Þórunn Sveinbjarnardóttir, formaður stjórnskipunar- og eftirlitsnefndar Alþingis, er gott dæmi um það nútímalega frjálslyndi sem einkennt hefur starf Samfylkingarinnar eftir að Kristrún Frostadóttir tók við völdum í flokknum
Í anda þess frjálslyndis hefur Þórunn komið því í gegn að nefndin sem hún stýrir ætlar að ráðast í svokallaða frumkvæðisathugun á netverslun með sölu áfengis. Hrafnarnir átta sig reyndar ekki á hvert markmið nefndarinnar er með þessu annað en að eyða tíma þingmanna til einskis. Hvað þarf að athuga?
Hér er rekin netsala með áfengi og málarekstri gegn slíkri sölu hefur verið vísað frá dómstólum. En það eru auðvitað dómstólar en ekki nefndir Alþingis sem skera úr um lögmæti slíkrar sölu rétt eins og það er hlutverk Alþingis að setja slíkri starfsemi lagaumhverfi. Hrafnarnir sjá ekki að á þingi sé meirihluti fyrir því að banna slíka sölu þannig að Þórunn þarf að svara hver sé tilgangur þessa nefndarbrölts hennar.
Huginn og Muninn er einn af föstum ritstjórnardálkum Viðskiptablaðsins. Þessi pistill birtist fyrst í blaðinu sem kom út 12. júní.