingar og annað félagsstarf Pírata í samblandi við evruraus Viðreisnar og upphrópanir Flokks fólksins. Ekki skemmtilegt stöff í augum þeirra sem neyðast til þess að fylgjast með þinginu sökum starfa eins Týr gerir. Hann hefur fullan skilning á því að þingmenn eins og Þórhildur Sunna Ævarsdóttir og Bjarni Jónsson kjósi að verja stærstum hluta ársins erlendis fjarri þingstörfum á kostnað skattgreiðenda.

***

Það eru kostir og gallar við hversu verklitlir þingmenn eru orðnir á síðari tímum. Augljós kostur við að ekki þarf að hafa miklar áhyggjur af því að þeir hrindi misgáfulegum hugmyndum sínum í framkvæmd.

Verði mynduð vinstri stjórn að loknum næstu alþingiskosningum þarf ekki að hafa miklar áhyggjur af ráðherrum ríkisstjórnar Kristrúnar Frostadóttur. Þeir eru ekki líklegir til þess að umbylta öllu þjóðfélaginu ólíkt því sem átti sér stað þegar Jóhanna Sigurðardóttir og Steingrímur J. Sigfússon stýrðu skútunni í tíð síðustu vinstri stjórnar.

En gallinn við þetta verkleysi er auðvitað sá að stundum þurfa stjórnvöld að leysa ákveðin verkefni. Eitt af brýnustu verkefnum sem núverandi ríkisstjórn stendur frammi fyrir er að er að ná tökum á ríkisfjármálunum og viðvarandi útgjaldaaukningu sem hefur einkennt valdatíð Katrínar Jakobsdóttir. Takist það ekki eru litlar líkur að verðbólga lækki og aðstæður skapist fyrir bærilegt vaxtastig til frambúðar.

Engin merki sjást enn um að það muni takast. Þess í stað hefur ríkisstjórninni fyrst og fremst verið umhugað um að viðhalda þenslu á byggingamarkaðnum í miðbænum þar sem hver monthöllin hefur verið reist af annarri til að hýsa rekstur stofnana ríkisins. Fram kom á árinu að ríkisstarfsmönnum hefur fjölgað gríðarlega mikið undanfarinn áratug og langt umfram það sem hefur átt sér stað á hinum almenna vinnumarkaði. Það er löngu tímabært að komið verði böndum á þessa þróun.

***

Þessi offramleiðsla á ríkisstarfsmönnum á sér mörg birtingarform. Eitt það fegursta er að finna í ranni ráðherra þessa lands. Eins og allir vita þurfa ráðherrar ríkisstjórnarinnar aðstoð – mikla aðstoð.Þrefalt meiri aðstoð en þeir fengu fyrir tæpum tuttugu árum.

Ráðherrar í ríkisstjórn Katrínar Jakobsdóttur eru tólf og hafa þeir sér til aðstoðar tuttugu og sex aðstoðarmenn. Þetta eru þrefalt fleiri aðstoðarmenn en voru í fjórða ráðuneyti Davíðs Oddssonar á árunum 2003-2004. Í raun voru ráðherrar að jafnaði með einn aðstoðarmann hver fram til ársins 2010.

Síðan þá hefur þeim farið ört fjölgandi og hafa þeir aldrei verið fleiri en nú. Týr telur sjálfsagt að þeir sem þurfi hjálp leiti sér aðstoðar. Ekki myndi hann þó klappa fyrir framgöngu ráðherranna og ekki er ástæðan eingöngu sú að hann er einhentur eftir vinnuslys sem átti sér stað fyrir nokkru. Þessi þróun endurspeglar skeytingarleysi ráðamanna um skattfé almennings. Þessi fjölgun aðstoðarmanna bætist við þá miklu fjölgun sem hefur orðið á allra handa sérfræðingum í Stjórnarráðinu undanfarinn áratug. Ef miðað er við að laun og launatengd gjöld séu 1,5 milljónir á mánuði er kostnaðurinn við að hver ráðherra hafi 2,17 aðstoðarmenn að meðaltali tæplega 160 milljónir á kjörtímabili.

Týr á erfitt með að sjá af hverju ráðherrar þurfa svo miklu meiri aðstoð en þeir gerðu fyrir tveimur áratugum. Kannski leiddi ítarleg þarfagreining í ljós að einn aðstoðarmann þarf til að taka myndina og annan til að henda inn færslunni á Instagram.

***

Stjórnarandstaðan býr ekki yfir neinum lausnum í þessum efnum aðrar en þær að auka útgjöld enn meira og hækka skatta enn frekar. Helsta hráefnið í orðasalati stjórnarandstöðunnar í umræðunni um verðbólguvandann og hlutverk ríkisins er skattahækkanir. Alla jafna er horft til sjávarútvegsins og fjármagnstekna í þessum efnum. Skattspor útvegsins hleypur nú þegar á tugmilljörðum króna á ári hverju. Það er barnalegt að halda því fram að hægt sé að auka það enn frekar til að standa undir tugmilljarða útgjaldaaukningu ríkisins til viðbótar.

Fjármagnstekjur einstaklinga námu samkvæmt Hagstofunni um 240 milljörðum í fyrra. Fólk eldra en sextugt greiddi meira en helminginn af þessari upphæð í fjármagnstekjur. Stærsti hluti þessa hóps eru ellilífeyrisþegar. Er þetta sá hópur sem horft er til þegar boðaðar eru stórfelldar hækkanir á fjármagnstekjuskatti til að fjármagna frekari ríkisútgjöld.

***

Það er eitt að vera verklítill og annað að vanrækja grunnskyldur sínar. Á meðan stjórnmálamenn hafa verið uppteknir að ræða um sjálfbærni og orkuskipti á allra handa fundum og ráðstefnum undanfarinn áratug gleymdist það alveg að raforka er mjög gagnleg í nútímasamfélögum. Raforkuframleiðsla hefur ekki haldist við þróun samfélagsins og vöxt hagkerfisins í tæpa tvo áratugi. Af þessum sökum er orkuskortur fyrirsjáanlegur hér á landi á næstu árum. Eitthvað sem mun hafa mikil áhrif á hagvöxt og vaxtarhorfur efnahagslífsins.

Fyrsta lausn ráðamanna við þessu alvarlega vandamáli var að reyna að færa Höllu Hrund Logadóttur orkumálastjóra alræðisvald þegar kemur að skömmtun á raforku til næstu tveggja ára og afnema samkeppnismarkað með sölu á raforku.

***

Týr hefur miklar áhyggjur af orkuöryggi landsins og telur að því fyrr sem stjórnmálamenn vakna upp af þessum vonda draum því betra. Það sama gildir um uppbyggingu raforkuinnviða sem og innviða er tengjast heitavatnsframleiðslu. Yfirvofandi hætta á eldsumbrotum við og í nágrenni Grindavíkur minnir á að lítið þurfi út af bregða til að afhending raforku og heits vatns á Reykjanesi fari í uppnám.

Eins og flestir vita þá hefur verið vart við heitavatnsskort á höfuðborgarsvæðinu undanfarna vetur. Þannig þurfti að loka fjölda sundlauga í fyrravetur vegna þess að framleiðsla Orkuveitu Reykjavíkur annaði ekki álagi.

Í fjárhagsáætlun OR sem lögð var fram í fyrra koma ekki fram nein áform um að bora nýjar heitavatnsholur þrátt fyrir að varað sé við hættu á heitavatnsskorti fyrir hver jól en miklar fjárfestingar voru kynntar í Carbfix og Ljósleiðaranum. Þetta getur ekki talist eðlileg forgangsröðun. Á sama tíma búa Vestmannaeyingar við mikla óvissu um hvert aðgengi þeirra að rennandi vatni verður á næstu misserum eftir að akkeri skaddaði vatnsleiðslu sem liggur milli lands og eyja. Ljóst er að lyfta þarf grettistaki í fjárfestingu í innviðum og uppbyggingu á raforkuinnviðum. Það starf þarf að hefjast umsvifalaust.

***

Og ef menn ætla að halda áfram að tefja fyrir virkjunum og uppbyggingu raforkuinnviða þá sér Týr ekki annan kost í stöðunni en að Landsvirkjun fjárfesti í uppbyggingu kjarnorkuvers sem hægt er að finna stað á Álftanesi. Þannig gæti Landsvirkjun fjárfest í litlu og fallegu kjarnorkuveri frá Westinghouse sem framleiðir 300 MW. Það kostar einungis einn milljarð Bandaríkjadala og hefur Landsvirkjun auðveldlega ráð á slíkri fjárfestingu. Eins og sést á myndinni þá er kjarnorkuverið reist eftir sömu teikningu og vel flestar kirkjur á landsbyggðinni.

Til að lesa meira

Hægt að er kaupa áskrift að Viðskiptablaðinu, Fiskifréttum og Frjálsri verslun hér.

Verð frá 2.749 kr. á mánuði