Í Landnámu er sagt frá Þórólfi smjör Þorsteinssyni. Þórólfur var einn af frumkvöðlum ferðamannaiðnaðarins hér á landi og fékk hann viðurnefnið smjör vegna landkynningarátaks sem hann stóð fyrir í Noregi á sínum tíma.

Þórólfur fullyrti sem sagt að smjör drypi af hverju strái hér á landi. Látum liggja milli hluta hvort þetta sé raunsæ lýsing á landsins gæðum en það er ekki að ástæðulausu að nafn þessa fylgdarmanns Hrafna-Flóka kemur upp í hugann þegar fylgst er með orðræðu íslenskra verkalýðsleiðtoga um hvar gæðin sé að finna sem þeir hyggjast útdeila eftir næstu kjarasamninga.

***

Ragnar Þór Ingólfsson, formaður VR, er í ákveðnum sérflokki hér á landi þegar kemur að digurbarkalegum en vafasömum fullyrðingum um stöðu efnahagsmála. Þó er það sjaldnast hermt upp á hann í fjölmiðlum ef hann heldur einhverju fram sem ekki á við rök að styðjast.

Á mánudag birti Hagstofan tölur um kaupmáttarþróun á öðrum ársfjórðungi. Kaupmáttur ráðstöfunartekna dróst saman um ríflega sex prósent á ársfjórðungnum á sama tíma og heildartekjur heimila jukust um 11,8%. Eins og gefur að skilja þá er viðvarandi verðbólga ástæða kaupmáttarrýrnunarinnar.

Af þessu tilefni ræddi Ævar Örn Jósepsson, fréttamaður RÚV og faðir Þórhildar Sunnu hins víðförla þingmanns Pírata, í hádegisfréttum sama dag. Það vekur athygli að Ragnar Þór segir í samtali við RÚV að þessi kaupmáttarrýrnun sé „í takt við greiningu og spár félagsins og ljóst að staðan sé hrikaleg fyrir heimilin í landinu.“ Ekki veit fjölmiðlarýnir hvort formaðurinn er með þessu að viðurkenna að hann og samstarfsfólk hans hafi gert sér grein fyrir að síðustu kjarasamningar myndu auka verðbólgu og grafa undan lífskjörum.

Eins og fjallað var um á þessum vettvangi fyrir viku þá eru ástæðurnar fyrir því að vextir og verðbólga eru hærri hér á landi en á meginlandi Evrópu fyrst og fremst þær að laun hér á landi hafa hækkað langtum um meira en framleiðni undanfarinn áratug eða svo. Sé vísitala launa hér á landi borin saman við þróunina á Norðurlöndum og á evrusvæðinu kemur nöturlegur sannleikur í ljós. Miðað við árið 2009 hafa laun á evrusvæðinu hækkað um 30% en á sama tíma hækkuðu þau hér um 120%. Þegar litið er til hækkunar launa á árunum 2021 til 2022 kemur það sama á daginn. Laun hér á landi hækkuðu um 13% á þessu tímabili meðan þau hækkuðu um tæplega fimm prósent á meginlandi Evrópu.

***

Í fréttinni kveður svo Ragnar gamalt stef og vísar í „greiningar VR á framlegðarhlutföllum og -aukningu sýni það svart á hvítu að fyrirtækin hafi tekið allar kostnaðarhækkanir, sama hvaða nafni þær nefnist, og velt þeim út í verðlagið og gott betur“.

Ragnar hefur áður vísað í slíkar greiningar og aðrar sem eiga að sýna að fyrirtæki hvar sem fæti er stigið niður græði á tá og fingri á kostnað sauðsvarts almúgans. Gallinn við þennan málflutning er að VR hefur aldrei birt slíkar greiningar og niðurstöður. Hefur þó verið eftir því leitað meðal annars af blaðamönnum Viðskiptablaðsins.

Í fréttinni er haft eftir Ragnari:

Allar afkomutölur – þótt þær geti náttúrulega verið breytilegar – sýna það að fyrirtækin hafa grætt ævintýralega síðustu ár. Og eins og staðan er búin að vera núna síðustu misseri, þá hefur vöxturinn í ferðaþjónustunni og reyndar öllum atvinnugreinum, hvort sem það eru útflutningsgreinarnar, stóriðjan eða sjávarútvegurinn, ferðaþjónustan, dagvaran, tala nú ekki um fjármálakerfið, bankana, sem eru í einhverjum sérflokki þegar kemur að arðsemi, að þá hefur verið sannkallað góðæri þar og smjör dropið af hverju strái.“

Ekki er vitað með hvaða gögn sérfræðingar unnu með þegar þeir komust að því að framlegðarhlutfall hækki án afláts og fyrirtæki hagnist sem aldrei fyrr. Að minnsta kosti er ekki hægt að draga þessa ályktun af ársreikningum fyrirtækja í verslun og þjónustu, útflutningi og fjármálaþjónustu.

Af lestri þeirra sést meðal annars að framlegðarhlutfall Haga og Festar hefur fallið verulega á undanförnum árum. Framlegðarhlutfall Haga fór í 25% árið 2018 en hefur verið kringum 19% undanfarin misseri. Framlegð Festar var í 25% á árunum 2021 til 2022 en hefur verið rétt ríflega 20% undanfarið.

Og þótt bankarnir skili háum afkomutölum þá er arðsemi eigin fjár hinn raunverulegi mælikvarði á rekstur þeirra. Frá árinu 2018 hefur arðsemi bankanna verið minni en gengur og gerist í öðrum atvinnugeirum og þó svo að hún hafi batnað undanfarið er arðsemi þeirra minni en gengur og gerist hjá stærstu bönkum Evrópu og Norðurlanda.

Áþreifanlegasta vísbendingin um að ekki drjúpi smjör af hverju strái hvert sem litið er í atvinnulífinu er að finna á hlutabréfamarkaðnum. Þar er að finna einhvers konar þverskurð íslensks atvinnulífs og eins og lesendur Viðskiptablaðsins vita mætavel þá hefur fátt annað heyrst en harmakvein úr þeirri átt í allt of langan tíma.

***

Á fjórða tug starfsmanna Grundarheimilanna var sagt upp í síðustu viku. Ástæða uppsagnarinnar var sögð erfiðari rekstrarskilyrði sjálfseignarstofnunarinnar. Það sem vakti athygli við uppsagnirnar var að Sólveig Anna Jónsdóttir, formaður Eflingar, tók að sér að tilkynna starfsmönnunum um uppsagnirnar. En vafalaust má finna á því skýringar í þeirri staðreynd að á skrifstofu Eflingar er mikil þekking á hópuppsögnum.

Uppsagnirnar vöktu töluverða athygli í fjölmiðlum sem leituðu í miklum mæli eftir áliti Sólveigar Önnu á þeim. Eins og oft áður stóð ekki á kröftugum yfirlýsingum Sólveigar sem sagði meðal annars að „ræstingakonum“ hafi verið sagt upp „svo karlarnir geti grætt meira“. Á fimmtudagskvöld var svo rætt við Sólveigu Önnu í kvöldfréttum Stöðvar Tvö. Þar gaf hún lítið fyrir útskýringar um að reksturinn gengi illa:

Í fyrsta lagi gengur rekstur Grundarheimilanna ekki illa. Við höfum skoðað ársreikninginn og þar er ekkert sem bendir til þess að eitthvað sé að.“

Fréttamaður Stöðvar 2 gerði ekki athugasemdir við þessa fullyrðingu. Vafalaust hafði hann ekki haft fyrir því að líta á afkomu áður en hann leitaði viðbragða Sólveigar við uppsögnunum. Það er ekki tímafrekt að komast að því að viðvarandi taprekstur hefur verið á rekstri Grundarheimilanna frá árinu 2014. Uppsafnað tap á þessum tíma nemur tæpum milljarði. Það þarf ekki mikla sérfræðiþekkingu til þess að draga þá ályktun af lestri ársreikninga stofnunarinnar að reksturinn sé langt frá því að vera sjálfbær. Það er því skiljanlegt að forráðamenn Grundarheimilanna grípi til aðgerða til að hagræða í rekstrinum.

***

Ásgeir Brynjar Torfason, viðskiptafræðingur og sérlegur kunnáttumaður um hlutverk þvottabjarna í milliríkjasamskiptum, hefur verið ráðinn ritstjóri vikuritsins Vísbendingar. Af því tilefni var hann til útvarps í Sprengisandi, þætti Kristjáns Kristjánssonar á Bylgjunni.

Viðtalið var merkilegt fyrir margra hluta sakir og Ásgeir verður seint sakaður um að vera boðberi viðtekinna hagfræðilegra hugmynda. Þannig gagnrýndi hann Seðlabankann harðlega fyrir að hækka vexti og sagði að það eina rétta í stöðunni væri að keyra hagkerfið áfram á neikvæðum raunvöxtum. Vafalaust eru skiptar skoðanir – svo ekki sé sterkar að orði kveðið – um hvort það gagnist að ná niður verðbólgu að keyra hagkerfið á neikvæðum raunvöxtum þegar hagvöxtur mælist um 4%, atvinnuleysi er ekkert og ríkið er rekið með miklum halla. Eigi að síður talaði Ásgeir eins og sá sem valdið hefur og þáttastjórnandi benti ekki á að hér væri í besta falli um jaðarskoðun að ræða.

Þá sagði Ásgeir Brynjar að það væri til marks um hversu erfið staða heimilanna væri að „gríðarleg aukning hafi orðið á yfirdráttarlánum“. Þetta er merkileg fullyrðing ekki síst fyrir þær sakir að hún er ekki alls kostar rétt. Litlar breytingar hafa orðið á yfirdráttarlánum til heimila og í raun hafa yfirdráttarlán íslenskra heimila aldrei verið lægri sé miðað við hlutfall af landsframleiðslu.

Síðar í þætti Kristjáns heyrðist svo ágætt dæmi um hvaða afleiðingar það getur haft fyrir umræðuna þegar álitsgjafar fá óáreittir að fullyrða einhverja vitleysu. Þá var Björn Leví Gunnarsson, þingmaður Pírata, farinn að vísa í málflutning Ásgeirs Brynjars og tala um það ófremdarástand sem ríkti vegna aukningar yfirdráttarlána heimilanna.

Fjölmiðlarýni er einn af föstum dálkum Viðskiptablaðsins. Þessi birtist fyrst í blaðinu sem kom út 4. október 2023.