Það verður engin verðmætasköpun í samfélögum nema fólk þori að taka áhættur, láti slag standa – er ekki talað um að kýla á það?
Þjóðfélög sem ekki kunna að meta athafnaþrá, stórhug og frumkvæði – er ekki einboðið að þau staðni og dragist aftur úr?
Í vikunni var athafnamaðurinn og séntilmaðurinn Björgólfur Guðmundsson borinn til grafar. Fjölmenn erfidrykkja var haldin í Hörpu, en með aðkomu sinni að félaginu Portus, hafði hann á sínum tíma forgöngu um að tónlistarhúsið yrði loks að veruleika, þó að hann næði ekki sjálfur að ljúka því verki. Það er umhugsunarefni að hann kom aðeins einu sinni í húsið eftir að það varð tilbúið.
Tillaga Portusar varð hlutskörpust í samkeppni um hönnun tónlistarhúss með stórkostlegum glerhjúpi Ólafs Elíassonar og hófust framkvæmdir í ársbyrjun 2007, en stöðvuðust í október 2008 í alþjóðlega bankahruninu, sem sumir héldu að ætti upptök sín á Íslandi – og halda jafnvel enn. Þá stóðu stjórnvöld frammi fyrir þeirri ákvörðun hvort ætti að halda verkinu áfram eða breyta hálfbyggðu húsi í undarlegan minnisvarða um alþjóðlegt bankahrun. Það var í alvöru til umræðu. Sem betur fer varð úr að halda áfram með þessa stórhuga framkvæmd, enda nær ómögulegt að ímynda sér borgarlandslagið án Hörpunnar. Húsið opnaði svo árið 2011, en þá voru 130 ár liðin frá því hugmyndin birtist fyrst á prenti í Þjóðólfi.
Í samtali sem ég átti við hljómsveitarstjórann og virtúósinn Vladimir Ashkenazy af því tilefni sagði hann ávinninginn stórkostlegan fyrir menningarlíf landsins. Hann hafði staðið fyrir styrktartónleikum þremur áratugum fyrr með Lundúnasinfóníunni, Karl Bretaprins og lafði Díana voru í salnum að ógleymdri Vigdísi. „Vigdís Finnbogadóttir kom á tónleikana og formfesti þannig þörfina fyrir tónlistarhús í huga almennings,“ sagði hann.
Það þarf marga til að hugmynd fæðist og verði að veruleika. Björgólfur átti stóran þátt í því hvernig til tókst. Hann á heiður skilinn fyrir það. Það þarf stórhuga menn til að skapa verðmæti. Í Hörpu uppskerum við á hverjum degi.
Höfundur er ráðgjafi og fjölmiðlamaður.