Menn og málleysingjar á Hellu er búnir að fá sig fullsadda af verðlagningunni í einu kjörbúð bæjarins. Um er að ræða verslunina Kjörbúðina sem rekin er af Samkaup sem einnig rekur verslunarkeðjuna Nettó.
Fram kom í umfjöllun fjölmiðla að íbúar töldu verð á kattanammi, kaffi og mjólk vera alltof hátt í Kjörbúðinni og að Hellubúar geri sér sérstaka ferðir til Hvolsvallar og Selfoss til að koma nauðsynjar á skaplegri kjörum. Tekið var dæmi um kattarnammi sem er tæplega 700 krónum dýrara á Hellu en á höfuðborgarsvæðinu.
Þéttir kettir á Hellu geta hugsað Páli Gunnari Pálssyni forstjóra Samkeppniseftirlitsins þegjandi þörfina. Þegar Samkeppniseftirlitið fjallaði um samruna N1 og Festi á sínum tíma krafðist það þess að sameinað félag myndi hætta starfsemi á Hellu og selja verslunina Kjarval.
Þetta átti að tryggja heilbrigða samkeppni á suðurlandsundirlendinu. Tý þykir það frekar merkilegt að fækkun verslana eigi að treysta samkeppni að mati eftirlitsins. En á endanum keypti Samkaup rekstur Kjarvals á Hellu af Festi. Væntanlega við mikinn fögnuð sérfræðinga Samkeppniseftirlitisns að ekki sé minnst á kæti sérstakra kunnáttumanna um land allt.
Og eins og fram kom í frétt Vísis um málið þá þurfa nú Hellubúar að gera sér ferð til nágrannasveitarfélagsins til þess að kaupa kattanammi og kaffi í Krónunni á Hvolsvelli. Allt er þetta bein afleiðing af óskiljanlegum inngripum Samkeppniseftirlitsins vegna samruna Festi og N1 á sínum tíma.
Týr er einn af skoðanadálkum Viðskiptablaðsins.