Hrafnarnir eru eðli málsins samkvæmt vanir flugi og ferðalögum og kalla ekki allt ömmu sína í þeim efnum. En eins og fram hefur komið á þessum vettvangi að undanförnu hafa þeir fylgst grannt með ferðalögum þingmanna að undanförnu. Yfirferð þingmanna er þvílík að hrafnarnir verða hreinlega þreyttir í vængjunum á að fylgjast með.

Á þessu þingi hafa fimmtíu þingmenn farið í fjórar fræðsluferðir til útlanda með tilheyrandi kostnaði fyrir skattgreiðendur. Hrafnarnir velta fyrir sér hvort að skattgreiðendur eigi rétt á að vita hversu vísari þingmenn eru eftir að hafa sótt sér fróðleik í erlendum stórborgum.

Þannig gæti Bjarkey Olsen Gunnarsdóttir formaður fjárlaganefndar útskýrt hvað hún lærði í heimsókn fjárlaganefndar í franska þingið á dögunum og höfuðstöðvar Efnahags- og framfarastofnunarinnar. Það yrði einnig gaman að heyra hvað Gísli Rafn Ólafsson, Hanna Katrín Friðriksson og félagar þeirra atvinnuveganefnd lærðu um hvernig DNB bankinn stendur að veðlánastarfsemi í fiskeldi þegar þau snúa heim frá Osló úr fræðsluferð í vikulok.

En hrafnarnir sjá að þingmenn fara ekki eingöngu í fræðsluferðir. Þeir taka virkan þátt í bráðnauðsynlegu alþjóðastarfi á borð við starf Alþjóðaþingmannasambandsins. Vorþing þess hefst á laugardag og fer fram í þetta sinn í Manama í Barein í Persaflóa. Hröfnunum þykir Barein undarlegur vettvangur lýðræðisveislu þingmanna enda er konungsríkinu stjórnað með harðri hendi og hefur valdhöfum eyríkisins verið sökuð um alvarleg mannréttindabrot.

Það er einmanalegt að ferðast einn til framandi landa. Þess vegna fara þrír íslenskir þingmenn á þessa vorhátíð í Persaflóanum: Berglind Ósk Guðmundsdóttir, Jóhann Friðrik Friðriksson og Sigmundur Davíð Gunnlaugsson. Einnig sendir þingið starfsmann sinn til að vera þingmönnum til halds á traust á meðan á ferðalaginu stendur.

Barein er alveg eins og Mjóddin

Þingið stendur yfir dagana 11. – 15. mars. Barein er eins og Mjóddin því þar er alltaf gott veður. Spáin fyrir þessa daga er því góð – hægviðri og hiti hátt í 30 gráður á meðan á vorþinginu stendur. Ættu því þingmenn að snúa aftur sællegir eftir hin áríðandi þingstörf.

Huginn og Muninn er einn af skoðanadálkum Viðskiptablaðsins.